Steinþór Ólafsson
Steinþór Ólafsson
Steinþór Ólafsson skrifar um varnarsamstarf Íslands og Noregs: "Það eru mikil mistök að fá Norðmenn inn á gafl hjá sér, því reynsla Íslendinga af Norðmönnum í öllum samningaviðræðum er slæm."

Í GREIN minn um versta óvin Íslands varaði ég eindregið við Noregi. Ég færði rök fyrir því að Noregur hefði mestra hagsmuna að gæta að hertaka Ísland og innlima það sem eitt fylki í Noregi. Nú hefur það komið í ljós, að Norðmenn hafa ótvíræðan áhuga á að taka að sér "varnir Íslands", þ.e. að koma sér upp hernaðaraðstöðu á Íslandi. Í þessari grein vil ég gera grein fyrir öðrum valkosti, sem er miklu betri fyrir Íslendinga. Norðmenn hafa fyrr viljað fá hernaðarlega aðstöðu á Íslandi eða nánar tiltekið í Grímsey á 13. öld. Vitrir menn á Íslandi á þeim tíma sögðu það ógnun við öryggi Íslands að hafa norskan her svo nærri sér, sérstaklega vegna þess að Noregskonungur hafði fyrr sýnt áhuga á að fá meiri yfirráð og ítök á Íslandi. Mannkynssagan endurtekur sig alltaf, nema núna efast ég um vit og klókindi og heilindi íslenskra ráðamanna, sem virðast vera algjörlega "bláeygir" fyrir hættunni frá Noregi. Það eru mikil mistök að fá Norðmenn inn á gafl hjá sér, því reynsla Íslendinga af Norðmönnum í öllum samningaviðræðum er slæm. Í fyrri grein minni sagði ég að Norðmenn hefðu áhuga á Íslandi vegna eftirtalinna þátta: Sögulegra ástæðna (Norðmenn kenna enn í norskum skólum að Leifur heppni og Snorri Sturluson hafi verið norskir) og með því að viðurkenna ekki að bæði Leifur og Snorri voru íslenskir menn viðurkenna þeir í raun ekki heldur sjálfstæði Íslands; vegna fjárhagslegra hagsmuna og þá aðallega fiskveiðihagsmuna, en Íslendingar hafa verið aðalkeppinautar Noregs hvað varðar fisksölu á alþjóðamörkuðum. Með því að fá hernaðarlega yfirburði á Íslandi geta þeir auðveldlega hótað og ógnað Íslendingum til að fara að vilja sínum; og vegna hernaðarlegra hagsmuna, en Norðmenn telja sig sjálfskipaða lögreglu á hafsvæðinu norðan Íslands. Um hernaðarlegt mikilvægi Íslands er enginn ágreiningur. Norðmenn taka alvarlega hina miklu uppbyggingu rússneska hersins og þá staðreynd að Rússar verða komnir með einn fullkomnasta her í heimi eftir u.þ.b. 5–10 ár og þá vilja Norðmenn hafa miklu meiri ítök á hafsvæðinu milli Noregs og Grænlands. Að ráða yfir Íslandi er forsenda þess að Norðmenn ráði yfir þessu hafsvæði.

Lausnin á varnarmálum Íslendinga er ekki að fá norskar hersveitir til Íslands, vegna þess að í þeim felst miklu meiri ógn en vernd. Hins vegar er miklu mikilvægara og skynsamlegra að semja við NATO um að aðildarlöndin sendi hingað hernaðarlegar eftirlitssveitir, t.d. þannig að England, Frakkland Holland og Danmörk hafi eina flugvél hvert land og rökin eru þau að þá geta þessi lönd samhæft sig og æft sig saman. Annað mikilvægt atriði er að ekkert eitt land fær afgerandi stöðu hér á landi. Einnig er hægt að hugsa sér Balkanlanda-fyrirkomulagið, þ.e. að NATO-löndin sjái um varnir landsins í 5 vikur hvert land. T. d. Frakkland í 5 vikur og svo England í 5 vikur o.s.frv. Grundvallaratriðið er þó að varnirnar verði undir íslenskri stjórn.

Heimsmálin eru þannig í dag að Rússland er að hervæðast, sem setur Evrópu undir mikla hernaðarlega pressu, og einnig vegna orkumála, þar sem Evrópa er að verða meira og meira háð Rússum varðandi kaup á gasi og olíu. Hinn íslamski heimur er að hervæðast og leggur ofuráherslu á að koma sér upp kjarnorkusprengjum og þar eru einnig mestar líkur á að heimsófriður brjótist út. Kína og Indland hafa undirritað samstarfssamning, til að verða leiðandi afl í Asíu og eru að verða sterkustu löndin í heiminum í efnahagslegum skilningi. Enginn veit hvernig hervæðing þeirra kemur til með að verða en bæði löndin ráða yfir kjarnorkuvopnum. Öll efnahagsleg stórveldi sögunnar hafa byggt upp hernaðarleg stórveldi. Staða Rússa á milli tveggja ofurheimsvelda er óljós, en ég hallast að þeirri skoðun að Rússland gangi í hernaðarbandalag með Kínverjum og Indverjum. Ef þetta verður niðurstaðan, þá hafa Kína, Indland og Rússland u.þ.b. 5 milljarða manna á bakvið sig og svo hinsvegar Ameríka og Evrópa með u.þ.b. 5–7 hundruð milljónir manna.

Hver verður staða Íslands í þessari nýju heimsmynd? Grundvallaratriðið er að halda sjálfstæði Íslands og samtímis byggja upp varnir sem eru trúverðugar frá alþjóðasjónarmiði. Það gerist bara með nánara samstarfi við NATO, þar sem fjölþjóða samstarf á sér stað. Ísland er í NATO sem mun verða allt mikilvægara afl í hinni nýju heimsmynd. Versti valkosturinn er að fá norskar hersveitir til Íslands. Ég byrjaði að vara við norsku hættunni fyrir fimm árum og það kemur betur og betur í ljós að áhugi Norðmanna á Íslandi eykst bara og er alvarleg hótun fyrir sjálfstæði Íslands.

Höfundur er leiðsögumaður.