Hrönn Torfadóttir fæddist í Hafnarfirði 12. desember 1929. Hún lést 21. desember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru María Ólafsdóttir, f. 4. apríl 1901, d. 31. júlí 1971 og Torfi Björnsson, f. 13. júlí 1884, d. 17. júlí 1967. Þau slitu samvistum og fósturfaðir Hrannar var Ásgeir Páll Kristjánsson, f. 1. júlí 1900, d. 22. júlí 1970. Systkini Hrannar eru Guðjón Guðmundur, f. 1910, d. 1996, Guðný, f. 1914, d. 1993, Ólafur, f. 1918, Stefanía, f. 1922, d. 1994, Gunnar Már, f. 1924, Einar Karel, f. 1925 og Vilborg, f. 1927, Torfabörn, og Kristján Jóhann, f. 1932, Kristín Mikkalína, f. 1933 og Karólína Guðrún, f. 1939, Ásgeirsbörn.

Hinn 6. júní 1953 giftist Hrönn Óskari Ingiberssyni, skipstjóra og síðar útgerðamanni, f. í Keflavík 1. júlí 1923. Foreldrar hans voru Marín Jónsdóttir, f. 14. júní 1889, d. 11. apríl 1974 og Ingiber Ólafsson, f. 9. febrúar 1888, d. 10. nóvember 1935. Börn Hrannar og Óskars eru: 1) Kristín, f. 9 desember 1948, gift Mark McGuinness, sonur þeirra Marc Óskar Ames, kvæntur Juliet Ames og synir þeirra eru Spencer Óskar og Andrew Ingiber. 2) Karl Óskar, f. 3. nóvember 1954, sambýliskona Valborg Bjarnadóttir og börn þeirra Lilli Karen, d. 11. janúar 2004, og Bjarni Veigar. 3) Jóhanna Elín, f. 4. janúar 1956, sonur hennar er Óskar Marnó. 4) Ingiber, f. 15. september 1957, kvæntur Natalyu Gryshanina, dóttir þeirra er Kateryna. 5) Ásdís María, f. 16 október 1959, gift Þorgrími St. Árnasyni, dætur þeirra eru Hildur Elísabet og Hrönn. 6) Hafþór, f. 7. janúar 1962. 7) Albert, f. 13 júní 1968, kvæntur Ragnheiði Guðnýju Ragnarsdóttur, synir þeirra eru Ragnar Gerald, Aron Ingi og Hrannar Már.

Hrönn fluttist til Keflavíkur 1. maí 1952 til að aðstoða á heimili Guðrúnar og Jóhanns Guðmundssonar á Hringbraut 97. Hún kynntist eftirlifandi eiginmanni sínum og annaðist fyrst heimilið og uppeldi barna þeirra. Hrönn og Óskar stofnuðu fiskverkun Óskars Ingiberssonar árið 1974, sem síðar keypti vélbátinn Albert Ólafsson, KE-39. Þau ráku útgerðina ásamt sonum sínum til 1995. Hrönn var útgerðarstjóri, með öllu sem því fylgir á meðan Óskar reri til fiskjar. Etir að Óskar kom í land og lét skipstjórnina í hendur elsta sonar síns sáu þau sameininglega um rekstur fyrirtækisins. Hrönn var dugleg og ósérhlífin þannig að eftir var tekið og veittist henni sá heiður að draga þjóðhátíðarfána Keflavíkur að húni 17. júní 1993.

Útför Hrannar verður gerð frá Keflavíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku mamma, þá ertu farin frá okkur og ég sit hérna og rifja upp góðar minningar. Þú varst okkur krökkunum alltaf svo einstaklega góð, það var ekkert sem þú hefðir ekki gert fyrir okkur. Þú varst hörkukona og gafst okkur körlunum ekkert eftir hvort sem var í vinnu eða öðru. Ég man eftir þegar við vorum að vinna í verkuninni og þú fórst heim rétt fyrir hádegi til að elda mat fyrir okkur hin og fórst svo aftur niður í fiskhús á undan okkur til að koma öllu í gang aftur. Alltaf varstu mætt fyrst á morgnana, sama þótt þú værir nokkrum áratugum eldri en við strákarnir, þú og Soffía rudduð á undan ykkur verkunum og við áttum fullt í fangi með að halda í við ykkur. Þú gekkst í öll störf, hvort sem það var að keyra vörubíl til að ná í fiskinn, í verkuninni eða sjá um að bókhaldið væri í lagi.

Ég fékk að njóta mikilla samvista við þig þar sem ég er yngstur. Ég þvældist með þér út um allt og það voru ófá skiptin sem ég fór með þér í Reykjavík að útrétta fyrir útgerðina.

Þú reyndist okkur Röggu betur en enginn þegar við hófum okkar búskap og mættir með nýja uppþvottavél þegar við fluttum í okkar fyrsta hús saman. Strákunum mínum hefur þú alltaf verið alveg einstaklega góð og þér þótti gaman að fá að spilla þeim aðeins. Þeir vissu vel að amma átti oft appelsín í ísskápnum og eitthvað smá nammi hér og þar.

Þú hafðir mjög gaman af því að fara á körfuboltaleikina og fylgdist vel með mér á þeim vettvangi. En þú lést þér ekki nægja að horfa á leikina heldur varst farin að þvo búningana af liðinu líka. Þar er þér rétt lýst, þú varðst alltaf að hafa nóg fyrir stafni og ég veit fáar konur jafn duglegar og þú varst. Elsku mamma mín, takk fyrir allar góðu stundirnar og allt það sem þú hefur gert fyrir mig í gegnum árin, minning þín mun lifa með okkur og ég verð duglegur að segja honum nafna þínum sögur af ömmu sinni.

Elsku pabbi, guð styrki þig og okkur öll í sorginni.

Albert.

Ég sit hér á hátíð ljóssins og rifja upp í huganum minningar um hana Hrönn tengdamóður mína. Hvar á að byrja, má spyrja? Það má segja að ég hafi þekkt hana allt frá barnæsku, þar sem við Ingiber erum jafnaldrar og vorum bekkjarbræður gegnum bæði barna- og gagnfræðaskóla, eins og þessar stofnanir hétu í eina tíð.

Dugnaður og ósérhlífni Hrannar var henni í blóð borin, hvort heldur við leik eða störf. Til að byrja með sá hún um heimili þeirra Óskars og uppeldi sjö barna. Þrátt fyrir stórt heimili lét hún til sín taka á ýmsum vettvangi þar fyrir utan. Mér er minnistætt, þegar heimsókn knattspyrnuliðs frá Skotlandi stóð fyrir dyrum og ákvörðun um gistingu og matseld vafðist fyrir, þá tók Hrönn af skarið varðandi umsjón og eldamennsku fyrir hópinn. Hún leysti það verkefni, eins og önnur og stærri verkefni, af alúð og dugnaði.

Þegar ég fór síðan að venja komur mínar á Njarðargötuna til að heimsækja Ásdísi Maríu, yngstu dóttur þeirra hjóna, tók hún mér opnum örmum.

Við Ásdís María gengum í hjónaband, stofnuðum heimili og eignuðumst tvær dætur. Stelpurnar voru augasteinar Hrannar og þrátt fyrir langan og oft strangan vinnudag við fyrirtæki þeirra hjóna gaf hún sér tíma til að sinna ömmuhlutverkinu með sóma og stolti.

Að leiðarlokum vil ég þakka fyrir og tel það hafa verið forréttindi að hafa átt samleið með slíkri kjarnakonu sem Hrönn Torfadóttir var. Blessuð sé minning hennar.

Þorgrímur St. Árnason.

Hinsta kveðja

Hinsta kveðja

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson.)

Elsku amma, takk fyrir allar góðu stundirnar, guð geymi þig.

Kær kveðja, þínir ömmustrákar,

Ragnar Gerald, Aron Ingi og Hrannar Már.