Friðrik Ólafsson
Friðrik Ólafsson
FRIÐRIKSMÓT Landsbankans – Hraðskákmót Íslands 2006 fer fram í aðalútibúi Landsbankans í Austurstræti laugardaginn 30. desember kl. 13.

FRIÐRIKSMÓT Landsbankans – Hraðskákmót Íslands 2006 fer fram í aðalútibúi Landsbankans í Austurstræti laugardaginn 30. desember kl. 13. Mótið er öllum opið meðan húsrúm leyfir, en þátttakendur eru hvattir til að skrá sig í tölvupósti á netfangið siks@simnet.is fyrir kl. 10 á laugardag.

Aðalverðlaun verða veitt fyrir fimm efstu sætin, frá 100 þúsund krónum fyrir fyrsta sætið, og í 20 þúsund krónur fyrir fimmta sætið. Að auki verða ýmis aukaverðlaun veitt. Tefldar verða 15 umferðir með 5 mínútna umhugsunartíma á mann og er reiknað með að mótinu ljúki um kl. 16.

Þetta er þriðja árið í röð sem Landsbanki Íslands og Skáksamband Íslands standa fyrir Friðriksmótinu í skák, en mótið er haldið til heiðurs fyrsta stórmeistara Íslendinga, Friðriki Ólafssyni. Margir af sterkustu stórmeisturum landsins hafa undanfarin ár teflt til heiðurs Friðriki og búist er við að ýmsir af mestu skákmeisturum landsins verði með á laugardag, segir í fréttatilkynningu. Sigurvegari mótsins í ár hlýtur titilinn "Hraðskákmeistari Íslands 2006".