Smájeppi Tiguan er nokkuð minni bíll en Touareg.
Smájeppi Tiguan er nokkuð minni bíll en Touareg.
NÚ hefur það verið staðfest: Volkswagen setur á markað "lítinn" Touareg í lok næsta árs. Bíllinn, sem nú kallast Tiguan og er reyndar ennþá á hugmyndastigi, var sýndur á bílasýningunni í Los Angeles.

NÚ hefur það verið staðfest: Volkswagen setur á markað "lítinn" Touareg í lok næsta árs. Bíllinn, sem nú kallast Tiguan og er reyndar ennþá á hugmyndastigi, var sýndur á bílasýningunni í Los Angeles. Tiguan er nokkuð minni bíll en Touareg og er ætlaður til notkunar við allar aðstæður. Fyrstu vísbendingar um Tiguan var að finna í Concept A-bílnum sem sýndur var snemma á þessu ári í Berlín.

Tiguan-hugmyndabíllinn er með svokallaðri hreinni dísilvél (Clean TDI), sem er ný hönnun, næsta kynslóð dísilvélar. VW beitir nýjum aðferðum í þessari framtíðardísilvél til að draga enn frekar úr útblæstri skaðlegra lofttegunda. Ein aðferðin er þróun nýs hvarfakúts sem fangar nituroxíð og dregur úr magni þeirrar skaðlegu lofttegundar í útblæstri um allt að 90% í samanburði við aðrar vélar. Hrein dísilvél Volkswagens mun uppfylla ströngustu reglugerðir í heiminum varðandi útblástursmengun.

Klaus Bischoff, yfirmaður hönnunarmiðstöðvar Volkswagens í Wolfsburg, segir að mjög mikilvægt hafi verið að útlit bílsins bæri með sér að hann væri aflmikill. Jeppi þurfi að hafa langa vélarhlíf og háa sætastöðu. Það gefi ökutækinu yfirbragð öryggis og afls.

Hönnun Tiguan-hugmyndabílsins, sem var sérstaklega smíðaður fyrir sýninguna í Los Angeles, ber með sér að þarna sé á ferðinni bíll sem er jafnvígur í borgarakstri og grófari akstri þar sem reynir á getu utan vega.

Að framanverðu sver Tiguan sig í VW-ættina en samt svífur nýr andi yfir vötnum. Samspil hönnunar á vélarhlíf og framluktum gefur bílnum einbeittan svip, en gasframluktirnar, Xenon-ljósin, eru í sjálfu sér veisla fyrir augað, því engu er líkara en að lýsingin fljóti í lausu lofti innan luktarhússins. En það er samspil hinna ýmsu stílbragða sem gefa bílnum svipmótið. Tiguan er 4,40 m á lengd, 1,85 m á breidd og 1,69 m á hæð og hlutföll hans eru með þeim hætti að bíllinn er auðgreinanlegur frá flestum öðrum sportjeppum á götum stórborganna.

Þegar Tiguan er skoðaður frá hlið er engar merkingar að sjá sem segja að þarna fari Volkswagen-bíll, nema með því að rýna í merkið á 19 tommu felgunum. Engu að síður er augljóst við fyrstu sýn að Tiguan-hugmyndabíllinn er Volkswagen-ættar og það er sérstaklega frá þessu sjónarhorni sem að sjá má að skyldleikinn er mestur við Touareg. Óumdeilanlegt er að sportjeppinn á uppruna sinn í Evrópu, Þýskalandi nánar tiltekið.

Það skemmtilega við hugmyndabíla er að hönnuðirnir fá jafnan að leika lausum hala þegar kemur að hjólbörðum. Tiguan er á 19 tommu dekkjum sem Continental þróaði. Einkennandi fyrir hjólbarðana er appelsínugul rönd neðst á belgnum sem er í sama lit og Tiguan. Röndin er ekki máluð á dekkin heldur innbökuð í gúmmíið.

Hugmyndabíllinn er rúmgóður að innan. Boðið er upp á sömu þægindi fyrir ökumann og fjóra farþega og aftursætabekkurinn er niðurfellanlegur og stillanlegur. Með hann niðurfelldan er hægt að flytja hluti sem eru allt að 2,5 m á lengd í Tiguan og breyta honum þar með í sannkallaðan fjölnotabíl. Á fyrsta ársfjórðungi 2007 má búast við sértækari upplýsingum um bílinn og ýmsan nýstárlegan tæknibúnað sem kynntur verður í honum. Jafnframt verður þá um að ræða bílinn Tiguan en ekki hugmyndabíl með sama nafni.