Barnalán Barnsfæðingum og barnauppeldi fylgir óneitanlega álag fyrir foreldrana.
Barnalán Barnsfæðingum og barnauppeldi fylgir óneitanlega álag fyrir foreldrana. — Reuters
Að eignast mjög mörg börn er slæmt fyrir heilsuna – sérstaklega heilsu mæðranna, að því er sýnt er í nýrri rannsókn sem greint var frá á vef BBC . Bandarískir vísindamenn skoðuðu 21.

Að eignast mjög mörg börn er slæmt fyrir heilsuna – sérstaklega heilsu mæðranna, að því er sýnt er í nýrri rannsókn sem greint var frá á vef BBC .

Bandarískir vísindamenn skoðuðu 21.000 pör sem bjuggu í Utah á tímabilinu 1860–1985 og áttu samtals 174.000 börn.

Í ljós kom að því fleiri börn sem pörin áttu því verri voru þau til heilsunnar og líklegri til að deyja snemma. Framkvæmd rannsóknarinnar, sem gerð var á vegum Vísindaakademíunnar, er söguleg en sérfræðingar segja hana geta varpað ljósi á breytingaskeið kvenna og nútímafjölskylduna. Hjá öðrum tegundum hefur fórnarkostnaður þess að eignast og ala upp mörg afkvæmi sýnt fram á að það að eignast eins mörg afkvæmi og mögulegt er sé ekki besti kosturinn, þó að það geti talist árangursríkast til að viðhalda tegundinni. Rannsóknir höfðu ekki sýnt fram á að hið sama gilti um manninn.

Vísindamennirnir, sem voru frá háskólanum í Utah, greindu gögn frá 20. öldinni um fólksfjölda í Utah. Þeir komust að því að pör höfðu eignast að meðaltali átta börn, en fjölskyldustærðir gátu verið frá einu barni upp í fjórtán. Gögnin sýndu að eftir því sem börnin voru fleiri jókst hættan á að fólk dæi snemma. Verst kom þetta út fyrir konurnar vegna líkamlegs erfiðisins sem fylgdi því að að ala börnin. Áhætta feðra jókst einnig eftir því sem börnin voru fleiri en fór aldrei fram úr áhættu mæðranna. Sýndu rannsóknirnar enn fremur að 1.414 konur létust á fyrsta árinu eftir fæðingu yngsta barnsins og þegar barnið hafði náð fimm ára aldri höfðu 998 mæður í viðbót látist. Til samanburðar létust 613 feður á fyrsta árinu eftir fæðingu yngsta barnsins og 1.083 í viðbót þegar barnið var orðið fimm ára. Eftir því sem fjölskyldur voru stærri voru börnin líklegri til að deyja fyrir 18 ára aldur, sérstaklega átti þetta við um yngri börnin.

Dr. Dustin Penn og dr. Ken Smith fóru fyrir rannsókninni og þau segja að niðurstöðurnar varpa ljósi á fjölgun manna og skipti máli enn í dag. Manneskjan er ein af fáum tegundum þar sem kvenkynið gengur í gegnum tíðahvörf sem verður til þess að hún hættir að geta fjölgað sér.

"Tíðahvörf virðast hafa þau áhrif að mæður lifi lengur og geti þannig komið fleiri afkvæmum til manns og þessi óvenjulega lífssaga hefur trúlega þróast í okkar tegund vegna þess hversu háð afkvæmin eru því að móðirin lifi af," segja vísindamennirnir. Við þetta var bætt að niðurstöðurnar gæfu til kynna hvers vegna mæður sýndu tilhneigingu til að eignast færri börn. "Ef það hefur almennt komið niður á heilsu kvenna að eignast mörg börn gæti það útskýrt hvers vegna þær velja að eignast færri afkvæmi en eiginmenn þeirra og minnka frjósemina þegar þær öðlast meiri stjórn yfir eigin lífi."