Hjalti Jón Mikilvægt að veganestið að heiman sé gott og sambandið við foreldrana rofni ekki.
Hjalti Jón Mikilvægt að veganestið að heiman sé gott og sambandið við foreldrana rofni ekki.
HJALTI Jón Sveinsson, skólameistari VMA, segir það hafa verið rætt á vettvangi foreldrafélags VMA að samvistir nemenda og foreldra séu ekki síður mikilvægar meðal nemenda framhaldsskóla en í grunnskóla. Þá sagði hann, við útskrift nemenda 20.

HJALTI Jón Sveinsson, skólameistari VMA, segir það hafa verið rætt á vettvangi foreldrafélags VMA að samvistir nemenda og foreldra séu ekki síður mikilvægar meðal nemenda framhaldsskóla en í grunnskóla. Þá sagði hann, við útskrift nemenda 20. desember, vegna mikillar umræðu um styttingu náms til stúdentsprófs, að í VMA væru þær leiðir galopnar.

Leiðir þegar galopnar

Ýmsar breytingar eru fyrirhugaðar á skipulagi framhaldsskólans næstu árin en ekki ljóst hvaða hugmyndir verða ofan á. "Hingað til hefur hæst borið umræðuna um styttingu náms til stúdentsprófs, en upp á síðkastið hefur þetta verið orðað svo að aðeins verði um breytta námsskipan í framhaldsskólum að ræða. Miklum tíma og fjármunum hefur verið varið til endurskoðunar núverandi skipulags framhaldsskólans og unglingastigs grunnskólans," sagði Hjalti Jón.

Honum finnst megintónninn í umræðunni eins og sakir standa vera sá að í fyrsta lagi verði fleiri nemendum kleift að ljúka framhaldsskóla, stúdentsprófi eða námi til starfsréttinda, á þremur árum. Í öðru lagi að gera verknámi jafnhátt undir höfði og bóknámi og í þriðja lagi að gefa hinum ýmsu framhaldsskólum aukið svigrúm til sérhæfingar.

"Ég er nú svo íhaldssamur að halda því fram alveg blákalt að í Verkmenntaskólanum á Akureyri séu þessar leiðir galopnar. Hér geta nemendur með léttum leik, áræði og góðri skipulagningu, lokið stúdentsprófi á þremur árum ef þeim sýnist svo – eða þremur og hálfu eins og fimm nemendur okkar hér í dag. Í Verkmenntaskólanum á Akureyri er jafnframt öllu námi gert jafnhátt undir höfði."

Aðhald á heimilum

Skólameistari VMA sagði ekki unnt að gera ráð fyrir því að foreldrar gætu hjálpað börnum sínum við námið þegar í framhaldsskóla er komið "en ég er sannfærður um að margir eru þess megnugir ef tími gæfist til – og sumir gera það vafalaust. Aðhald á heimilum er nauðsynlegt og á meðan unglingarnir búa heima er það sjálfsögð krafa foreldra að þeir stundi skólann af samviskusemi. Þeim mun meiri tíma sem foreldrar verja með börnum sínum á unglingsaldri, og góð og jákvæð samskipti, því meir aukast sannarlega líkurnar á því að þau nái góðum árangri í framhaldsskóla og þeim vegni vel í lífinu."

Hjalti Jón sagði að ekki mætti gleyma því að margir foreldrar þyrftu að senda börn sín um langan veg til framhaldsskólanáms, á Akureyri búa t.d. um 350 á heimavist og enn fleiri í leiguhúsnæði úti í bæ. "Þá er mikilvægt að veganestið að heiman sé gott og að sambandið við foreldrana rofni ekki."

Hann segir að kappkostað hafi verið að halda góðri reglu og aðhaldi á Lundi, sem verið hefur sameiginleg heimavist MA og VMA, síðustu fjögur ár. "Við kviðum því svolítið í upphafi að aðlögunin yrði ekki átakalaus en raunin er sú að þarna hefur myndast ótrúlega gott andrúmsloft, sem færir okkur heim sanninn um að þarna er búið vel að íbúunum og þeim líður vel."

Í hnotskurn
» Samvistir nemenda og foreldra eru ekki síður mikilvægar meðal nemenda framhaldsskóla en í grunnskóla.
» Skólameistari VMA segir, vegna umræðna um breytingar á framhaldsskólanum, að nú þegar séu allar þær leiðir galopnar í VMA.