UPP komst um óvenju mörg stór fíkniefnamál á árinu sem er að líða og má segja að hvert stórmálið hafi rekið annað.

UPP komst um óvenju mörg stór fíkniefnamál á árinu sem er að líða og má segja að hvert stórmálið hafi rekið annað.

Í upphafi árs komst með stuttu millibili upp um tvær tilraunir litháískra manna til að smygla amfetamínvökva til landsins sem samtals hefði mátt nota til að framleiða um 30 kíló af amfetamíni. Annað mál tengt Litháen kom upp í sumar þegar 12 kíló af amfetamíni fundust í bensínstanki bifreiðar. Stærsta málið varðaði smygl á um 15 kílóum af amfetamíni og 10 kílóum af hassi sem þrír Íslendingar og einn Hollendingur voru dæmdir fyrir. Undir lok árs var Íslendingur handtekinn með um þrjú kíló af kókaíni og er þetta mesta magn kókaíns sem lagt hefur verið hald á í einu lagi.

Hér eru talin upp helstu fíkniefnamál ársins 2006:

* 26. janúar voru þrír 18 ára piltar stöðvaðir með um hálft kíló af kókaíni á Keflavíkurflugvelli. Piltarnir, sem allir eru íslenskir, eiga töluverðan sakarferil að baki.

* 4. febrúar voru tveir Litháar handteknir á Keflavíkurflugvelli vegna smygls á 1,7 lítrum af amfetamínbasa. Sendingin hefði nægt til að framleiða um 13,3 kíló af amfetamíni. Þeir hlutu 2½ árs fangelsisdóm í héraði.

* 23. febrúar fann lögreglan í Reykjavík 3 kíló af amfetamíni sem höfðu verið grafin í jörð í nágrenni Reykjavíkur en þetta er alþekkt aðferð við að geyma fíkniefni. Eigandi eða eigendur efnisins hafa ekki fundist.

* 26. febrúar var Lithái handtekinn á Keflavíkurflugvelli með um 2 lítra af amfetamínbasa sem hefði nægt til að framleiða um 17,5 kíló af amfetamíni. Hann hlaut fjögurra ára fangelsisdóm fyrir tiltækið.

* 3. apríl fann tollgæslan í Reykjavík 42 flöskur með fíkniefnum í bensíntanki BMW-bifreiðar og innihéldu flöskurnar samtals 15 kíló af amfetamíni og 10 kíló af hassi. Lögreglan í Reykjavík handtók fimm menn í tengslum við málið en fjórir voru síðan ákærðir og dæmdir fyrir innflutninginn, þrír Íslendingar og einn Hollendingur. Þetta er stærsta fíkniefnamál sem komið hefur upp á Íslandi í fjölda ára. Sá sem hlaut þyngsta dóminn var dæmdur í 8½ árs fangelsi, tveir hlutu sex ára dóm og einn var dæmdur í fjögurra ára fangelsi.

* 6. júlí voru tveir Litháar handteknir eftir að um 12 kíló af amfetamíni fundust í bensíntanki bifreiðar þeirra sem flutt var með Norrænu. Mennirnir voru dæmdir í fjögurra ára fangelsi. Þennan sama dag var íslenskt par á tvítugsaldri handtekið á Keflavíkurflugvelli við komuna frá Frankfurt með um kíló af kókaíni sem þau höfðu falið í holum skósólum. Jafnframt fannst kíló af hassi við húsleit hjá fólkinu. Í fyrirsögn Morgunblaðsins var þetta sagt eitt stærsta kókaínmál síðari ára.

* 9. ágúst fundust tæplega tvö kíló af kókaíni í farangri íslenskrar konu sem var að koma til landsins frá Spáni.

* 19. október fundust 14 kíló af hassi í póstsendingu frá Danmörku. Fjórir menn sátu um tíma í gæsluvarðhaldi vegna málsins.

* 17. nóvember fundust um 800 e-töflur í póstsendingu frá Hollandi.

* 21. nóvember fundust um þrjú kíló af kókaíni í farangri íslensks manns sem kom til landsins frá Kaupmannahöfn. Þetta er mesta magn kókaíns sem náðst hefur í einni sendingu hér á landi.