Gunnar Guðmundsson fæddist á Eyjólfsstöðum í Beruneshreppi 13. febrúar 1922. Hann lést á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum 17. desember síðastliðinn. Foreldrar hans voru Margrét Guðmundsdóttir, f. á Ánastöðum í Breiðdal 28. maí 1899, d. 4. desember 1989, og Guðmundur Magnússon, f. á Eyjólfsstöðum 5. júní 1892, d. 17. febrúar 1970. Þau bjuggu á Eyjólfsstöðum. Systkin Gunnars: Valborg ljósmóðir f. 26. september 1923, gift Björgólfi Jónssyni, bónda á Tungufelli í Breiðdal, Hallur, bílstjóri í Keflavík, f. 8. maí 1926, d. 21. mars 1995, kvæntur Guðrúnu Karlottu Sigurbjörnsdóttur, Guðrún húsmóðir f. 21. janúar 1928, seinni kona Páls Lárussonar húsasmiðs á Egilsstöðum, Rósa sérkennari, f. 26. september 1929, gift Svavari Guðmundssyni kennara, Guðmundur, f. 18. maí 1931, d. 28. desember 1935, Hermann skólastjóri, f. 12. september 1932, kvæntur Huldu Jóhannesdóttur sérkennara, Guðný húsmóðir, fædd 18. september 1935, gift Vilhjálmi Antoníussyni, útgerðarmanni á Hornafirði, og Eyþór húsasmiður og bóndi á Eyjólfsstöðum, f. 3. desember 1937, kvæntur Öldu Jónsdóttur.

Gunnar kvæntist 14. apríl 1952 Sigrúnu Erlingsdóttur, frá Þorgrímsstöðum í Breiðdal, f. 2. júlí 1928, d. 31. október 1983. Foreldrar hennar voru Erlingur Jónsson, f. 22. október 1895, d. 12. apríl 1944 og k.h. Þórhildur Hjartardóttir, f. 4. október 1897, d. 12. júlí 1992. Börn Gunnars og Sigrúnar eru: 1) Erlingur bóndi og skólabílstjóri í Gautavík, f. 25. janúar 1950, maki Ásta Lárusdóttir, f. 8. ágúst 1954. Þau skildu. Börn þeirra: a) Þorsteinn, f. 12. apríl 1973, maki Heiður Hreinsdóttir, f. 30. október 1978. Dætur þeirra eru Tinna Diljá, f. 3. desember 2004 og Thelma Rut, f. 24. janúar 2006. Áður átti Þorsteinn dótturina Aðalbjörgu Ýrr, f. 18. júlí 1999, með Helgu Snædal Guðmundsdóttur, b) Lárus Páll, f. 13. mars 1977, maki Jenny Lind Óskarsdóttir, f. 23. mars 1982. Þau eiga soninn Martein Mána, f. 7. september 2005, c) Sigrún Ágústa, f. 9. ágúst 1984, d) Ómar Örn, f. 22. ágúst 1989, e) Bergþór Þröstur, f. 6. júní 1996. Erlingur er nú búsettur í Hveragerði. Sambýliskona hans er Hrafnhildur Björk Jóhannsdóttir.

2) Þórhildur bóndi í Fagrahvammi, f. 11. febrúar 1951, maki Karl Sigurður Elísson, f. 25. júní 1943. Þau skildu. Synir: a) Gunnar Smári, f. 19. september 1972, maki Laufey Pétursóttir, f. 25. apríl 1973. Dóttir þeirra er Ragnheiður Ýunn f. 29. september 2000. Fyrir átti Gunnar Smári dótturina Söndru Björgu, f. 19. apríl 1994, með Ernu B. Einarsdóttur og Laufey átti soninn Jóhann Leví, f. 30. júní 1994, b) Óskar Guðjón, f. 12. apríl 1974, maki Ása Björg Þorvaldsdóttir, f. 21. ágúst 1976. Soninn Elís Orra, f. 3. nóvember 1998, átti Óskar með Ólöfu Jóhannsdóttur, c) Stefán Þór, f. 9. maí 1978, d) Rúnar Már, f. 21. júní 1984. Þórhildur er nú búsett á Álftanesi. Sambýlismaður hennar er Jóhann Alfreðsson, f. 4. apríl 1953. 3) Guðlaug sjúkraliði á Akureyri, f. 14. október 1952, maki Ásgrímur Karlsson, f. 24. október 1947. Þeirra börn eru: a) Sigrún, f. 11. ágúst 1972, maki Hallgrímur Matthíasson, f. 26. mars 1970. Börn þeirra: Karen Eva, f. 29. mars 2002 og Davíð Örn, f. 29. september 2004, b) Ágúst f. 19. nóvember 1975, maki Sophie Skau Damskier, f. 28. ágúst 1978. 4) Margrét hjúkrunarfræðingur í Fellabæ, f. 5. nóvember 1954. Maki Friðrik Örn Guðmundsson, f. 16. maí 1952. Börn þeirra: a) Ægir, f. 6. nóvember 1982, maki Íris Ósk Ágústsdóttir, f. 25. ágúst 1982, b) Erna, f. 2. nóvember 1987, c) Birkir, f. 26. ágúst 1991. 5) Guðmundur Valur bóndi Lindarbrekku, f. 24. janúar 1957, maki Ragnheiður Margrét Eiðsdóttir, f. 2. október 1957. Börn þeirra eru: a) Kristín Dögg, f. 28. júlí 1978, maki Matthías Hinriksson, f. 21. júlí 1968. Dóttir þeirra er Ísabella Auður Nótt, f. 10. febrúar 2006, b) Gunnar, f. 9. desember 1979, c) Snjólaug Eyrún, f. 15. desember 1980, d) Eiður Gísli, f. 29. júlí 1982, maki Arna Dögg Gísladóttir, f. 30. apríl 1980. Börn hennar eru Brynjar Örn Thorlacius, f. 24. ágúst 1997, Júlía Líf Viðarsdóttir, f. 9. maí 1999 og Andri Baldur Sigurðsson, f. 19. mars 2002, e) Nanna Margrét f. 27. október 1990. 6) Hafdís Gunnarsdóttir, bóndi Þvottá, f. 17. desember 1958, maki Guðmundur Kristinsson, f. 12. desember 1957. Dætur þeirra eru: a) Berglind, f. 6. ágúst 1977, maki Örvar Geir Friðriksson, f. 18. júlí 1976, b) Vordís, f. 4. maí 1990, c) Dagbjört f. 12. júlí 1993, d) Vigdís Heiðbrá, f. 20. júní 1996.

21. ágúst 1987 kvæntist Gunnar Þórdísi Sveinsdóttur Guðjónsdóttur frá Reykjavík, f. 21. september 1929. Foreldrar hennar voru Guðjón Einarsson, f. 16. apríl 1904, d. 5. júlí 1981 og Guðríður Kristjana Jónsdóttir, f. 13. ágúst 1910, d. 3. ágúst 1986. Gunnar stofnaði nýbýlið Lindarbrekku við Berufjörð 1948 og bjó þar upp frá því, framan af með fjárbú og síðar mjólkurframleiðslu. Garðyrkja var frá upphafi veigamikill þáttur í búskapnum og sinnti hann henni fram á seinustu ár, þótt sonur hans væri tekinn við öðrum þáttum búskaparins. Gunnar gegndi mörgum opinberum störfum, var hreppstjóri Beruneshrepps í 30 ár, í jarðanefnd Suður-Múlasýslu um árabil og formaður hennar um skeið, sýslunefndarmaður þrjú kjörtímabil og var í sveitarstjórn með hléum frá 1954.

Útför Gunnars verður gerð frá Djúpavogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Kæri afi, nú fékkstu hvíldina og þjáningum þínum er lokið. Ég var mikið búinn að hugsa til þess hve tilgangslaust þér þætti að vera svona rúmliggjandi sem varð lega í tvo og hálfan mánuð. Þú varst nú ekki búinn að sitja auðum höndum um ævina. Það kemur svo margt upp hugann að ég hef í raun ekki reiður á því hvar ég á að byrja enda voru samverustundirnar með þér búnar að vera margar. Lengi á eftir að lifa í minni sú mynd af þér sitja úti í rófuhúsi að skera af, reyta arfa í rófugarðinum, nostra við garðinn þinn eða hugsa um gróðurhúsið. Í það minnsta átti ekki iðjuleysi við þig.

Það var alltaf regla í kringum þig, enda var gott að koma til þín og ömmu í Neðri-bæinn. Ef maður var staddur hjá ykkur í hádeginu var veðurspáin í útvarpinu heilög stund sem og hjá fleirum. Það var gaman að hlusta á þig segja frá og ekki síst uppvaxtarárum þínum. Þú hafðir upplifað miklar breytingar til framfara í lífi þínu. Þú ólst upp á heimili þar sem lífsbaráttan var á allra ábyrgð sem vettlingi gátu valdið. Gott dæmi er að fólk varð oftast að fara á tveimur jafnfljótum, bát eða hesti til að komast ferða sinna þegar þú varst að alast upp þegar fólk í dag hefur síma og tölvupóst til að spara sér sporin. Þú lést þig nú ekki muna um að læra að senda sms kominn yfir áttrætt samt sem áður.

Þér var eitt mjög mikilvægt en það var að fá að fylgjast með því sem í kringum þig gerðist. Þú vildir ekki missa tengsl við umhverfið. Að sama skapi vildir þú að fólk léti vita af ferðum sínum og eftir að þú skrifaðir vissa grein í Gletting skildi ég í raun betur hvers vegna.

Fyrir utan að vera sonarsonur þinn, afi, og alast upp í nánu samneyti við þig er ég alnafni þinn. Það er búið að vera spaugilegt í gegnum árin, allt fram á þennan dag, ruglið með kennitölurnar okkar sem og ruglið með póstinn. Þótt maður væri svolítið montinn af að vera alnafni þinn var það nú ekki alltaf tekið út með sældinni. Tvisvar í röð fékk ég ársrit Múlaþings í pósti og núna síðast í haust fékk ég eyðublöð fyrir áburðarpöntun fyrir utan öll hin skiptin. Eina gjöf fékk ég frá þér, afi, sem ég er búinn að nota lengi – fjármarkið þitt.

Kæri afi, ég þakka þér fyrir samfylgdina í þessu lífi. Þú ert búinn að vera góð fyrirmynd og áttir þinn þátt í að móta mig sem persónu. Með þeim orðum kveð ég þig og megir þú hvíla í friði.

Gunnar yngri.

Elsku afi, það var skelfilegt að fá þær fréttir að þú værir farinn.

Þrátt fyrir að þetta væri viðbúið, að þú færir að yfirgefa okkur, var ég engan veginn tilbúin þegar þú fórst. En sem betur fer á ég svo margar minningar um þig elsku afi, alveg frá því að ég man eftir mér, enda fékk ég þann heiður að alast upp með þér. Þú hvattir mig alltaf og sýndir stolt þitt á því sem ég gerði og þegar ég gerðist lögreglumaður sýndirðu mér áhyggjur þínar og baðst mig um að passa mig að láta þetta starf ekki stíga mér til höfuðs og halda áfram að vera ég sjálf. Ég man þessi orð eins og þú hefðir sagt þetta við mig í gær og passa upp á að vera ég sjálf á hverjum degi. Þú áttir þannig mikinn þátt í að leggja mér lífsreglurnar og leiðbeina mér í gegnum lífið enda stór viskubrunnurinn sem þú bjóst yfir.

Elsku afi, allar þær minningar sem ég á um þig eru góðar nema kannski þegar þú varst að skamma mig þegar ég gerði eitthvað af mér, t.d. að príla uppi á húsþökum sem mér þótti alls ekki leiðinlegt þegar ég var barn enda var ég alltaf eins hátt uppi og ég komst þegar ég var yngri.

Ég man alltaf þann dag þegar þú komst með ömmu Þórdísi heim á Lindarbrekku. Þetta var allt voða skrítið að sætta sig við þetta, en það gerðist nú samt fljótt þar sem þú náðir þér bara í nýja ömmu handa okkur sem var yndisleg við okkur systkinin og tók okkur sem sínum barnabörnum.

Þegar ég hugsa um þig afi þá dettur mér aðallega einn hlutur í hug, rófur. Það að koma til þín í rófuskúrinn að hjálpa þér og fá rófu á nagla í verðlaun var alltaf jafnspennandi. Svo þegar við systurnar fórum að fara með þér í rófusöluferðirnar var alltaf jafngaman að hlaupa hús úr húsi að selja og vera alltaf með sömu svörin: "Ég er að selja rófur í 2 kg, 5 kg og 10 kg pokum." Oft sagði fólk nei en svo spurðu margir hvaðan þessar rófur kæmu og þá var svarið: "Hann afi minn er að selja þær, hann er sko Gunnar á Lindarbrekku," og þá snerist fólki oft hugur. Þetta voru frábærar ferðir og var mikið sofið í rauða pallbílnum til baka. Svo varstu alltaf að kenna okkur ýmislegt í þessum ferðum; nöfnin á fjöllum, bæjum, svo allar draugasögurnar sem þú kunnir um marga staði. Þú varst vel að þér í íslensku og kenndir okkur endalaust af vísum og erindum sem ég get nú ekki sagt að ég muni mikið eftir nema eitt sem þú kenndir okkur og áttum við að segja það eins hratt og við gátum en það þurfti samt að vera skiljanlegt. Ég man vel eftir því þegar ég var að æfa mig í laumi og ætlaði svo alltaf að verða betri og betri í hverri ferð sem við fórum.

Ég gæti örugglega skrifað heila bók um stundirnar sem ég átti með þér. Þú varst alltaf brosandi og það var alltaf sama hlýjan í kringum þig enda maður með stórt og mikið hjarta. Þú gast alltaf komið mér til að brosa og hlæja þegar ég var eitthvað súr. Elsku afi, það er komið að kveðjustund hjá okkur en ég veit að þú munt alltaf vaka yfir okkur. Hvíldu í friði elsku afi, þín verður sárt saknað. Knús og kossar.

Snjólaug Eyrún

Guðmundsdóttir.

Gunnar bróðir minn er látinn. Það er alltaf eins og það komi manni að óvörum að heyra lát einhvers nákomins, sama þótt hinn látni hafi verið fárveikur og allir hafi vitað að hverju stefndi. Í fyrstu opnast kringum mann eitthvert tómarúm, síðan flögra að óteljandi minningar og myndir, sem fylla loks allt upp og þröngva sér að úr öllum áttum, svo annað kemst ekki auðveldlega að.

Mér finnst elstu myndirnar úr hugskoti mínu af Gunnari vera af fullorðnum manni sem flest gat gert. Það var hetja sem gekk í bæinn seint á vöku með þunga rjúpnabyrði innan úr Axlarfjalli og var horfinn áður en ég vaknaði að morgni, svo dæmi sé tekið. Tíu ára aldursmunur skýrir þessa sýn aðeins að hluta. Hitt er að Gunnar hefur þá verið eins og alla tíð síðan ákveðinn, röskur, vinnusamur og verklaginn að hverju sem hann gekk.

18 ára fór Gunnar í Héraðsskólann á Laugum. Þegar heim kom þótti okkur krökkunum það undur að hann gat gengið um á höndunum, tekið alls konar stökk og synt í sjónum og í hyljum í ánni. Slíkt höfðum við aldrei séð fyrr. Annan vetur var hann aftur á Laugum og þá í smíðadeild. Ekki voru þá komnar til skjalanna trésmíðavélar en hann kom þá heim með forláta hefilbekk úr harðviði, skíði, borðstofuborð og stóla, koffort og töskur. Næstu árin smíðaði Gunnar mörg koffort, töskur, eldhúskolla o.fl. og seldi. Hann sagði að það væri dagsverk að smíða koffort og tveggja tíma verk að smíða tösku.

Í mikið var ráðist þegar byrjað var að stofna nýbýlið Lindarbrekku á Selnesinu sem var að hluta í landi Fossárdals og að hluta úr Berufjarðarlandi. Allt byggingarefni í stórt steinhús þurfti að flytja á hestum frá sjó, meira að segja sand og möl í steypuna. Það eina sem nóg var af í nágrenningu var grjót sem brotið var niður með sleggju, til að drýgja steypuna. Ræktanlegt land þurfti að þurrka, en fyrsti töðuvöllurinn var þúfnakargi kringum fornt býli, Selnesbæ, framar á nesinu. En með fádæma eljusemi hafðist þetta allt saman og Lindarbrekka varð fyrirmyndarbýli á margan hátt.

Á frumbýlingsárunum var stundaður sjór á vorin og saltfiskur verkaður, ræktaðar rófur og kartöflur og unnið að smíðum eins og áður segir.

Gunnar var snemma kosinn til margvíslegra félagsstarfa og einhver sagði að þá hefði verið hlustað þegar Gunnar tók til máls.

Mér, sem þetta ritar, var, svo lengi sem við vorum nágrannar og jafnvel lengur, mikill styrkur að hjálp og leiðsögn elsta bróður míns.

Þórdísi, börnum og öðru venslafólki Gunnars votta ég samúð mína.

Hermann

Guðmundsson.