TILRAUNIR með nýja tegund af megrunarpillum benda til þess að hún gefist betur en vísindamenn höfðu gert sér vonir um og frekari tilraunir eru fyrirhugaðar, að því er fram kom í frétt breska dagblaðsins The Daily Telegraph í gær.

TILRAUNIR með nýja tegund af megrunarpillum benda til þess að hún gefist betur en vísindamenn höfðu gert sér vonir um og frekari tilraunir eru fyrirhugaðar, að því er fram kom í frétt breska dagblaðsins The Daily Telegraph í gær.

Pillan nefnist excalia og er tekin daglega. Blaðið segir að pillan hafi hjálpað fólki að léttast um 12% af líkamsþyngd sinni á tæpu ári.

Pillan hefur þau áhrif að fólki finnst það verða mett fyrr en ella og hún hraðar jafnframt efnaskiptum. Hún kemur þannig í veg fyrir að líkaminn bregðist við megruninni með því að hægja á efnaskiptunum, að sögn The Daily Telegraph .

Í pillunni eru tvö lyf. Annað þeirra hefur verið notað við flogaveiki og hitt hefur verið notað til að draga úr löngun í nikótín.

Í tilraunum í Bandaríkjunum léttust þátttakendurnir um 9,2% af líkamsþyngd sinni að meðaltali á 24 vikum en þeir sem fengu gervilyf urðu 0,4% léttari. Þátttakendurnir losnuðu alls við um 12% af þyngd sinni á 48 vikum.