Samræmi Hið nýja heiti Kauphallar Íslands, OMX Nordic Exchange á Íslandi, er til samræmis við hinar kauphallirnar innan OMX.
Samræmi Hið nýja heiti Kauphallar Íslands, OMX Nordic Exchange á Íslandi, er til samræmis við hinar kauphallirnar innan OMX. — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kauphöll Íslands er orðin hluti af norrænu kauphallarsamstæðunni OMX.

Kauphöll Íslands er orðin hluti af norrænu kauphallarsamstæðunni OMX. Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, segir að stórfelldar breytingar á hlutabréfamarkaðinum hér á landi geri einfaldlega kröfu um alþjóðlega kauphöll til að tryggja þá þjónustu sem þarf til áframhaldandi sóknar íslenskra fyrirtækja. Grétar Júníus Guðmundsson ræddi við hann.

Kauphöll Íslands tekur upp heitið OMX Nordic Exchange á Íslandi á morgun. Rekstur félagsins er þegar orðinn hluti af rekstri OMX.

Í októbermánuði síðastliðnum var undirritaður samningur um kaup norrænu kauphallarinnar OMX á Kauphöll Íslands og Verðbréfaskráningu Íslands. OMX hafði fyrir þessi viðskipti kauphallirnar í Stokkhólmi, Helsinki, Kaupmannahöfn og Eystrasaltsríkjunum á sínum snærum. Einungis ein stór kauphöll á Norðurlöndunum er ekki inni í þessu samstarfi, en það er kauphöllin í Ósló.

Sameiginlegur norrænn markaður

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, segir að hið nýja heiti Kauphallarinnar, OMX Nordic Exchange á Íslandi, sé til samræmis við hinar kauphallirnar innan OMX, sem þó séu kenndar við borgirnar, þ.e. Kaupmannahöfn, Helsinki og Stokkhólm. Lagalegt heiti verði þó áfram Kauphöll Íslands hf.

"Tilgangurinn með nafnbreytingunni er að leggja áherslu á sameiginlegan norrænan markað," segir Þórður. "Markaðsaðilar munu smám saman líta á þessar kauphallir sem einn markað og vonandi nýta sér þau fjölmörgu tækifæri sem stærri, skilvirkari og hagkvæmari markaður hefur upp á að bjóða. Við teljum að nýja nafnið undirstriki þann sýnileika sem íslenskir útgefendur munu hljóta með þátttökunni í OMX en jafnframt þá staðreynd að við verðum áfram íslenskur markaður með sína sérstöðu og sveigjanleika sem viðskiptavinir Kauphallarinnar munu áfram njóta góðs af."

Hluti af hliðarmarkaði

Kauphöllin mun til að byrja með halda núverandi heimasíðu (www.icex.is) sem hýst er hjá Kauphöllinni í Noregi. Þó verður útliti hennar breytt til samræmis við útlit OMX-heimasíðunnar (www.omxgroup.com). Frá og með morgundeginum verður heimasíðan skrýdd OMX-merkjum og -litum. Jafnframt verða tengingar frá www.icex.is inni á heimasíðu OMX, www.omxgroup.com, og öfugt.

Frá því er greint í tilkynningu frá Kauphöllinni að frá og með deginum í gær varð isec-markaðurinn hluti af First North-hliðarmarkaði OMX. Upplýsingar um íslensk félög sem þar eru skráð má finna á www.omxgroup.com/nordicexchange/firstnorth. Þau verða hluti af heildarvísitölu First North. Þeir sem hafa kauphallaraðild að íslenska hlutabréfamarkaðnum geta átt viðskipti með bréf á First North Iceland. Reglur á markaðnum eru í megindráttum þær sömu og giltu um isec-markaðinn en þó hefur orðið sú breyting að félög á First North skulu hafa viðurkenndan ráðgjafa (e. Certified Advisor) sér til halds og trausts við skráningu og þegar viðvarandi upplýsingaskylda á markaðnum tekur við. Núverandi félög á First North Iceland hafa sex mánuði til að aðlagast þessari breytingu.

Í tilkynningu Kauphallarinnar kom fram að aðrar breytingar muni fylgja inngöngu Kauphallarinnar í OMX Nordic Exchange. Þær verði kynntar nánar eftir því sem samþættingarvinnu vindur fram. Þá segir í tilkynningunni að helstu breytingar sem verði á íslenska markaðnum séu:

Íslensk félög verða skráð á samræmdan Nordic-kauphallarlista frá 2. apríl 2007.

Hinn 2. apríl 2007 verða íslensk félög tekin inn í vísitölur OMX.

Íslenskar markaðsupplýsingar samþættast markaðsupplýsingum OMX hinn 2. apríl 2007.

Kauphöllin tekur í notkun sameiginlega heimasíðu OMX 2. apríl 2007.

Afleiðumarkaður verður settur á stofn 7. maí 2007.

Eins og í stórri verslunarmiðstöð

Að sögn Þórðar felast helstu tækifærin fyrir íslensk félög við þessar breytingar í því, að í stað þess að vera skráð í lítilli íslenskri kauphöll verði þau skráð í stórri alþjóðlegri kauphöll. "Félögin verða fyrir vikið mun sýnilegri á alþjóðavettvangi, ná til breiðari hóps fjárfesta og eiga auðveldara með að koma upplýsingum á framfæri um gang mála hjá sér.

Þá njóta félögin góðs af samanburði við önnur skráð félög í OMX, þau eru felld inn í samræmda upplýsingagjöf um öll skráð fyrirtæki i OMX Nordic Exchange. Það má kannski líkja þessu við að reyna að koma vöru á framfæri í lítilli búð í fáfarinni hliðargötu eða vera í stórri verslunarmiðstöð þar sem fjöldi áhugasamra kaupenda er stöðugt á ferðinni."

Skilvirkari verðmyndun

Þórður segir að breytingin á Kauphöllinni sé einnig hagfelld fyrir innlenda fjárfesta. Það sem mestu máli skipti sé annars vegar dýpri og skilvirkari verðmyndun og hins vegar greiðari aðgangur og auðveldari samanburður við önnur norræn félög.

"Ég tel gríðarlega mikinn ávinning felast í því að öll upplýsingagjöf um íslensk félög verði eins og í OMX, félögin verði metin á sömu mælistiku og flokkuð með sama hætti. Þetta mun einnig leiða til þess að erlendir greiningaraðilar munu innan tíðar meta íslensku fyrirtækin, að minnsta kosti þau stærstu, með reglubundnum hætti og fjalla um þau eins og önnur norræn fyrirtæki."

Þáttur í alþjóðaþróun

Breytingin í Kauphöll Íslands mun út af fyrir sig ekki þrýsta á að íslensk félög taki upp annan gjaldmiðil en krónuna, að mati Þórðar. Hann segir hins vegar að hún sé vissulega þáttur í þeirri alþjóðaþróun sem nú kalli á annan gjaldmiðil en krónuna. Það sé alþjóðaþróun íslensks efnahagslís, frelsið og útrásin sem geri það að verkum að sum fyrirtækjanna, sem náð hafi mestum árangri á undanförnum árum, sjái að hagsmunum þeirra sé ef til vill betur borgið í erlendri mynt en krónum.

"Ég hef ekkert nema gott um þessa þróun að segja, hún er einfaldlega afleiðing mikils árangurs Íslendinga á erlendri grund og ef við höldum áfram að ná árangri munu fleiri og fleiri félög færa sig yfir í annan gjaldmiðil en krónuna. Við eigum ekki að spyrna við fótum heldur fagna þessu. En auðvitað tókum við einnig ákvörðun um að tengjast stærri kauphöll vegna þessar þróunar. Við töldum tímabært að stíga þetta skref til að geta veitt ört vaxandi fyrirtækjum þá þjónustu sem þau þurfa í framtíðinni."

Markaðsvirði fimmfaldast á fimm árum

Um þýðingu þeirrar breytingar sem orðið hefur hjá Kauphöll Íslands fyrir íslenskt efnahags- og þjóðlíf segir Þórður, að hún sé mikilvægur liður í því að viðhalda samkeppnishæfni íslensks efnahagslífs.

"Enginn vafi er á því að íslenskur hlutabréfamarkaður hefur leikið stórt hlutverk í útrás og alþjóðavæðingu hagkerfisins á undanförnum árum. Þannig hefur til að mynda samanlagt markaðsvirði skráðra félaga fimmfaldast á síðustu fimm árum, eða farið úr 55% af landsframleiðslu í 245%, veltan 15-faldast og meðalvirði fyrirtækja 18-faldast á sama tíma. Þessar stórfelldu breytingar gera einfaldlega kröfu um alþjóðlega kauphöll á Íslandi til að tryggja þá þjónustu sem þarf til áframhaldandi sóknar," segir Þórður Friðjónsson.

gretar@mbl.is