Magnús Eðvald Baldvinsson fæddist á Ísafirði 12. desember 1923. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 30. desember síðastliðinn eftir stutt veikindi. Foreldrar hans voru Baldvin Sigurður Sigurðsson, stýrimaður á Ísafirði, f. 1900, d. 1929, og Þuríður Magnúsdóttir, f. á Þiðriksvöllum í Strandasýslu 1898, d. 1983.

Hinn 7. desember 1946 kvæntist Magnús Unni H. Bendiktsdóttur, f. í Reykjavík 10. júní 1924. Foreldrar hennar voru Benedikt Guðmundsson húsgagnasmíðameistari í Reykjavík, f. 23. apríl 1892, d. 1. nóvember 1971, og Guðrún Sigríður Jónsdóttir húsmóðir, f. 30. mars 1885, d. 1978. Dætur Magnúsar og Unnar eru: a) Erla, f. 11. febrúar 1947, gift Erni Þórhallssyni skrifstofumanni, f. 9. nóvember 1947. Dætur þeirra eru: Guðríður Ingibjörg, f. 4. desember 1967, sambýlismaður Arnar Sigurðsson, Hrefna Björk, f. 8. mars 1970, og Þórunn, f. 5. febrúar 1975, gift Ásgeiri Ásgeirssyni, b) Guðrún Sigríður, f. 23. maí 1949, gift Jóni Sveinssyni hæstaréttarlögmanni, f. 7. júlí 1950. Börn þeirra eru: Unnur Ýr, f. 19. febrúar 1970, sambýlismaður Konrad Aðalmundsson, Ingvar Ýmir, f. 21. september 1975, kvæntur Steinunni Gunnarsdóttur, Kristín Ösp, f. 30. ágúst 1977, sambýlismaður Haraldur Hallsteinsson, og Hildur Hlín, f. 4. október 1983, sambýlismaður Halldór Vilberg, c) Þuríður, f. 23. maí 1949, gift Birni Á. Ágústssyni, úrsmíðameistara, f. 30. júní 1950. Börn þeirra eru: Magnús Eðvald, f. 22. apríl 1972, kvæntur Nönnu Reykdal, Eva Hrönn, f. 13. ágúst 1976, og Unnur Eir, f. 29. febrúar 1980, sambýlismaður Kristinn Pálmason. Alls eru langafabörn Magnúsar og Unnar 16.

Magnús ólst upp á Ísafirði til 10 ára aldurs en þá fluttist hann með móður sinni til Reykjavíkur. Faðir hans hafði þá farist af slysförum í Ísafjarðardjúpi. Magnús lærði úrsmíði hjá Eggerti Hannah, lauk sveinsprófi 1947 og hlaut meistararéttindi 1951. Hann rak úrsmíðaverkstæði og skartgripaverslun í Reykjavík frá 1947, fyrst á Laugavegi 82, þá á Laugavegi 12 og síðan á Laugavegi 8. Árið 1979 stofnaði hann ásamt dóttur sinni, Þuríði, og tengdasyni sínum, Birni Á. Ágústssyni, úrsmíðafyrirtækið MEBA, Magnús E. Baldvinsson ehf. Árið 1987 fluttist fyrirtækið í Kingluna í Reykjavík og er þar enn. Magnús hætti störfum 1993 og tóku dóttir hans og tengdasonur þá við fyrirtækinu. Einnig rak Magnús um skeið úra- og skartgripaverslun á Akranesi, sem Helgi Júlíusson úrsmiður á Akranesi tók síðan við, og einnig í Keflavík, sem Georg Hannah úrsmiður tók við.

Magnús var formaður Úrsmiðafélags Íslands á tímabilinu 1955–1971 og var fulltrúi þess á Iðnþingi í mörg ár. Hann sat í stjórn Norðurlandasambands úrsmiða í 16 ár og var gerður að heiðursfélaga Úrsmiðafélags Íslands árið 1995. Magnús stundaði frjálsar íþróttir á sínum yngri árum, einkum langstökk, og var heiðursfélagi ÍR. Hann var félagi í Lionsklúbbnum Nirði frá 1962 og í Oddfellowreglunni, í stúkunni Þorkeli mána. Þá var hann félagi í Stangveiðifélagi Reykjavíkur og Akraness og var mikill áhugamaður um stangveiði. Magnús hlaut ýmsar viðurkenningar og heiðursmerki þeirra félagasamtaka sem hann starfaði með.

Útför Magnúsar verður gerð frá Hallgrímskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 11.

Magnús var stórbrotinn persónuleiki. Hann missti föður sinn ungur, það hafði djúp áhrif á hann. Hann ólst upp með einstæðri móður, án náins frændgarðs eða aðstoðar, og þekkti því af eigin raun fátækt og erfiða lífsbaráttu sem barn. Þá lærði hann að standa á eigin fótum og treysta á sjálfan sig. Ekkert var sjálfgefið í lífsbaráttunni. Með dugnaði, þrautseigju og eljusemi vann hann sig til mennta, virðingar og áhrifa í sinni iðngrein, bæði hérlendis og á Norðurlöndum, en jafnframt í verslun og viðskiptum í Reykjavík og nágrenni.

Hann var afar nákvæmur, minnisgóður og vel gefinn en um leið tilfinningaríkur og gæddur ríkri réttlætiskennd. Hann var keppnismaður, glaðlegur og glettinn. Magnúsi lét vel að leggja á ráðin, stjórna og finna einföldustu og bestu leiðirnar til að ná settum markmiðum í anda einkaframtaksins. Hann var þó ekki sérlega áhugasamur eða afkastamikill þegar kom að heimilisverkum. Treysti hann þar á framtak, fyrirhyggju og myndarskap eiginkonu sinnar Unnar. Skildist honum fljótt að hann kæmist seint með tærnar þar sem hún hefði hælana á því sviði. Gott samkomulag var með þeim hjónum um að það fyrirkomulag væri best fyrir þau bæði. Heimil þeirra stóð öllum opið og þangað var ætíð gott að koma.

Á yngri árum stundaði Magnús frjálsar íþróttir með ÍR. Taldi hann sjálfur alla tíð að íþróttirnar hefðu eflt sig, gefið sér kraft, þroskað keppnisskapið og kennt sér að taka mótlæti, sem allt nýttist honum síðar. Bar hann alla tíða sterkar tilfinningar til síns gamla og góða íþróttafélags. Með sama hætti voru honum æskustöðvarnar á Ísafirði hugleiknar og leit fyrst og fremst á sig sem Vestfirðing þó að hann byggi stærstan hluta ævi sinnar í Reykjavík.

Magnús byggði upp öflugt og viðurkennt fyrirtæki í Reykjavík á sviði úra- og skartgripa, merkja og verðlaunagripa, fyrst með eiginkonu sinni, en síðar með dóttur sinni Þuríði og tengdasyni sínum Birni, sem Magnús var svo lánsamur að fetaði sömu braut í iðngrein hans.

Nákvæmni Magnúsar var við brugðið. Hann var ætíð með litlar minnisbækur og miða um það sem gera þurfti eða huga að, hvort sem það varðaði viðskipti eða fjölskylduna. Þannig hélt hann ítarlegt bókhald yfir alla afmælisdaga afkomenda sinna og þeirra sem þeim tengdust og brást aldrei þegar að slíkum dögum kom. Honum var umhugað um sitt fólk. Þá hélt hann oft yfirlit yfir ótrúlegustu hluti og kom sér stundum vel fyrir yngra fólk að "fletta" upp í honum þegar minnið brást. Nákvæmnin og ýtnin gat samt stundum orðið svo mikil að þeim sem í hlut áttu fannst nóg um. Aldrei var það þó illa meint. Þessi nákvæmni og natni Magnúsar nýttist líka vel þegar hann á efri árum tók að rækta söfnunaráráttu sína.

Magnús hafði gaman af gleðskap þegar því var að skipta, naut þess að vera í góðra vina hópi og tók virkan þátt í öllum fagnaði. Hann kunni vel að meta góðar veitingar í mat og drykk, unni góðum söng og tónlist og hafði afar gaman af hverskonar gamansögum, skrítlum og eftirhermum að ógleymdum veiðisögum. Kunni hann ógrynni af slíkum sögum, var sagnamaður góður, fullur af fróðleik og henti á lofti bæði vísur og kvæði. Á slíkum gleðistundum ríkti mikil kátína og skemmtun í kringum Magnús sem smitaði ósjálfrátt út frá sér og dró aðra með.

Lífssaga Magnúsar er merkileg. Hann flutti sem fátækt barn utan af landi í þéttbýlið í Reykjavík, átti fáa að og varð því fyrst og fremst að treysta á sjálfan sig, eigið hyggjuvit, áræði og framsýni. Hann vann sig upp frá litlu og öðlaðist á lífsævi sinni nánast allt það sem hann hafði óskað sér, farsæld í starfi, stóra fjölskyldu, góð efni og hamingjuríkt líf. Það hlýtur að vera draumur hvers athafnamanns að komast áfram í lífsbaráttunni án þess að trufla aðra, ná árangri og markmiðum sínum og verða ekki fyrir meiriháttar áföllum á lífsleiðinni. Hjá Magnúsi rættist "hinn íslenski draumur" hvers athafnamanns. Fyrir það var hann þakklátur.

Að leiðarlokum þakka ég Magnúsi samfylgdina sem var fyrir mig lærdómsrík og gefandi.

Jón Sveinsson.

Tengdafaðir minn, Magnús E. Baldvinsson, hefur hvatt þennan heim. Skoðanir okkar á því hvað við tæki voru ólíkar, ég hélt að öllu væri endanlega lokið, en hann var nú ekki alveg á því, taldi að annað og betra tæki við. Í morgun, fyrsta vinnudag eftir lát hans, gerðust undur eða tilviljun, trúi hver sem verða vill en klukkan fyrir ofan skrifborðið var stopp með sekúnduvísinn höktandi í sama farinu og sýndi 06:45 sem er dánarstund Magnúsar. Síðast þegar ég leit á klukkuna á föstudeginum var hún í gangi, er þetta tilviljun, af 720 mínútum stoppar hún akkúrat þarna? Eða var Magnús að sanna fyrir mér að hann hefði rétt fyrir sér, að sjálfsögðu notaði úrsmiðurinn klukkuna til þess, en þessa klukku hafði ég útbúið sérstaklega fyrir 50 ára afmæli fyrirtækisins með andlitsmyndum af Magnúsi, Unni, mér og Þurý ásamt þeim húsum þar sem fyrirtækið hafði verið starfrækt, ég vil trúa því að þarna hafi verið sönnun og glettin stríðni Magnúsar.

Hann var ekki bara tengdafaðir minn, heldur einnig lærifaðir og góður vinur. Magnús kenndi mér að veiða, ég held að við höfum veitt saman í öllum ám á Vesturlandi, og ekki voru veiðifélagarnir af verri endanum eins og Leirárbræður og fleiri skemmtilegir og hressir karlar, þá var grín og gaman.

Viðskipti voru Magnúsi í blóð borin, hann var naskur að finna réttu vöruna enda smekkmaður, og átti vin sem var bankastjóri, það var ekki slæmt í þá daga. Kennaraskólanám mitt styttist, ég hafði unnið í Málmiðju Magnúsar með skólanum og orðinn kærasti Þurýjar. Taldi Magnús að ekkert væri upp úr því að hafa að halda því námi áfram, kennarar hefðu svo léleg laun, hvort ég vildi ekki læra úrsmíði, fara á úrsmiðaskóla í Danmörk og víkka sjóndeildarhring minn. Ég sló til og frá þeirri stundu höfum við unnið saman, ég held eftir á að hyggja, þrátt fyrir ákveðnar skoðanir beggja, að aldrei hafi slest upp á vinskapinn. Magnús setti okkur eina reglu að ef við værum ekki sáttir gengi annar hring í kringum húsið, við ræddumst við aftur og skildumst sáttir, en það kom aldrei til þess. Magnús var sannkallaður mannasættir og alltaf tilbúinn að rétta hjálparhönd. Hafði reyndar gaman af að fá sér einn gráan, en alltaf snöggur að ná endanum þar sem frá var horfið. Gamanmál hafði Magnús alltaf við höndina, lagði jafnvel á sig krók til að segja góða sögu, það var oft mikið hlegið enda nærvera Magnúsar sérstaklega góð. Það síðasta sem hann sagði við mig var "ertu búinn að jafna þig?" Ég hváði og tók um öxl mér, hélt að hann ætti við eymsli mín þar, en þá brosti hann og neri saman fingrum í gríð og erg, átti við peningatalningu eftir jólaviðskiptin, gamli góði húmorinn var til staðar. Ég kveð í dag góðan vin með söknuði.

Björn Árni Ágústsson.

Nú þegar nýtt ár gengur í garð er það skrýtin tilfinning að afi Maggi skuli ekki taka þátt í að fagna því með okkur. Við söknuðum áramótasöngs hans og þriggja vasaklúta ræðunnar á gamlárskvöld en minningarnar um hann munu þó ylja okkur og fylgja alla ævi.

Við minnumst afa Magga sem bæði skemmtilegs og örláts manns. Hann var stórbrotinn og átti ætíð auðvelt með að laða að sér fólk, unga sem aldna. Hjálpaði þá kímnigáfan, sem alltaf var til staðar.

Jólin byrjuðu hjá okkur með tilhlökkun yfir að fá súkkulaði-jóladagatölin frá afa og ömmu, og heitt súkkulaði og kökur í Ásendanum hinn 12. desember í tilefni afmælis afa var gleðistund. Jólaboðið í stofunni var fastur punktur í tilverunni til margra ára, sem og jólaböllin hjá Lions-klúbbnum hans sem hann ávallt bauð allri fjölskyldunni í.

Sumrin voru ljúf í minningunni í sumarbústaðnum við Laugarvatn og í garðinum í Ásendanum var mörgum stundum eytt við að taka upp kartöflur og slá grasið. Svo var hlaupið inn til að horfa á teiknimyndir í glænýja vídeótækinu, sem hann afi Maggi fékk með skipi að utan einn fyrstur Íslendinga. Hann var ætíð óhræddur við nýjungar, lærði fljótt á gsm-síma og var fljótur að uppfæra í nýjustu týpuna frá Volvo.

Við þáðum alltaf ísinn sem skorti aldrei heima hjá afa og ömmu, en ekki er hægt að segja það sama um rækjurnar í hlaupi og kavíar sem við sentumst oft eftir fyrir hann upp í búð. Harðfiskinn, þá sérstaklega Sýslumannskonfektið, var hann ætíð örlátur á og gleymdi aldrei barnabörnunum sem bjuggu erlendis. Oftar en ekki fékk maður heilu Hagkaupspokana fulla af íslensku góðgæti og páskaeggin, sem við fengum öll, smökkuðust vel.

Afi hafði gaman af tónlist, lagið Litla flugan eftir Fúsa vin hans á sér sérstakan stað í huga okkar allra og Fats Waller og Chopin hljómuðu oft í stofunni. Drudd, drudd, drudd glumdi svo þegar hann spilaði með fingrum sínum og gullhringjum á borðplötuna.

Við munum eftir afa smekkvísum með slaufu um háls, Lionsmerki í barminum og sígildan Old Spice-ilm inni á skrifstofunni í Ásendanum, oftar en ekki á kafi við að spila á reiknivélina eða flokka frímerki eða forna mynt. Í skyrtuvasanum geymdi hann litlu hvítu minnismiðana til að tryggja að ekkert gleymdist eða yrði út undan. Ætíð pottþéttur og trausts verður.

Afi Maggi fór ekki í grafgötur með stolt sitt af okkur barnabörnunum, nafna sínum og gullsmiðunum tveimur sem hann sagði að væru að uppfylla drauma sína. Hann hvatti okkur ávallt áfram og var okkur til halds og trausts.

Afi Maggi sagðist ætíð vera ríkur maður því hann ætti svo góða fjölskyldu. Við vorum svo sannarlega einnig rík að eiga svona góðan afa.

Hann afi okkar var höfðingi og sannur heiðursmaður. Í minningu hans: Áfram ÍR! Barnabörnin

Magnús Eðvald, Eva Hrönn og Unnur Eir.

Elsku afi minn, mér finnst svo skrýtið að þú skulir vera búinn að kveðja okkur, ég einfaldlega trúi því ekki.

Þú varst svo góður maður og mér þótti svo vænt um þig. Ég á eftir að sakna þín óendalega mikið. Síðustu daga hef ég fátt annað gert en að rifja upp allar gömlu og góðu minningarnar sem ég hef átt með þér í gegnum tíðina og heyri smitandi hláturinn þinn hljóma inni í höfðinu á mér og brosi með sjálfri mér.

Þetta eru svo margar minningar sem streyma, ég get aldrei gleymt listanum þínum sem þú geymdir í brjóstvasanum, þú varst svo skipulagður og engu mátti gleyma, þú mundir líka alltaf allt! Ég á líka alltaf eftir að muna eftir stafnum og pullunni sem þú fórst með um allt í seinni tíð og stundirnar þegar þú komst niður í Meba um jólin þegar við vorum að vinna, bara til að segja hæ og fylgjast með, þess á ég eftir að sakna.

Ég man eftir að vera í pössun hjá ykkur ömmu, þegar ég var lítil, skottast um bæinn með þér, fara í bankann, niður í Meba og út um hvippinn og hvappinn og svo endaði dagurinn á því að fá sér eina skál af ís! Ég gleymi aldrei ísnum, ein skál af ís á kvöldin, það er bara hollt varstu vanur að segja. Þegar ég heyrði að þú værir farinn frá okkur þá fór ég strax og fékk mér ís.

Því gleymi ég líka seint að alltaf á aðfangadag komstu með rækjur og harðfisk handa honum Óliver mínum. Kötturinn varð líka að fá jólamat, það var ekki hægt að una því að hann lenti í jólakettinum! Þú passaðir líka alltaf vel upp á það að ég væri ekki harðfiskslaus hérna úti í "Dronningens by" eins og þú varst vanur að segja og sagðir svo fallega við mig þegar ég kom um jólin og kvaddi þig á spítalanum, daginn sem ég fór aftur út til Kaupmannahafnar. Ég man hversu stoltur þú varst þegar þú byrjaðir að keyra aftur, hringdir heim og baðst alla um að koma út, svo keyrðirðu og lagðir rosa fínt upp í stæðið. Líka hversu stoltur þú varst þegar ég átti að skrifa ritgerð um áhugaverða manneskju þegar ég var í Kvennó og ég valdi að skrifa um þig. Þá ritgerð á ég eftir að varðveita að eilífu, hún er svo góð minning um stundina sem ég eyddi með þér þegar þú sagðir mér frá ævi þinni. Ég get aldrei gleymt hversu góðhjartaður maður þú varst og hvað þú vildir gera allt fyrir mann og hjálpa manni á allan þann hátt sem þú gast. Þú varst líka alltaf svo góður við ömmu og fann maður alltaf fyrir allri þeirri ást sem ríkti á milli ykkar. Tattóið á handleggnum á þér var sönnun þess.

Ég á aldrei eftir að gleyma þessum og öllum hinum minningunum og geymi þær djúpt í hjarta mínu þar sem ég get leitað þeirra þegar mér líður illa. Ég á alltaf eftir að muna það sem þú sagðir við mig síðast þegar ég kvaddi þig – Áfram ÍR! Ég kveð þig með trega, elsku afi minn, hvíl í friði.

Hildur Hlín Jónsdóttir.

Elsku langafi minn, þótt það sé erfitt að takast á við ferð þína yfir í næsta ævintýri, þá líður mér vel að vita að þér líður betur. Því það er það sem þú átt svo sannarlega skilið. Alltaf, frá því að ég man eftir mér, hef ég litið upp til þín. Ég á bara góðar og skemmtilegar minningar bæði um þig og með þér, þú leyfðir mér að finna hvað þér þótti vænt um mig.

Þú varst mér svo góður. Hjartahlýr, skemmtilegur, góður, hamingjusamur og örlátur.

Það var hann afi minn.

Þín

Alexandra Björk.

Hinsta kveðja

Hinsta kveðja

Elsku langafi Maggi.

Mér þykir sárt að fá ekki að kynnast þér betur. Við fengum bara eitt ár til að kynnast hvort öðru. Mamma lofar að segja mér frá þér þegar ég verð stærri. Ég skal passa langömmu Unni voða vel fyrir þig.

Legg ég nú bæði líf og önd,

ljúfi Jesús, í þína hönd,

síðast þegar ég sofna fer

sitji Guðs englar yfir mér.

(Hallgrímur Pétursson.)

Með saknaðarkveðju

Hafrún Halla Haraldsdóttir.

Ég skil ekki alveg af hverju afi Maggi er dáinn og af hverju ekki var hægt að lækna hann. Hann var svo mikill ískall og kom svo oft í heimsókn með ís eða harðfisk handa mér.

Jón Kári, litli bróðir minn, hitti þig bara einu sinni en ég ætla að segja honum frá þér og hvað þú varst góður, þegar hann verður stærri.

Ég mun sakna þín langafi,

þinn

Baldvin Birnir Konradsson.

Elsku besti afi Maggi, takk fyrir allar góðu og skemmtilegu stundirnar sem við áttum saman. Þú varst frábær langafi.

Áfram Í.R

Sverrir Eðvald Jónsson.