Framkvæmdastjórn ESB tilkynnti hinn 20. desember að hrinda ætti í framkvæmd áætlunum um að koma á fót sérstöku kvótakerfi vegna útstreymis gróðurhúsalofttegunda frá flugsamgöngum. Gildissvið svokallaðrar útsteymistilskipunar ESB (2003/87) verður útvíkkað frá því sem nú er. Allar flugsamgöngur innan ESB munu falla undir tilskipunina árið 2011 og millilandaflug til og frá ESB ári síðar. Rétt er að hafa í huga að Kyoto-bókunin nær ekki yfir millilandaflug. Útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá flugi innan ESB nemur nú um 3% af heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda innan sambandsins.
Frá árinu 2010 verður flugrekendum skylt að meta og skrá allt útstreymi og 2011–2012 fá flugrekendur úthlutað án endurgjalds 90% af útstreymi viðmiðunartímabilsins. Frá 2013 verður úthlutað án endurgjalds 80% af viðmiðunarútstreymi og frá 2018 60%. Það sem á vantar verður selt á uppboði. Upp að vissu marki geta flugrekendur bætt við sig heimildum frá þróunarríkjum og öðrum ríkjum sem hafa tekið á sig skuldbindingar samkvæmt Kyoto. Einnig er heimilt að afla sér heimilda á markaði sem koma þá frá öðrum sem undir tilskipunina falla og eru aflögufærir.
Áhrif á Ísland
Ísland hefur ekki innleitt tilskipun ESB enda er hún ekki hluti af EES-samningnum. Framkvæmdastjórn ESB hefur undanfarið beitt EFTA-ríkin og íslensk stjórnvöld miklum þrýstingi að fella tilskipunina undir EES-samninginn. Verði það gert mun flug milli Íslands og Norður-Ameríku verða háð sömu skilyrðum og flug til og frá ESB. Áhrifin á íslenskt efnahagslíf geta orðið umtalsverð þar sem tíðar og góðar samgöngur eru lífsnauðsynlegar Íslendingum en lengri flugferðir verða skattlagðar hærra heldur en t.d. flug innan ESB. Auk þess er flugrekstur umsvifamikill á Íslandi á alþjóðavísu og mikilvægt að samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja bíði ekki skaða. Í fréttatilkynningu frá framkvæmdastjórn ESB eru áhrif þessarar nýju skattheimtu þó sögð óveruleg, eða umtalsvert minni en áhrif verðhækkana á olíu á undanförnum árum. Hver flugmiði gæti þó hækkað um allt að 5.000 krónur og vöruflutningar munu einnig verða dýrari. Gangi fyrirætlanir framkvæmdastjórnar ESB eftir er líklegt að áhrif þeirra verði meiri á íslenskt efnahagslíf en annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. ESB bendir á að flug til afskekktra svæða geti átt rétt á byggðastyrkjum en ekkert slíkt getur átt við flug til og frá landinu.