23. september 1993 | Innlendar fréttir | 544 orð

Torgið Greitt úr lánaflækjunni

Torgið Greitt úr lánaflækjunni ÁRLEG hlutfallstala kostnaðar er hugtak sem á eftir að verða mikið notað eftir 1. október næstkomandi.

Torgið Greitt úr lánaflækjunni

ÁRLEG hlutfallstala kostnaðar er hugtak sem á eftir að verða mikið notað eftir 1. október næstkomandi. Þá ganga í gildi lög um neytendalán sem miða að því að neytandi hafi alltaf upplýsingar um samanlagðan kostnað vegna láns, lýst sem árlegri prósentu sem reiknuð er út samkvæmt sérstakri stærðfræðilíkingu. Þessi tala á að sýna heildarlántökukostnað sem hlutfall af upphæð höfuðstóls lánsins. Markmiðið er að tryggja að neytendur séu nægilega vel upplýstir um þau lánskjör sem bjóðast á markaði og geti á auðveldan hátt gert samanburð á sambærilegum grundvelli milli mismunandi lánstilboða. Árleg hlutfallstala kostnaðar er þannig tala sem svarar til núvirðis allra skuldbindinga, þ.e. lána, endurgreiðslna og kostnaðar, sem til kann að koma eða eru þegar fyrir hendi og lánveitandi og neytandi hafa samið um.

Reglugerðin um neytendalánin nær til lánssamninga sem gerðir eru við lántakanda af hálfu verslana, framleiðenda og þjónustuaðila með vissum undanþágum. Lánssamningar sem gilda skemmri tíma en þrjá mánuði eru t.d. undanþegnir reglugerðinni, lánssamningar sem fela í sér endurgreiðslur án vaxta og kostnaðar, leigusamningar nema eignarleigusamningar eru undanþegnir, lánssamningar að lægri fjárhæð en 15 þúsund og hærri fjárhæð en 1,5 milljón króna og lánssamningar sem tryggðir eru með veði í fasteign.

Sofið á verðinum

Með þessum breytingum verður ákveðin upplýsingaskylda lögð á lánveitendur. Lánssamningar þurfa að vera skriflegir og fela í sér upplýsingar um höfuðstól og útborgun, árlega nafnvexti og lántökukostnað, fjölda greiðslna og upphæð þeirra auk heildarupphæðar endurgreiðslna. Til viðbótar ber síðan lánveitenda að reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar og í reglugerðinni að finna reglur um útreikning hennar. Þá á samkvæmt reglugerðinni að gefa upp vexti, lántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar í auglýsingum um lán og lánafyrirgreiðslu. Ef lánveitandi er seljandi vöru eða þjónustu á hann að einnig að gefa upp staðgreiðsluverð. Vanræksla á þessari upplýsingaskyldu kann að baka lánveitanda skaðabótaábyrgð. Samkvæmt reglugerðinni hefur Samkeppnisstofnun eftirlit með því að ákvæði hennar séu virt, m.a. að töflur og reikniforrit sem notuð eru til að reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar sýni rétta niðurstöðu.

Frumvarpið um neytendalán var samþykkt á þingi síðastliðið vor með gildistökuákvæði 1. október. Ástæða er til að ætla að menn hafi sofið á verðinum og nokkuð vanti upp á að þeir aðilar; verslanir, framleiðendur og þjónustuaðilar sem reglugerðin nær til, séu reiðubúnir fyrir þessa breytingu sem mun eiga sér stað eftir rétt rúma viku. Miðað við viðbrögð þeirra sem Morgunblaðið hefur haft samband við er ljóst að margir þurfa að nýta næstu daga vel til kynningar á þessum nýju reglum um neytendalán.

Lækkar lántökukostnaður?

Það er ekkert vafamál að þessar breytingar á fyrirkomulagi neytendalána eru til góða fyrir neytendur. Þær munu koma til með að hafa mikil áhrif á þróun samkeppninnar og gætu því jafnvel haft áhrif til lækkunar á lántökukostnaði. Síðastliðið haust var birt tafla hér á síðum viðskiptablaðsins þar sem borinn var saman lántökukostnaður hjá nokkrum fyrirtækjum sem bjóða svonefnd bílalán. Það er skemmst frá því að segja að ótrúlegur frumskógur hinna ýmsu kostnaðarliða gerði umræddan samanburð illmögulegan. Með nýju reglugerðinni eru vonandi þeir tímar liðnir að hægt sé að flækja neytendur þannig í torskildum atriðum að þeir gefist upp á að reyna að bera saman mismunandi lánakjör og láti sig hafa það að eiga viðskiptin sín þar sem þeir bera niður hverju sinni.

HKF

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.