Ársæll Guðsteinsson rafvirki fæddist í Reykjavík 27. desember 1929. Hann lést á líknardeild Landakotsspítala 9. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðsteinn Eyjólfsson klæðskerameistari og kaupmaður í Reykjavík, f. að Krosshúsum í Grindavík 1.1. 1890, d. 12.7. 1972, og Guðrún Jónsdóttir, f. að Miðhúsum í Hvolhreppi 20.5. 1893, d. 13.11. 1942. Systkini Ársæls eru: 1) Hólmfríður María, f. 11.8. 1914, d. 18.5. 1989. 2) Jón Óskar, f. 9.8. 1916, d. 14.4. 1975. 3) Eyjólfur, f. 10.8. 1918, d. 22.9. 2004. 4) Kristinn, f. 21.4. 1921, d. 7.12. 2000. 5) Sigursteinn, f. 3.4. 1923, d. 3.10. 2005. 6) Vilborg, f. 10.8. 1927. 7) Málfríður, f. 12.7. 1931, d. 30.10. 1998.

Fyrri kona Ársæls var Gríma Ólafsdóttir, f. 18.1. 1924, d. 12.10. 1998. Þau skildu. Þeirra sonur er Sigurður, f. 5.12. 1950. Kona hans er Anna Dóra Guðmundsdóttir, f. 5.12. 1952. Þeirra börn eru Aldís Björk, f. 17.8. 1973, og Brynjar, f. 2.6. 1978. Dóttir Sigurðar er Hlín, f. 27.12. 1974.

Seinni kona Ársæls er Pálína Kristín, f. í Bolungarvík 23.1. 1935. Foreldrar hennar voru Páll Hafsteinn Guðmundsson sjómaður í Bolungarvík, f. að Miðdalsgröf í Kirkjubólshreppi 2.5. 1906, d. 5.11. 1938, og Kristmundína Guðrún Sigurðardóttir, f. í Skálavík í Hólshreppi 24.12. 1905, d. 29.12. 1996. Börn Ársæls og Pálínu eru: 1) Vilborg Ósk, f. 18.9. 1954. Maður hennar er Finnbogi Kristinsson, f. 5.1. 1951. Þeirra sonur er Kristinn, f. 19.7. 1976. 2) Páll Hafsteinn, f. 26.8. 1956. Hans börn eru Pálína Kristín, f. 7.4. 1988, og Gunnar Kristófer, f. 1. 9. 1989. 3) Guðrún Hólmfríður, f. 3.2. 1965. Hennar börn eru Ársæll Páll Kjartansson, f. 19.6. 1988, og Gunnar Páll Kjartansson, f. 17.11. 1993.

Ársæll nam rafvirkjun við Iðnskólann í Reykjavík og lauk sveinsprófi árið 1951. Hann stofnaði raftækjaverslunina Lýsingu árið 1955 ásamt Óskari Jensen, f. 16.4.1923, d. 14.3. 1975, og rak hana allt þar til hann lést.

Útför Ársæls verður gerð frá Háteigskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Nú hefur hann faðir okkar Ársæll Guðsteinsson kvatt þetta líf nýorðinn 77 ára, en hugur hans í mesta lagi 67 ára.

Pabbi var alltaf mikill fjölskyldumaður, ánægðastur að hafa helst allan hópinn í kringum sig og við systkinin töluðum um það á gamlárskvöld að við værum svolítið ítölsk í okkur, öll með nefið hvert í annars koppi.

Við vorum ekki gömul systkinin þegar við fórum að hjálpa til í versluninni Lýsingu sem pabbi og Óskar Jensen voru með, sem þá var til húsa á Hverfisgötunni, en Óskar féll frá langt um aldur fram og tók pabbi þá við rekstri verslunarinnar. Þeir byrjuðu sinn ferill í lampabransanum með því að flytja inn frá Danmörku, síðan komu höft á innflutning og hóf hann þá að smíða ljós og var síðan með þeim fyrstu til að flytja inn ljós frá Ítalíu. Hann var mikill hönnuður í sér og hefði kannski bara átt að einbeita sér að hönnun.

Pabbi endaði sinn starfsferil líka í að smíða ljós í Kópavoginum með dyggri hjálp mömmu og Palla. Hann fylgdist ávallt grannt með öllum tískustraumum hvort sem var í fatnaði eða húsbúnaði. Sem dæmi má nefna að þegar mamma og pabbi fóru á lampasýningar erlendis voru alltaf keypt föt á okkur systkinin og barnabörnin. Þá sagði Guðrún systir alltaf: "Þú manst, mamma, að pabbi ræður fatavalinu."

Pabbi hafði ákaflega mikinn áhuga á bátum og var með trillu þegar við vorum lítil og síðan félagi í Snarfara, félagi smábátaeigenda í Reykjavík, og bar mikinn hug til þess félags til dauðadags.

Pabbi var með sterkar og ákveðnar skoðanir á flestöllu í lífinu og lá ekki á skoðunum sínum, hvort sem var um að ræða jólaboð eða annað sem við kom því. Við mamma höfðum á orði á annan dag jóla þegar Siggi bróðir kom og bauð pabba í bíltúr inn í Snarfarahöfn og eflaust að skoða í gugga í lampabúðum að Siggi væri líka að hugsa um að við fengjum þá frið til að undirbúa fjölskylduboðið sem átti að vera þá um kvöldið því hann hafði skoðanir á öllu, mat og hvernig dekka átti borð, því ekkert var of gott fyrir jólaboð fjölskyldunnar.

Pabbi fór í gegnum veikindi sín eins og honum var einum lagið, verkefni sem þurfti að klára, og sagði alltaf við okkur ef við vorum eitthvað döpur í bragði að við mættum bara vera þakklát fyrir að hafa ekki misst börn eða barnabörn.

Við kveðjum góðan og umhyggjusaman föður með söknuði og þökkum fyrir allt.

Fyrir hönd okkar systkinanna,

Vilborg Ósk Ársælsdóttir.

Við kveðjum þig með sorg og harm í hjarta

Við hyllum allt sem þér var einhvers virði

þín hetjulund, sem aldrei kunni að kvarta

var kærleiksrík og létti okkur byrði.

Pálína tengdamóðir mín og aðrir syrgjendur, ég bið þess að afl það er okkur skóp gefi okkur styrk og mildi sorgina sem er því samfara að missa lífsförunaut og góðan vin. Ennfremur bið ég þess að burtkölluð sál tengdaföður míns fái góða heimkomu ásamt endurfundi við gengin skyldmenni.

Guðs náð sé með okkur öllum.

Finnbogi Grétar Kristinsson.

Kæri frændi. Nú sest ég fyrir framan tölvuna, frekar hnugginn, við að skrifa nokkur orð til þín. Ég átti satt að segja ekki von á að fá símtal í bráð þar sem mér væri tilkynnt andlát þitt og því brá mér illa þegar Palla var í símanum og sagði: "Hann frændi þinn lést klukkan hálftvö í dag." Það vildi nú þannig til að ég og Helgi, við tveir sem þú hafðir mest samskipti við í Grindavík, sátum saman á skrifstofunni hjá mér og ég var rétt búinn að spyrja hann frétta af þér. Hann sagðist hafa hitt þig rétt fyrir jól og þú hefðir borið þig vel. Það var ávallt þannig að þú barst þig vel, sama hve veikur þú varst. Ég kynntist þér fyrir alvöru fyrir 10–15 árum og eftir það urðum við góðir vinir. Ég fékk svo sem stundum að heyra það hjá þér en alltaf var góð meining á bak við. Þú varst upphafsmaður að ættarmótinu sem við héldum og ég fullyrði að án þinna afskipta hefði ekkert ættarmót verið haldið. Þið systkinin vilduð að ættarmótið sem við héldum yrði haldið í Grindavík enda voruð þið ættuð þaðan.

Við hjónin fengum þig til að smíða ljós í eldhúsið hjá okkur og nú eru þessi ljós allt í einu orðin miklu verðmætari en áður. Ég er mjög ánægður með að hafa fengið þig til að smíða þau fyrir okkur, góð smíði og góður hugur á bak við þau. Þú varst orðinn mér kær, enda afbragðsmaður. Já, frændi, þú fyrirgefur það lof sem ég ber á þig, það er ekki endilega í þínum anda en ég verð samt að gera það.

Palla og fjölskylda, ég votta ykkur samúð mína. Við vitum að minning um góðan mann mun lifa.

Gunnar Vilbergsson.

Athafnamaðurinn Ársæll Guðsteinsson hefur lagt frá sér tæki og tól og búist til sinnar síðustu ferðar. Hann sleppti ekki verkfærum sínum viljugur, en að lokum kemur að þeim þáttaskilum í starfsævi jafnvel vöskustu verkmanna að þeir ráða ekki lengur lokastund síns vinnudags. Að vísu var sú aðgreining tímans sem felst í vinnustundum annars vegar og tómstundum eða heimastundum hins vegar líklega aldrei mjög glögg fyrir Ársæli; hann ólst upp í stórri fjölskyldu athafnafólks við Laugaveginn, þar sem heimilið var bæði miðstöð fjölskyldulífs og atvinnuumsvifa og vitnaði oft í starfshætti og lífssýn föður síns, Guðsteins Eyjólfssonar. Ársæll kaus sér þó aðra iðn, varð rafvirki, setti á fót verslun með ljós og rafmagnsvörur ásamt öðrum úr fjölskyldunni upp úr miðri öldinni sem leið og stundaði innflutning, rafvirkjun og nýsmíði ljósabúnaðar og annað iðninni tengt alla tíð síðan. Sú starfsemi hófst við miðbik Laugavegar og Hverfisgötu, barst nokkuð um austurborgina og lýkur nú í Kópavoginum.

Ársæll var með afbrigðum vinsæll og vandaður fagmaður í sinni grein. Fyrst og fremst var hann mikill áhugamaður um raforku, lýsingu og ljósabúnað og var sem iðnaðarmaður framúrskarandi listfengur, hugmyndaríkur og handlaginn, en hann hafði einnig yndi af verslun og þjónustu og var reyndar í blóð borin ljós mynd af skyldum verslunarmannsins við viðskiptavininn. Það mætti ætla að maður þessarar gerðar rakaði að sér veraldlegum auði, en sú stefna náði aldrei að verða mjög ráðandi á vegferð Ársæls. Til þess var hann of upptekinn við að fylgjast með fótataki hvers dags í samtímanum, samskiptum við vini og fjölskyldu í dagsins önn og að sinna þeim hugðarefnum, sem gátu gripið hann fast til hliðar við lífsstarfið. Ársæll var greiðvikinn maður með afbrigðum og örlátur á tíma sinn og hvaðeina sem honum var tiltækt; hjarta hans hafði alltaf sterkari slátt en buddan.

Ársæll var gæfumaður í einkalífi sínu. Hann kvæntist Pálínu Pálsdóttur fyrir rúmlega hálfri öld, átti einn son úr fyrra hjónabandi en saman eiga þau þrjú börn, barnabörn og barnabarnabarn. Fjölskyldan skipti hann höfuðmáli og samstaða hans og Pöllu í þeim málum og öðrum var aðdáunarverð. Fátæklegum minningarorðum um Ársæl verður ekki lokið án þess að minnast samfylgdar þeirra sérstaklega, ekki síst nú hin síðustu misseri, eftir að fór að grilla í leiðarenda Ársæls. Betri og umhyggjusamari fylgdarmann en Pöllu á þeim vegarkafla er vart hægt að hugsa sér. Við sendum henni og hennar fólki einlægar samúðarkveðjur um leið og við kveðjum Ársæl með þakklæti fyrir ómetanlega vináttu og félagsskap.

Kolfinna og Hinrik.

Vinur okkar, Ársæll Guðsteinsson, er látinn eftir erfið veikindi um nokkurt skeið.

Hann var á margan hátt einstakur öðlingsmaður sem átti að baki mikið og merkilegt ævistarf. Hann var lærður rafvirki og stundaði þá iðn og skyld störf um margra áratuga skeið. Eftir hann liggur ótölulegur fjöldi ljósatækja sem hann framleiddi við rennibekkinn sinn og prýða ófá heimili og fyrirtæki vítt og breitt um landið. Handbragðið var slíkt að margir sóttust eftir að fá hjá honum lampa og ljósatæki margvísleg og er óhætt að segja að hann stóð meðan stætt var og raunar miklu lengur. Þá var ekki alltaf spurt hvað tímanum liði eða hvort færu í hönd helgidagar, þegar öðru fólki þótti við hæfi að taka sér frí frá erli dagsins. Við hlið hans stóð konan hans óhagganleg, hún Pálína, og var aðdáunarvert hve vel hún reyndist honum í veikindum hans síðustu vikur og mánuði.

Ársæll var þeirrar gerðar að hann vildi hvers manns vanda leysa og reyndist ósérhlífinn á því sviði, enda var hann vinsæll og vinmargur.

Við hjónin urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að mega teljast í hópi nánustu vina þeirra og bar aldrei skugga á þann vinskap. Varla komum við svo til höfuðborgarinnar að við litum ekki inn hjá Ársæli og Pálínu. Þau heimsóttu okkur að Syðra-Langholti en raunar allt of sjaldan, því ekki mátti slá slöku við á verkstæðinu. Lengi bjuggu þau við Laugaveginn í nánd við hina vinsælu Verslun Guðsteins, sem faðir Ársæls stofnaði og rak um langa hríð og síðan afkomendur hans. Síðar bjuggu þau á fleiri stöðum og nú seinustu árin við Dalveg í Kópavogi þar sem þau ráku verkstæði sitt og verslunina Lýsingu.

Minnisstæð verður okkur dvöl á Kanaríeyjum með þeim hjónum fyrir réttum tveimur árum.

Þá var Ársæll orðinn sjúkur maður en lífsviljinn og dugnaðurinn alveg ótrúlegur.

Fyrir alla vináttuna og samskiptin í meira en hálfa öld viljum við hjónin þakka af alhug. Okkar góðu vinkonu, Pálínu og fjölskyldunni allri, vottum við dýpstu samúð.

Minningin lifir um mætan mann og einstakan fjölskylduföður.

Hrafnhildur og Jóhannes.

Kæri Ársæll. Með örfáum orðum vil ég þakka fyrir að hafa fengið að kynnast þér. Og okkar kynni voru mest í gegnum síma. Ég hef aldrei kynnst manni sem var eins nákominn faðir og þú varst Páli syni þínum, sem var á mínu heimili í Bandaríkjunum í nokkur ár. Alla sunnudaga hringdir þú til að spyrja um drenginn þinn og spjölluðum við þá oft saman þar til Páll var kominn í símann. Ég vil þakka öll indælu matarboðin sem ég kom í til ykkar hjóna og núna síðast í endaðan október. Voru synir mínir með mér í ógleymanlegu boði hjá þér og þinni dásamlegu konu og Páli syni ykkar. Þú tókst á móti okkur með opnum örmum með þitt fallega bros og dillandi hlátur. Þú lést ekki bera á því hvað þú varst veikur, alltaf sami káti og skemmtilegi drengurinn, þótt þú vissir að þetta væri sennilega kveðjustund. Ég vil þakka þér fyrir allt, kæri vinur, guð veri með þér og leiði þig inn í sitt ríki.

Elsku Pálína, Páll, Vilborg, Finnbogi, Guðrún, Sigurður, og allir aðrir ástvinir, ég bið góðan guð að vera með ykkur öllum. Minning þín lifir.

Þórheiður Kristjánsdóttir.

Ársæll Guðsteinsson heiðursfélagi og fyrrverandi formaður Snarfara lést á Landspítala – háskólasjúkrahúsi þriðjudaginn 9. janúar sl.

Sæli, eins og við kölluðum hann var mikill eldhugi og vann gríðarlegt starf fyrir félagið. Hann barðist alla ævi fyrir hagsmunum þess og lagði félaginu til ómæld verðmæti, bæði í vinnu sinni og með rausnarlegum gjöfum. Í formannstíð hans var lagt í miklar framkvæmdir sem félagið býr enn að. Fingraför Sæla verða seint afmáð úr félagsheimili Snarfara enda á hann handtök þar ofan og neðan þilja og raunar langt niður í fósturjörðina.

Ef félagið vanhagaði um nauðsynlega hluti þá annað hvort sótti Sæli þá á vinnustað sinn eða fór og keypti þá félaginu til handa. Hann átti alls staðar greiða inni hjá mönnum, enda greiðvikinn sjálfur. Þeirra greiða naut Snarfari oftast enda var það svo að ef Sæli lagði einhvers staðar inn hjá mönnum eða fyrirtækjum þá hugsaði hann sér gott til glóðarinnar síðar og lét Snarfara njóta þess. Það voru því ófáir malarbílarnir sem fylltu forina í Naustavoginum í stjórnartíð hans.

Fundir félagsins voru oft á tíðum leiðinlegir án Sæla. Hann pakkaði skoðunum sínum þannig að eftir þeim var tekið og lá hvorki á þeim gagnvart mönnum né málefnum.

Búðin í Síðumúlanum var opin öllum Snarfarafélögum og við kaffiborðið lögðu menn á ráðin. Þar fæddist hugmynd Sæla um að þiggja gömlu Viðeyjarbryggjuna sem fokið hafði á haf út og breyta henni í flotpramma og staðsetja hana austan Þerneyjar, þar sem félagar höfðu lengi legið við ankeri þegar vel viðraði. Þessi gamla Viðeyjarbryggja þjónar nú Snarfarafélögum eins og vin í eyðimörkinni þar sem hægt er að liggja við öruggan kant frá skarkala borgarinnar – þó aðeins í nokkurra mínútna siglingu frá Snarfara sé.

Minningin um Sæla og velvilja hans í garð félagsins yljar mönnum um hjartað nú þegar hans eigið hefur slegið sinn síðasta takt. Nú sitjum við í félagsheimilinu og minnumst hans, enda verk hans ljóslifandi allt um kring. Heiðursskjöldurinn á veggnum, félagsheimilið sjálft og öll nýju ljósin úr Lampabúðinni sem hann harðneitaði að taka krónu fyrir heldur sagði stoltur með sinni sterku og ákveðnu rödd: ,,Ég hef aldrei tekið krónu fyrir það sem ég hef gert fyrir þetta félag, og ætla ekki að fara að taka upp á því núna."

Nokkur hin síðari ár var ljóst að þar fór maður sem ekki gekk heill til skógar. Erfiður sjúkdómur sem Sæli barðist við hetjulega allt fram í andlátið hafði að lokum sigur. Allan þann tíma sýndi Sæli að hann var aldrei maður sem gæfist upp átakalaust. Það hafði hann nefnilega aldrei gert og ætlaði sko ekki að fara að taka upp á því núna.

Snarfari þakkar Sæla allt það sem hann hefur gert fyrir félagið.

Snarfari sendir eftirlifandi eiginkonu Ársæls, Pálínu Pálsdóttur, börnum þeirra, Sigurði, Vilborgu, Páli og Guðrúnu, svo og öllum barnabörnum og barnabarnabörnum hans sem eiga um sárt að binda vegna fráfalls hans innilegustu samúðarkveðjur.

F.h. Snarfarafélaga

Jóhannes Valdemarsson

formaður.