18. janúar 2007 | Aðsent efni | 701 orð | 1 mynd

Um kvikmyndina Ágirnd

Alvar Óskarsson og Klara J. Óskarsdóttir gera athugasemdir við umfjöllun um kvikmynd Óskars Gíslasonar, "Ágirnd", í þætti Viðars Eggertssonar og skrifum í Morgunblaðinu

Óskar Gíslason
Óskar Gíslason — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
FYRIR allnokkru var þáttur um kvikmyndagerðarkonu í umsjá Viðars Eggertssonar.
FYRIR allnokkru var þáttur um kvikmyndagerðarkonu í umsjá Viðars Eggertssonar. Í þessum þætti Viðars, sem er ágætur útvarpsmaður, var fjallað um kvikmynd föður okkar Ágirnd og aðkomu Svölu Hannesdóttur að gerð hennar.

Þar sem umfjöllunin var full af röngum fullyrðingum hafði ég samband við þáttarstjórnandann, sem tók vel í að gera þátt um föður okkar Óskar Gíslason ljósmyndara og kvikmyndagerðarmann.

Ég var að vonum ánægður með að nú yrðu leiðréttar þær ambögur sem komu fram í fyrri þætti. Satt best að segja hélt ég að nú yrði rætt um kvikmyndir föður okkar, afrekin sem hann vann á því sviði.

Það var nú öðru nær. Viðar fékk til þeirrar upplýsingar Gísla Alfreðsson og Sigríði Óskarsdóttur. Með hvaða hætti þau voru valin var ekki við mig eða systur mína rætt.

Þvílík firra, í stað þess að fjalla um kvikmyndirnar og afrekin sem hann vann á því sviði án nokkurra styrkja eða aðstoðar þess opinbera, var með mjög ósmekklegum hætti fjallað um veikindi systkina okkar og andlát, um skilnað foreldra okkar, sem kom kvikmyndagerð föður okkar ekkert við.

Það er alveg víst að þær manneskjur sem faðir okkar átti mest að þakka voru móðir okkar og Þorleifur Þorleifsson, sem var snillingur en hann gerði öll kvikmyndahandritin fyrir myndir pabba. Þá leikstýrði Ævar Kvaran flestum leiknu myndum hans.

Kvikmyndin "Ágirnd"

Forsagan var sú að til pabba kom ung stúlka, sem verið hafði í leiklistarskóla Ævars frænda okkar. Svala Hannesdóttir hét hún. Hún sýndi pabba handrit að látbragðsleik. Ekki þarf að orðlengja það frekar. Pabbi ákvað að gera kvikmynd um verkið og að ráði Ævars leikstýrði Svala leiknum.

Ég ítreka það að hennar eina aðkoma að gerð myndarinnar var handrit, sem Þorleifur Þorleifsson byggði kvikmyndahandritið á.

Eins og áðan var sagt voru engir sjóðir eða opinberir styrkir. Þess vegna fékk pabbi lítt eða óþekkta leikara (allir góðir) til að leika í myndum sínum. Fólk sem var ekki með háar launakröfur og vissi það fyrirfram að launagreiðslur færu eftir gengi myndanna.

Þetta var nokkuð, sem allir sættu sig við að örfáum undanskildum og var Svala ein þeirra.

Á þessum tíma var yfirstjórn íslensku kirkjunnar full af íhaldssemi, hræsnisfull og kannski ekki mikið þróuð frá aflátstökum eða galdrabrennum.

Það var því ekki furða þó þáverandi biskupi fyndist það mikil ósvinna að gera og hvað þá sýna almenningi kvikmynd, þar sem prestur sést stela hálsfesti af deyjandi konu. Og að beiðni biskups stöðvaði lögreglustjórinn í Reykjavík sýningar á myndinni. Þegar sýningar hófust eftir þessa stöðvun var lítil aðsókn þannig að hún bar sig aldrei.

Ég vil, svo ekki verði um villst, segja að pabbi var mjög trúaður þó hann bæri það ekki á torg. Einnig fannst mér út í hött að ætla að það að koma að gerð myndarinnar hefði valdið þeim pabba og Svölu ógæfu. Þvílíkt bull. Það rétta er að Svala var, að því er mér skilst, ólánsmanneskja, en ég fullyrði að það tengist myndinni "Ágirnd" ekki á nokkurn hátt.

Hvað pabba varðar þá var hann gæfumaður alla tíð. Hann fékk að starfa við það sem hann elskaði og átti hug hans allan. Pabbi var tvígiftur og ekki var hann lánlaus þar.

Föstudaginn 29. desember síðastliðinn birtist grein í Morgunblaðinu eftir Bergþóru Jónsdóttur, þar sem kom fram eins og fyrr segir að Svala hefði komið að handriti að "Ágirnd" (leikverki) sem notað var sem grunnur að kvikmyndahandriti, sem eins og áður var sagt var samið af Þorleifi Þorleifssyni. En víst er um það að hún leikstýrði myndinni. Ég held að þeir sem hafa verið að reyna að upphefja Svölu á kostnað föður okkar ættu að líta til þess, að hann var einn af örfáum, sem gáfu henni tækifæri. Varðandi fáránlegar vangaveltur um hver sé höfundur kvikmyndar þá er það augljóst að kvikmynd verður ekki gerð nema framleiðandi fáist.

Það verður ekki kvikmynd þó ótal handrit séu gerð. Að endingu vil ég benda á að pabbi var fyrstur kvikmyndagerðarmanna til að fá fálkaorðuna.

Hins vegar hefur íslenska ríkið (menntamálaráðuneytið) ekki sýnt minningu pabba eða verkum hans þann sóma sem hann á skilið.

Þess má geta að við erfingjar Óskars Gíslasonar þurftum að fá lögfræðiaðstoð til að stöðva síendurteknar gripdeildir RÚV á verkum pabba. Síðan hafa verk pabba verið ósýnileg á þeim bæ.

Höfundar eru börn Óskars Gíslasonar kvikmyndagerðarmanns.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.