Myrkir músíkdagar Upphafstónleikarnir voru í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit á laugardaginn en voru svo endurteknir í Salnum. Flytjendur voru Nína Margrét Gímsdóttir, Auður Hafsteinsdóttir, Sigurður Bjarki Gunnarsson og Sigurgeir Agnarsson.
Myrkir músíkdagar Upphafstónleikarnir voru í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit á laugardaginn en voru svo endurteknir í Salnum. Flytjendur voru Nína Margrét Gímsdóttir, Auður Hafsteinsdóttir, Sigurður Bjarki Gunnarsson og Sigurgeir Agnarsson. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Sveinbjörn Sveinbjörnsson: Þrjú einleiksverk f. píanó, Sónata í F f. fiðlu og píanó, Píanótríó í e, Fjögur lýrísk stykki fyrir fiðlu og píanó og Píanótríó í a.

Sveinbjörn Sveinbjörnsson: Þrjú einleiksverk f. píanó, Sónata í F f. fiðlu og píanó, Píanótríó í e, Fjögur lýrísk stykki fyrir fiðlu og píanó og Píanótríó í a. Nína Margrét Grímsdóttir píanó, Auður Hafsteinsdóttir fiðla, Sigurður Bjarki Gunnarsson selló og Sigurgeir Agnarsson selló. Laugardaginn 20. janúar kl. 20.

FLAGGSKIP frónskrar framúrstefnu meðal tónlistarhátíða hófst í ár með afturhvarfi til fortíðar í tilefni 160 ára afmælis Sveinbjörns Sveinbjörnssonar (1847–1927) er fæddist á sama ári og stílræn fyrirmynd hans, Mendelssohn, lézt. Enda nánast fyrirsjáanleg um fyrsta tónskólamenntaða Íslendinginn, þar eð námsdvalarstaðir hans, Leipzig og Kaupmannahöfn, voru á þeim tíma undir ægishjálmi Mendelssohns og nemanda hans Gades.

Tónleikaskrártextinn, fenginn úr óútgefinni Tónlistarsögu Reykjavíkur eftir Baldur Andrésson (d. 1972), sagði því miður fjarska lítið um sjálf verkin, hvað þá tilurðartíma þeirra og -röð. Í einu útkomnu íslenzku tónlistarsögunni á prenti til þessa, New Music in Iceland (1987), hefur Göran Bergendal aftur á móti eftir ævisöguritara Sveinbjörns, Jón Þórarinsson, að píanótríóin séu samin "fyrir 1912". Eftir öllu að dæma gæti margt því enn verið á huldu um aldur og ytri tilefni tónsmíðanna. Þó virtist mega ætla að dagskráin hafi verið valin úr frambærilegustu kammerverkum þessa ástsæla höfundar þjóðsöngsins.

Öll báru þau mestan svip af miðevrópskri "salon" eða "soirée"-tónlist sem þýzkir kalla stundum "Hausmusik" (s.s. heimilistónlist) – frekar en af verkum fyrir viðameiri tilefni. Harmónerar það og vel við tilkomu flestra ef ekki allra þeirra í Edinborg, þar sem Sveinbjörn bjó meirihluta ævinnar, þótt eitthvað hafi verið flutt á Íslandi, í Kanada og Kaupmannahöfn. M.ö.o. varla handa kröfuhörðustu og nýjungagjörnustu públík síðrómantíkur, og verður að virða verkunum það til vorkunnar þegar borin eru fyrir ofalin eyru nútímans. Enda blasti sjaldan við sá frumleiki sem hlustendur seinni tíma setja framar öllu og gizka fátt kom heldur á óvart í úrvinnslu.

Samt voru stykkin snoturlega samin og víða sjarmerandi, jafnvel þótt eftirminnilegustu stefin væru fengin frá svokölluðum íslenzkum þjóðlögum eins og Stóð ég útí tunglsjósi (Idyll), Máninn hátt á himni skín (Vikivaki) og broti úr Ég veit eina baugalínu (Allegro úr Píanótríóinu í e-moll). Í því sambandi er svolítið skondið að "þjóðlagið" vinsæla, Sofðu unga ástin mín, er skv. tilgátu Jóns Þórarinssonar líklega frumsamið af Sveinbirni.

Stóra spurningin er hversu auðvelt sé að draga fram bitastæðustu atriðin í túlkun á tónlist Sveinbjarnar undir fyrrgetnu afþreyingaryfirborði. Eflaust útheimtir það ærna yfirlegu, enda virtist þar stundum vanta herzlumuninn í annars innlifuðum og samstilltum leik flytjenda á þessum fásóttu tónleikum. Vonandi kemst hún þó síðar til skjalanna á væntanlegum hljómdiski með sömu verkum, ef rétt er sem kvisaðist í hléi að stæði til að gefa út á þessu ári eða næsta.

Ríkarður Ö. Pálsson