Yfirgangur Sílamávurinn virðist hafa yfirhöndina á Tjörninni og ungar annarra fugla láta í minni pokann.
Yfirgangur Sílamávurinn virðist hafa yfirhöndina á Tjörninni og ungar annarra fugla láta í minni pokann. — Morgunblaðið/ÞÖK
FÁIR ungar Tjarnarfugla komust á legg á síðasta ári. Aðeins grágæsir komu ungum sínum upp affallalítið. Líklegar ástæður fyrir þessu eru taldar fæðuskortur í Tjörninni og sjónum og ásókn sílamáva.

FÁIR ungar Tjarnarfugla komust á legg á síðasta ári. Aðeins grágæsir komu ungum sínum upp affallalítið. Líklegar ástæður fyrir þessu eru taldar fæðuskortur í Tjörninni og sjónum og ásókn sílamáva. Gísli Marteinn Baldursson, formaður umhverfisráðs Reykjavíkurborgar, segir að strax verið gripið til aðgerða til að snúa þróuninni við. Umhverfisráð hefur samþykkt aðgerðir til að bæta stöðuna. Um málið er fjallað á vef umhverfissviðs Reykjavíkurborgar.

Gargönd, skúfönd, æður og kría á Tjörninni í Reykjavík virðast ekki hafa komið upp neinum ungum síðastliðið sumar, samkvæmt því sem fram kemur í árlegri skýrslu sem Ólafur K. Nielsen og Jóhann Óli Hilmarsson hafa unnið fyrir umhverfissvið Reykjavíkurborgar. Orsakirnar eru líklega fæðuskortur og ásókn mávs.

Kjarngott fæði, mávurinn fældur og hvönn eytt

Aðgerðir sem umhverfisráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum á mánudag til að snúa þessari þróun við fjalla m.a. um að leita leiða til að gefa ungum kjarngott fæði næsta vor. Einnig verður fælingu beitt á sílamávinn, hvönn eytt í Þorfinnshólma og reynt að koma fyrir hreiðurskjóli fyrir kríu. Þá verður lögð áhersla á að endurheimta læk sunnan Hringbrautar við enda flugbrautar en hann rennur nú í skurði og að nokkru í ræsi og nýtist því ekki lengur fuglum. Möguleikar á að hindra för gæsa með unga yfir Hringbraut verða einnig kannaðir en algengt er að girðing á miðeyju komi gæsum í sjálfheldu.

Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu þeirra Ólafs og Jóhanns Óla var viðkoma Tjarnarfugla afleit á síðasta ári annað árið í röð og hefur ekki mælst jafnléleg frá upphafi mælinga árið 1973. Næstlélegasta árið var 2005. Þá kemur þar fram að aðeins örfáir ungar stokkandar og duggandar hafi verið á lífi á Tjörninni í lok júlí á síðasta ári og að engir ungar gargandar, skúfandar, æðarfugls og kríu hafi þá sést þar.

Í skýrslunni er ásókn máva í unga nefnd sem hluti af orsökinni en einnig það að vorflugur og marflær, sem hafi verið mikilvæg fæða fyrir ungana, hafi horfið. Þá hafi æti í sjó brugðist kríunni líkt og mávinum, sem sæki því í auknum mæli inn í borgina.

Haft er eftir Gísla Marteini Baldurssyni, formanni umhverfisráðs, í frétt sem birt er á vef umhverfissviðs að borgaryfirvöld taki skýrsluna alvarlega. "Því ef ekkert verður að gert eigum við á hættu að glata því skemmtilega fuglalífi sem hefur verið í og við Tjörnina í Reykjavík. Við höfum af þeim sökum ákveðið að grípa þegar í stað til aðgerða í samráði við garðyrkjustjóra og höfunda skýrslunnar."

Í hnotskurn
» "Það er sem sagt and-styggilegt ástand við Tjörnina," bloggaði Kristinn Pétursson frá Bakkafirði um fréttina þegar hún birtist á fréttavef Morgunblaðsins í gær, á bloggsíðunni kristinnp@blog.is.
» Augljóslega hafa því fregnir af þessum góðborgurum Reykjavíkur, fuglunum á Tjörninni, slegið fólk víða um land.