Guðmundur Pálsson fæddist á Böðvarshólum í Vestur-Hópi í Húnavatnssýslu 8. júlí 1919. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eir aðfaranótt 17. janúar síðastliðins. Foreldrar hans voru Anna Halldórsdóttir og Páll Guðmundsson. Systkini Guðmundur eru Björn Jónas, látinn, Ingibjörg Soffía, látin, Sigurbjörg, Elínborg Sædís, Snæbjörn, Kolfinna Gerður og Halla Valgerður, látin.

Guðmundur kvæntist 1. janúar 1945 Katrínu Gísladóttur frá Höfn í Hornafirði, f. 11. janúar 1922, d. 27. maí 1996. Börn þeirra eru: 1) Arnbjörg, f. 1945, maki Dag Handeland, þau eiga þrjú börn. 2) Páll, f. 1946, var giftur Steinunni Hákonardóttur, skildu. Þau eiga þrjú börn. 3) Anna, f. 1948, maki Óskar Þór Þráinsson, þau eiga þrjú börn. 4) Þórhalla, f. 1949, var gift Sigurði Ó. Guðmundssyni, d. 2005.

Guðmundur ólst upp á Böðvarshólum til 10 ára aldurs þegar hann flutti með foreldrum sínum til Reykjavíkur og fór 15 ára gamall að vinna sem sendill hjá Landssíma Íslands. Hóf nám í símvirkjun á sama stað 16 ára og vann óslitið þar í tæp 60 ár.

Guðmundur verður jarðsunginn frá Grafarvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Margar minningar koma upp í hugann þegar við kveðjum kæran tengdaföður minn, eftir löng og erfið veikindi. Landið sitt þekkti Guðmundur vel, bæði vegna starfa sinna sem í áratugi voru víðsvegar á landsbyggðinni og í félagsskap skáta sem hann gekk til liðs við á unga aldri, gekk á fjöll og jökla, stundaði útivist, var algjör reglumaður og fór vel með sitt.

Guðmundur var gæfumaður í einkalífi, bjó eiginkonu sinni og börnum þeirra gott heimili. Barnabörnin eru níu og barnabarnabörnin 15.

Skugga bar þó á þegar Katrín eiginkona hans lést árið 1996. Skömmu eftir það flutti hann í þjónustuíbúð eldri borgara í Hraunbæ 103, sá um sig sjálfur og fékkst við útskurð sem ber vott um einstakt handbragð. Þegar heilsunni fór að hraka fór hann á hjúkrunarheimilið Eir þar sem hann naut einstakrar umönnunar uns yfir lauk, örugglega sáttur við að fá að fara.

Ég kveð tengdaföður minn með virðingu og þökk fyrir nær 40 ára samfylgd.

Óskar Þór Þráinsson.