Robert Pickton
Robert Pickton
Eftir Baldur Arnarson baldura@mbl.

Eftir Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

KANADÍSKA þjóðin var slegin óhug í fyrradag þegar saksóknari skýrði frá því á fyrsta degi réttarhaldanna yfir svínabóndanum Robert William Pickton að hann hefði játað í samtali við lögregluþjón að hafa orðið 49 konum að bana. Um fátt hefur verið meira rætt í Kanada að undanförnu en mál Picktons, sem grunaður er um að vera versti fjöldamorðingi í sögu landsins.

"Ég ætlaði að bæta við einu [fórnarlambi] til að hafa töluna slétta í 50," hefur lögregluþjónninn eftir Pickton, sem var handtekinn 2002. "Ég gróf eigin gröf með hroðvirkni."

Dómari hlýddi á fleiri hryllilegar lýsingar í réttarsalnum í Vancouver, meðal annars lýsingu á því hvernig Pickton hefði klofið höfuð tveggja fórnarlamba sinna og geymt þau ásamt afhöggnum útlimum þeirra í frystigeymslu, þar sem þau uppgötvuðust af lögreglu í leit hennar að ólöglegri haglabyssu hjá honum.

Pickton, sem er 57 ára, er ákærður fyrir að hafa myrt sex konur sem voru vændiskonur og eiturlyfjaneytendur. Hann hefur lýst sig saklausan af ákærunum.

Í kjölfarið munu svo fara fram önnur réttarhöld þar sem hann verður ákærður fyrir morð á 20 konum til viðbótar, sem taldar eru hafa horfið sporlaust frá rauða hverfinu i í Vancouver. Lögregla hefur tilkynnt um 65 konur sem er saknað á svæðinu og er óttast að Pickton hafi jafnvel myrt mun fleiri en þessar 26.

Grunaður um að hafa brytjað fórnarlömbin í trjákurlara

Þótt reynt hafi verið að halda upplýsingum um rannsóknina leyndum fyrir almenningi, í því skyni að tryggja sem hlutlausastan kviðdóm, hafa fjölmiðlar sagt frá grunsemdum um að Pickton hafi brytjað fórnarlömb sín í trjákurlara og fóðrað svínin á búi sínu á þeim.

Hann er sagður hafa boðið vændiskonunum heim til 17 ekru svínabús fjölskyldu sinnar, "Piggy Palace", þar sem hann hafi verið frægur fyrir að efna til "villtra" samkvæma.

Verði Pickton fundinn sekur á hann yfir höfði sér lífstíðarfangelsi en dauðarefsing var afnumin í Kanada árið 1976. Búist er við að fyrsti hluti réttarhaldanna muni taka um ár og að vitnin verði alls 240 talsins.