Afmæli nálgast HR nálgast 10 ára starfsafmæli sitt og hefur fært út kvíarnar frá stofnun sinni árið 1998 en þá var heiti menntastofnunarinnar Viðskiptaháskólinn í Reykjavík.
Afmæli nálgast HR nálgast 10 ára starfsafmæli sitt og hefur fært út kvíarnar frá stofnun sinni árið 1998 en þá var heiti menntastofnunarinnar Viðskiptaháskólinn í Reykjavík.
VINNA stendur nú yfir við innanhússhönnun á fyrirhugaðri byggingu Háskólans í Reykjavík í Vatnsmýrinni sem ráðgert er að verði tekin í notkun árið 2009, þ.e. fyrri áfangi af tveimur.

VINNA stendur nú yfir við innanhússhönnun á fyrirhugaðri byggingu Háskólans í Reykjavík í Vatnsmýrinni sem ráðgert er að verði tekin í notkun árið 2009, þ.e. fyrri áfangi af tveimur. Um er að ræða um 30 þúsund fermetra byggingu og er nú verið að huga að hönnun á vinnuaðstöðu fyrir kennara og nemendur auk annarra rýma á borð við veitingaaðstöðu, bókasafn, smávöruverslun o.fl.

"Vinnan undanfarna sex mánuði hefur snúist um þessa innanhússþætti ásamt fleiru, en nú í febrúar hefst ítarlegri hönnun sem er undirbúningur að gerð byggingarnefndateikninga sem verða tilbúnar í sumar," segir Þorkell Siglaugsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Háskólans í Reykjavík.

"Á sama tíma er verið að gera deiliskipulag fyrir svæðið sem sýnir hvernig götur og aðrar byggingar sem tengjast ekki HR geta fallið að svæðinu.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist á síðari hluta þessa árs og að fyrsti áfangi verði tilbúinn haustið 2009 og seinni áfanginn 2010."

Yfirbyggt miðjutorg með álmum

Háskólabyggingin sjálf verður hönnuð þannig að um er að ræða yfirbyggt miðjutorg þar sem öll þjónusta HR verður fyrir hendi, s.s. bókasafn, mötuneyti, bóksala og ýmis þjónusta fyrir nemendur og starfsfólk. "Út frá torginu verða byggðar misstórar álmur fyrir hverja deild en allar álmurnar verða tengdar með sérstökum brúm þannig að allir geta átt samskipti milli deilda. Þetta er gert í þeim tilgangi að byggja skólann sem eina heild, auðvelda samskipti og forðast sem mest alla deildamúra. Þannig byggist upp mikill sveigjanleiki og gróska. Í stað þess að vera á þremur stöðum eins og raunin er nú, verðum við á einum og sama staðnum með starfsemi skólans. Til viðbótar þessu má nefna að gert er ráð fyrir að aðrir sem koma inn á Vatnsmýrarsvæðið, s.s. sprotafyrirtæki, rannsóknarstofnanir og ýmis þekkingarfyrirtæki, geti byggt í nágrenni við okkur og unnt verði að tengja byggingar þeirra við háskólabygginguna, m.a. með göngustígum, þannig að útkoman verði samfélag háskóla og fyrirtækja.

Heilsteypt samfélag hugsað frá upphafi

Við myndum velja til samstarfs við okkur þá aðila sem eru áhugasamir um samstarf við HR og eru jafnframt á sama sviði og við," segir Þorkell.

"Það má segja að fyrirmyndin að þessari hugmyndafræði sé að hluta sótt til erlendra þekkingarsvæða (Science Parks) þar sem háskólar eru með fjölda rannsóknastofnana í kringum sig og sömuleiðis rannsóknadeildir stærri og smærri fyrirtækja. En það sem er nýtt og einstakt við fyrirætlanir HR er að ekki hefur áður verið hugsað frá upphafi heilsteypt samfélag á tilteknu svæði þar sem þverfagleg þekking fær að njóta sín. Hingað til hefur raunin ávallt verið sú að byggja við eldri byggingar eða koma inn á svæði þar sem gömul uppbygging hefur átt sér stað, t.d. eins við Harvard-háskóla, MIT eða Kaupmannahafnarháskóla svo dæmi séu tekin. Á þeim stöðum hafa menn ekki átt þess kost að geta byrjað með "óskrifað blað" eins og við að þessu sinni og notað nýtískuhugmyndafræði og þverfaglega hugsun. Við teljum að þekkingarsamfélag framtíðarinnar feli í sér aukið samstarf ólíkra fræðigreina og þar af leiðandi erum við að skapa tengingar milli mismunandi fræðasviða. Þessar skaranir sjáum við víða í kringum okkur, í listum, vísindum og hönnun þar sem einstök svið renna saman á marga vegu.

Það má því segja að við séum að hanna háskóla 21. aldarinnar."

Hátt á þriðja þúsund nemenda stundar nám í HR

Háskólinn í Reykjavík hefur nú starfsemi sína á þremur stöðum eins og að ofan gat, í Ofanleiti, þar sem viðskiptadeild, lagadeild og kennslufræði- og lýðheilsudeild eru til húsa, í Kringlunni þar sem áður voru ritstjórnarskrifstofur Morgunblaðsins en nú eru kennslustofur, rannsóknaaðstaða, rannsóknastofnanir og vinnuaðstaða kennara og nemenda á verkfræði- og tölvunarfræðisviði, og loks við Höfðabakka þar sem tækni- og frumgreinadeild er til húsa. Á þessu námsári eru tæplega 3 þúsund nemendur við nám í HR.

Síðastliðinn laugardag voru 257 nemendur brautskráðir frá HR.

Í hnotskurn
» Háskólabyggingin sjálf verður hönnuð þannig að um er að ræða yfirbyggt miðjutorg þar sem öll þjónusta HR verður fyrir hendi, s.s. bókasafn, mötuneyti, bóksala og ýmis þjónusta fyrir starfsfólk.
» Út frá torginu verða byggðar misstórar álmur fyrir hverja deild en allar álmurnar verða tengdar með sérstökum brúm.
» Starfsemi HR fer nú fram á þremur stöðum og er ráðgert að starfsemin fari undir sama þak í Vatnsmýrinni.