BRESK samkeppnisyfirvöld hafa nokkrar áhyggjur af því að yfirburðastaða Tesco á matvörumarkaðnum í Bretlandi eigi eftir að hindra samkeppni í náinni framtíð. Breskir fjölmiðlar greina frá útkomu frumskýrslu um matvörumarkaðinn í gær þar sem m.a.

BRESK samkeppnisyfirvöld hafa nokkrar áhyggjur af því að yfirburðastaða Tesco á matvörumarkaðnum í Bretlandi eigi eftir að hindra samkeppni í náinni framtíð. Breskir fjölmiðlar greina frá útkomu frumskýrslu um matvörumarkaðinn í gær þar sem m.a. kemur fram að verslanir Tesco séu að taka inn eitt pund af hverjum þeim þremur sem breskir neytendur eyða í matvörur.

Áhyggjum er einnig lýst af vaxandi hlutdeild annarra verslanakeðja, þ.e. Asda, Sainsbury's og Morrisons. Samanlagt ráða þessar fjórar keðjur yfir 75% af breska matvörumarkaðnum. Staða þeirra, bæði í Bretlandi og annars staðar í heiminum, er sögð svo sterk að mjög erfitt sé fyrir aðra aðila að keppa við þá. Hafa fyrrnefndar keðjur tvöfaldað fjölda verslana sinna frá árinu 2000 og nú er svo komið að Tesco opnar að jafnaði tvær verslanir í viku hverri.

Til frekari rannsóknar

Eru þessar keðjur til frekari rannsóknar hjá samkeppnisyfirvöldum, sem reikna með að skila lokaskýrslu í júní nk. Þá skýrist hvort gripið verður til einhverra aðgerða. Eigendur smærri verslana höfðu borið fram kvartanir yfir aukinni hlutdeild risanna, auk þess sem ekki hafði verið tekið tillit til þeirra sjónarmiða í svipaðri skýrslu fyrir tveimur árum.