Skriftarbókin Vart má á milli sjá hvað er prentað og hvað er skrifað þegar skólabækurnar hennar Maríu eru skoðaðar og vandað er til myndskreytinganna.
Skriftarbókin Vart má á milli sjá hvað er prentað og hvað er skrifað þegar skólabækurnar hennar Maríu eru skoðaðar og vandað er til myndskreytinganna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur khk@mbl.is Ég ætla að verða listamaður," segir María Ýr Leifsdóttir, átta ára, alveg harðákveðin þegar hún er spurð út í framtíðina. "Að teikna og skrifa er það skemmtilegasta sem ég geri.

Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur

khk@mbl.is

Ég ætla að verða listamaður," segir María Ýr Leifsdóttir, átta ára, alveg harðákveðin þegar hún er spurð út í framtíðina. "Að teikna og skrifa er það skemmtilegasta sem ég geri. Ég fer örugglega í Listaháskólann þegar ég verð eldri." María er öllum stundum með blýanta og liti í höndunum og undan fingrum hennar renna myndir og sögur í löngum bunum. Í gluggakistunni við eldhúsborðið heima hjá henni er hár stafli sem geymir afraksturinn. "Hún situr löngum stundum hér við eldhúsborðið og teiknar og skrifar. Henni tekst meira að segja stundum að teikna mynd áður en hún fer í skólann á morgnana. Ég grisja reglulega og held til haga fallegustu myndunum," segir Harpa mamma Maríu. En María er ekki aðeins flink að teikna, rithönd hennar er einstaklega formfögur og snyrtileg, sérstaklega þegar haft er í huga að hún er aðeins átta ára. Enda nota kennararnir í skólanum skriftarbækurnar hennar til að sýna eldri nemendum hvernig eigi að draga fallega til stafs.

Maríu er í þriðja bekk í Foldaskóla og eðli málsins samkvæmt nýtur hún skólavistarinnar. "Mér finnst gaman að búa til sögur og ég geri mjög oft sögur með myndunum mínum eða myndir við sögur sem ég skrifa. Ég nota stundum tréliti, stundum tússliti, vatnsliti eða vaxliti og ég hef líka prófað að mála með olíulitum og það er alveg frábært," segir María sem á ekki langt að sækja listamannshæfileikana því mamma hennar er mikil hagleikskona og smíðar meðal annars skart úr silfri. Hún á og rekur ásamt fleirum Listaselið við Skólavörðustíg. "María er oft hjá mér þar í vinnunni og ef hún er ekki að föndra þá á hún það til að teikna mynd fyrir viðskiptavinina rétt á meðan þeir staldra við og gefur þeim. Og þegar ég fer í mína árlegu ferð í Hrafnagil í Eyjafjarðarsveit til að selja hlutina mína, þá kemur María alltaf með mér og við komum við á æskuslóðum mínum á Ólafsfirði. Þá tekur María teiknidótið sitt alltaf með, enda fer hún ekkert án þess, hvort sem það er upp í sumarbústað eða til útlanda."

Listamannseðlið virðist vera í blóðinu hjá þessari fjölskyldu, því bróðir Maríu, sem nú er orðinn átján ára, var alltaf teiknandi og skrifandi rétt eins og systir hans þegar hann var yngri. Hann er ákveðinn í að nýta hæfileikana og stefnir á nám í arkitektúr.