Tíminn líður Frá sýningunni Togarar í 100 ár í húsakynnum Víkurinnar – Sjóminjasafnsins í Reykjavík á Grandagarði 8, Jón forseti í forgrunni. Safnið er opið yfir vetrarmánuðina kl. 13.00–17.00 um helgar.
Tíminn líður Frá sýningunni Togarar í 100 ár í húsakynnum Víkurinnar – Sjóminjasafnsins í Reykjavík á Grandagarði 8, Jón forseti í forgrunni. Safnið er opið yfir vetrarmánuðina kl. 13.00–17.00 um helgar.
UM ÞESSAR mundir eru liðin 100 ár síðan fyrsti togari, sem smíðaður var sérstaklega fyrir Íslendinga, Jón forseti, sigldi inn á Reykjavíkurhöfn. Það var 22. janúar 1907.

UM ÞESSAR mundir eru liðin 100 ár síðan fyrsti togari, sem smíðaður var sérstaklega fyrir Íslendinga, Jón forseti, sigldi inn á Reykjavíkurhöfn. Það var 22. janúar 1907. Hann var úthafstogari, gagnstætt fyrsta togaranum sem Íslendingar eignuðust, Coot, 1905.

Togaravæðingin og vélvæðing bátaflotans voru iðnbylting Íslendinga. Við það breyttist frumstætt landbúnaðarsamfélag á nokkrum áratugum í það fjölbreytta nútímasamfélag mennta og velmegunar sem við nú þekkjum. Togaraútgerð hefur verið rekin samfellt síðan og nú, árið 2007, virðist ekkert lát ætla að verða þar á.

Með stærstu togurum síns tíma

Jón forseti var meðal stærstu togara síns tíma, 233 tonn, og svo mjög var til hans vandað að hann var talinn jafngóður þeim togurum sem þá voru bestir í Englandi. Raunar hafði hann það umfram þá að hann var sérstaklega styrktur til að sigla á norrænum slóðum. Kaupverð hans þótti óheyrilega hátt en þrátt fyrir það fengu eigendur hans það endurgreitt á aðeins þremur árum.

Jón forseti var úr járni að mestu leyti, eins og aðrir togarar, bæði skrokkur og yfirbygging. Í honum var gufuvél. Troll Jóns forseta var í meginatriðum af því tagi sem enn tíðkast, þó mun minna, um 40 metrar að lengd, álíka og skipið, og gert úr hampi.

Á þeim tíma sem Jón forseti var gerður út einskorðaðist togaraútgerð á Íslandi nær alveg við Reykjavík og Hafnarfjörð. Hlutur Reykjavíkur var að jafnaði 70–90%. Þá höfðu allt að 20% bæjarbúa framfæri sitt af útgerðinni. Reykjavík var togarabær. Jón forseti var í eigu fiskveiðafélagsins Alliance en að því stóðu nokkrir kunnir skipstjórar og einn kaupmaður.

Útgerð Jóns forseta gekk vel lengst af. Þó fór fyrir honum eins og tæplega helmingi togara á þeim tíma, þ.e. hann strandaði. Gerðist það við Stafnes í illviðri að nóttu til þann 27. febrúar1928. Á togaranum var 25 manna áhöfn og tókst með harðfylgi manna úr landi að bjarga 10 þeirra, en 15 fórust með skipinu. Þetta slys varð mjög til að ýta á eftir stofnun Slysavarnafélags Íslands, sem var stofnað skömmu síðar og svo fyrstu björgunarsveitir á vegum þess.