FLEIRI hafernir, eða tólf fuglar, sáust í árvissri vetrarfuglatalningu Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ) en nokkur sinni áður, allt frá Meðallandi í austri, vestur og norður um til Vestfjarða.

FLEIRI hafernir, eða tólf fuglar, sáust í árvissri vetrarfuglatalningu Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ) en nokkur sinni áður, allt frá Meðallandi í austri, vestur og norður um til Vestfjarða. Þá sáust óvenjumargar súlur í talningunni en þær koma yfirleitt að landinu síðla í janúar. Meðal sjaldgæfra fuglategunda má nefna hvítönd í Meðallandi og kúfönd á Sogi en sú síðarnefnda er sárasjaldgæfur flækingur frá Norður-Ameríku og er afar lík duggönd.

Talningin fór fram helgina 6.–7. janúar 2007 en NÍ hefur skipulagt talningarnar frá árinu 1952. Talið var á um 150 einstökum svæðum um land allt og hafa niðurstöður borist frá 132 svæðum. Um 130 manns tóku þátt í talningunni, allt sjálfboðaliðar.

Samkvæmt fyrstu niðurstöðum er æður langalgengust sem fyrr en óvenju fáir snjótittlingar sáust eins og jafnan þegar snjór er lítill, segir í frétt Náttúrufræðistofnunar Íslands.