Íslenska karlalandsliðið í handknattleik vann frækilegan sigur á sjálfum Evrópumeisturum Frakka í landsleik liðanna í fyrrakvöld og tryggði sér þar með, þvert á spár flestra, sæti í milliriðli á HM í Þýskalandi.

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik vann frækilegan sigur á sjálfum Evrópumeisturum Frakka í landsleik liðanna í fyrrakvöld og tryggði sér þar með, þvert á spár flestra, sæti í milliriðli á HM í Þýskalandi.

Afrek landsliðsins er stórglæsilegt og sjaldan ef nokkurn tíma, hefur liðsheildin verið jafnsterk, sóknarleikur liðsins jafn djarfur, vörnin jafn pottþétt, eða markvarslan jafn frábær. Leikgleði, einbeitni og samvinna voru augljóslega dagskipun Alfreðs Gíslasonar þjálfara til liðsins, sem í einu og öllu lék samkvæmt henni.

Þessi leikur íslenska liðsins gegn því franska verður ugglaust lengi í minnum hafður og óhætt er að fullyrða, að hægt verður að styðjast við myndbandsupptökur af honum, þegar reynt verður að kenna og brjóta til mergjar, hvernig eigi að leika þennan skemmtilega, hraða og krefjandi leik, þannig að leikmenn jafnt sem áhorfendur hafi ánægju af.

Átta marka sigur gegn Frökkum var staðreynd í leikslok og íslenska liðið er komið í milliriðil á HM með tvö stig og átta mörk í farteskinu.

Eins og oftast vill verða var búið að byggja upp geysilegar væntingar til "strákanna okkar" eftir að þeir með svo eftirminnilegum hætti náðu að tryggja sér sæti á HM á þjóðhátíðardag Íslendinga, 17. júní, í fyrra með því að vinna Svía samanlagt í tveimur leikjum.

Væntingarnar hafa ekki gert neitt annað en að aukast frá því í fyrrasumar og fyrsti leikurinn á laugardag, þar sem íslenska landsliðið burstaði það ástralska, gerði það að verkum, að margir töldu að það væri lítið annað en formsatriði að leggja landslið Úkraínu að velli. Eins og alkunna er runnu slíkar væntingar út í sandinn í einu vetfangi, þegar Úkraínumenn unnu öruggan sigur á okkar mönnum á sunnudag og ugglaust töldu flestir að íslenska landsliðsins biði sú smánarlega raun að leika um 13. til 18. sæti á mótinu, þar sem mótherjarnir væru lélegar handknattleiksþjóðir á borð við Kúveita, Katara, Brasilíumenn og Argentínumenn.

Með undraverðum umsnúningi, frá afspyrnulélegum leik íslenska liðsins gegn Úkraínu yfir í handknattleik á heimsmælikvarða gegn Frökkum tókst hið ótrúlega og landslið Íslendinga er komið áfram í milliriðil.

Nú þurfum við að sýna það í verki, að við styðjum íslenska karlalandsliðið í blíðu og stríðu, en það er raunar heitið á sérstöku stuðningsmannaliði íslenska landsliðsins, nýstofnuðu. Félagar í blíðu og stríðu voru orðnir 5655 í gærkvöld, samkvæmt heimasíðu liðsins. Liðið hefur unnið frábæran áfangasigur, en nú ríður á að væntingar til liðsins og kröfur á hendur því keyri ekki úr hófi fram.