Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.is NEFSKATTURINN sem verður lagður á til að fjármagna rekstur Ríkisútvarpsins leggst eingöngu á þá einstaklinga og lögaðila sem greiða tekjuskatt. Þeir sem aðeins hafa fjármagnstekjur sleppa því við nefskattinn.

Eftir Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

NEFSKATTURINN sem verður lagður á til að fjármagna rekstur Ríkisútvarpsins leggst eingöngu á þá einstaklinga og lögaðila sem greiða tekjuskatt. Þeir sem aðeins hafa fjármagnstekjur sleppa því við nefskattinn.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra segir að þetta verði tekið til skoðunar en nægur tími sé til stefnu því ekki verði byrjað að innheimta nefskattinn fyrr en 2009.

Samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið ohf. sem samþykkt voru í gær leggst afnotagjaldið af en í staðinn verður innheimtur nefskattur, 14.580 krónur af einstaklingum og lögaðilum. Undanþegnir gjaldinu eru þeir sem ekki ber skylda til að greiða gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. Þar með sleppa þeir sem aðeins hafa fjármagnstekjur undan skattinum því að gjaldið er eingöngu innheimt af tekjuskatti.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra á þetta við um 2.200 manns hér á landi.

Á að ná til allra

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sagði að mál þeirra sem eingöngu hafa fjármagnstekjur yrði að leysa með almennum breytingum á skattkerfinu en það hefði þótt of flókið að bæta úr þessu í gegnum einstök sérlög eins og um RÚV ohf. Það væri hins vegar alveg ljóst að nefskatturinn ætti að ná til allra og það væri nægur tími til að laga skattkerfið til þess að það mætti takast.

Á Alþingi í gær var deilt á menntamálaráðherra vegna þess að svar við fyrirspurn um fjárhagsstöðu RÚV barst of seint og eftir að umræðu um frumvarpið um RÚV ohf. lauk. Í svarinu kom fram að rekstrarhalli RÚV 1. júní 2006 var 420 milljónir og 434 milljónir frá janúar fram í nóvember. Þorgerður Katrín sagði að hallinn stafaði að mestu af óhagstæðri gengisþróun. Stjórnarandstaðan hefði lengi vitað af hallanum því gögn um fjárhagsstöðuna á fyrri hluta árs hefðu komið fram í skýrslu sem lögð var fyrir menntamálanefnd á sínum tíma. Þetta væri ekkert nýtt og kristallaði hræsni í málflutningi stjórnarandstöðunnar. | 10