Skemmdir Þak á skemmu að Felli í Kollafirði fauk af í heilu lagi og lenti um 150 metrum frá.
Skemmdir Þak á skemmu að Felli í Kollafirði fauk af í heilu lagi og lenti um 150 metrum frá. — Morgunblaðið/Arnheiður
VÉLAGEYMSLA við bæinn Fell í Strandabyggð gjöreyðilagðist í ofsaroki sem gekk yfir svæðið í gærdag. Svo hvasst var um tíma að fólk sem gekk til gegninga á nærliggjandi bæjum þurfti að ganga með girðingum milli húsa.

VÉLAGEYMSLA við bæinn Fell í Strandabyggð gjöreyðilagðist í ofsaroki sem gekk yfir svæðið í gærdag. Svo hvasst var um tíma að fólk sem gekk til gegninga á nærliggjandi bæjum þurfti að ganga með girðingum milli húsa.

Fell stendur í botni Kollafjarðar þar sem vegurinn liggur yfir Steinadalsheiði. Á þessu svæði getur gert fárviðri í sunnan- og suðvestanáttum eins og gerði núna. Vélageymslan hefur þó staðið af sér öll vetrarveður á þessum slóðum í nær því hálfa öld. Á Felli er ekki lengur stundaður hefðbundinn búskapur en þar er nú rekið sumardvalarheimili fyrir börn og unglinga. Í vélageymslunni sem fauk var dráttarvél auk ýmissa verkfæra og tækja en ekki er vitað nákvæmlega hversu mikið tjónið er.

Björgunarsveitin Dagrenning á Hólmavík var kölluð út, skv. upplýsingum Landsbjargar. Fauk þakið af skemmunni í heilu lagi og lenti um 150 metra frá. Björgunarsveitarmenn fóru, ásamt bændum, í að fergja niður hluti og rifu niður veggi sem eftir stóðu.