Ingunn Ólafsdóttir fæddist í Hafnarfirði 25. ágúst 1928. Hún lést á deild 11-E á Landspítala við Hringbraut að kvöldi fimmtudagsins 18. janúar síðastliðins. Foreldrar hennar voru Ólafur Jónsson, f. 3.3. 1904, d. 27.12. 1984, og Solveig Magnúsdóttir, f. 22.1. 1907, d. 6.12. 1993. Systir Ingunnar er Auður, f. 7.3. 1934, gift Stefáni Bjarnasyni.

Hinn 6. ágúst 1949 giftist Ingunn Pétri Þorgilssyni, f. 27.4. 1928, d. 14.1. 2001. Foreldrar hans voru Þorgils Sigtryggur Pétursson, f. 18.5. 1892, d. 9.1. 1979, og Guðný Ingigerður Eyjólfsdóttir, f. 28.2. 1897, d. 11.12. 1943. Börn Ingunnar og Péturs eru: 1) Solveig, f. 28.8. 1949, dætur Ingunn og Helga Rúna. 2) Ólafur Tryggvi, f. 16.8. 1951, maki Margrét Þorgeirsdóttir, börn Lewis Tryggvi, látinn, Rakel Ýr og Katrín Rós. 3) Guðný Ingigerður, f. 28.2. 1955, dætur Helga og Magnea Ingibjörg. 4) Auður, f. 22.3. 1957, maki Ríkharður Sverrisson, börn Pétur, Ríkharður Björgvin og Margrét. Langömmubörnin eru sjö.

Ingunn var framan af heimavinnandi en eftir að börnin urðu stálpuð vann hún samhliða húsmóðurstörfunum við ýmis verslunarstörf.

Ingunn verður jarðsungin frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Fallin er frá elsku besta móðir mín eftir erfið veikindi. Nú ert þú mamma komin til pabba og þið hafið sameinast á ný. Hluti af mömmu dó þegar pabbi lést. Þegar ég hugsa til baka og rifja upp þá er mér minnisstæðust umhyggja mömmu fyrir okkur systkinunum, alltaf var hún að passa upp á að við fengjum nóg og að við litum vel út. Ég hugsaði stundum hér áður fyrr: Ætli hún mamma sofi aldrei? Hún var alltaf síðust að fara að sofa og fyrst allra á fætur, búin að pressa allt og strjúka. Lét okkur alltaf ganga fyrir. Umhyggja hennar fór stundum yfir strikið að mér fannst, en auðvitað var þetta allt vel meint. Hún var alltaf tilbúin að hjálpa eins og hún gat.

Mamma var mikil skíðakona þegar hún var ung og vann til margra verðlauna. Hún stundaði ekki skíði meðan við vorum að alast upp en byrjaði aftur eftir að hún varð amma. Þá fóru hún og pabbi, sem aldrei stundaði skíði, en var til í að vera bílstjóri. Söfnuðu saman barnabörnum og fóru yfirleitt hverja helgi með hópinn á skíði. Þetta elskaði mamma, að eiga ömmubörnin út um allar brekkur. Það var efst í huga hennar fram á síðustu stundu að nú færi að snjóa svo hún kæmist á skíði.

Þessar ljóðlínur langar mig að gera að mínum og segja

Ó, – elsku hjartans mamma, þá minnist ég best þín,

er minnist ég á sælustu lífsatvikin mín.

Hve amalaust og gleðiríkt átti' ég bernskulíf,

þá undir þinni hjartnæmu móðurkærleikshlíf.

Já mamma, elsku mamma, hve man ég ávallt vel,

þitt milda, kærleiksríka og blíða hugarþel.

Ég man þegar ég kúrði í kotinu hjá þér,

þú kysstir mig og last yfir bænirnar með mér.

Þú kenndir mér hið góða, sem grær í brjósti mér.

þú gróðursettir stilkinn, sem lífsmagnið ber,

þú hefur dýrum fræjum í sálu mína sáð.

Hvort sérðu að þau dálitlum þroska hafa náð?

Sem ljúfa drauma vaktir þú lífsins von hjá mér.

Ég lærði að þekkja hið milda og fegursta hjá þér.

Í faðmi þínum óx ég, við brjóstið þitt, sem blóm

í blíðviðri, sem hlustar á vorsins sigurhljóm.

Hve fátækleg er þökkin, sem færð þú nú hjá mér,

ég finn ekki einu sinni þau orð, er sæma þér,

mér ljúfust er sú vissa, að ljóssins faðir sér

og launar best og metur það starf, sem göfugt er.

(Ágúst Böðvarsson)

Ég vil þakka starfsfólki á deild 11-E á Landspítala við Hringbraut kærlega fyrir frábæra umönnun í veikindum mömmu. Og hlýju og nærgætni við okkur systurnar.

Takk fyrir allt elsku mamma.

Þín dóttir

Auður.

Elsku amma mín. Það er ósköp sárt að horfa á eftir þér, lífið mun verða tómlegt án þín. Ég á ótal minningar um þig og afa sem munu hlýja mér það sem eftir er ævinnar. Þið afi voruð mér svo miklu meira en bara amma og afi, enda var ég svo mikið hjá ykkur sem krakki og vildi oft á tíðum ekki fara heim með mömmu, hún þurfti að draga mig öskrandi út frá ykkur. Þið afi eigið mjög stóran sess í mínu hjarta sem aldrei verður tekinn í burtu. Ég var mikið ömmubarn enda vorum við með "alveg eins augu" eins og ég var mjög dugleg að benda á. Það var alltaf svo gaman að vera hjá ykkur afa og þar leið mér alltaf svo vel og þið voruð alltaf svo góð við mig og áttuð heilmikið í mér. Ég gat alltaf leitað til ykkar með hvað sem er. Þú kenndir mér og Helgu Rúnu á skíði og þó svo afi skíðaði ekki kom hann alltaf í fjöllin með okkur, við skíðandi þrjár saman og hann fylgdist með okkur á jörðu niðri. Sú minning er mér mjög kær. Elsku amma mín, síðustu árin varstu farin að gleyma ýmsu en þú gleymdir aldrei persónum. Gabríel Pétur fékk að kynnast þér og hann var mjög hrifinn af ömmu Ingu og vildi alltaf ólmur fara til þín eða fá þig í mat til okkar. En nú ertu komin til afa aftur og þar átt þú heima. Þú varst aldrei sátt við að hann væri farin frá þér og við getum allavega huggað okkur við það að nú líður þér vel í faðmi hans að nýju, þó svo að helst vildi ég hafa ykkur bæði hér enn hjá mér. Ég veit að þið vakið yfir okkur og eruð alltaf með okkur. Elsku amma mín nú kveð ég þig í síðasta sinn, ég elska þig elsku amma mín.

Þín

Ingunn.

Elsku amma, nú ertu farin frá okkur og það er mjög erfitt að sætta sig við. Ég hugga mig við að afi hefur beðið eftir þér með opinn faðminn. Ég vona að þú hafir vitað að ég var hjá þér þegar þú fórst og strauk hönd þína. Ég er ánægð að vita að þjáningum þínum er lokið og betri heimur tekinn við.

Þú hefur verið mér ómetanleg allt mitt líf. Þegar ég rifja upp allt sem við áttum saman fyllist ég gleði. Þannig mun ég ávallt hugsa til þín. Ég var hjá þér öll mín uppvaxtarár og að alast upp hjá þér og afa í Álftamýrinni voru forréttindi. Því mun ég aldrei gleyma. Takk fyrir að gefa mér svo stóran hluta af lífi þínu.

Þú hefur alltaf staðið við bakið á mér og kennt mér svo margt. Þú kenndir mér á skíði og margar af yndislegustu stundum okkar saman voru í fjallinu í Hamragili þar sem afi var líka með okkur. Ég minnist líka stundanna okkar saman í Álftamýrinni þar sem þú sagðir mér sögur. Ég hafði unun af því að hlusta á sögurnar þegar þú varst í sveit sem barn, t.d. um vettlingana sem þú týndir en fundust á svo skrýtinn hátt aftur. Ég minnist líka stundanna þegar afi kom heim í hádeginu að borða og við sátum öll saman við eldhúsborðið áður en ég átti að fara aftur í skólann. Þær stundir eru ógleymanlegar og kenndu mér hvernig lífið á að vera. Þú hugsaðir svo vel um alla í kringum þig og vildir allt fyrir alla gera. Þú og afi voruð alltaf svo góð hvort við annað, báruð svo mikla virðingu hvort fyrir öðru og elskuðuð hvort annað. Þið voruð líka bæði svo dugleg að sýna mér hvað þið elskuðuð mig, takk fyrir það elsku amma. Ég hugga mig við að nú ertu komin aftur til afa. Þú varst alltaf svo blíð og góð. Væntumþykja þín í garð annarra var ómetanleg og ekki annað hægt en að virða konu eins og þig. Þú ólst ekki aðeins upp þín eigin börn heldur einnig barnabörn. Þú settir aðra alltaf í fyrsta sæti og fjölskyldan var það sem skipti þig mestu máli. Við erum öll betri manneskjur vegna þín.

Ég sakna þín óendanlega mikið elsku amma, en ég veit að þú ert nú á góðum stað. Þú hefur átt stóran þátt í að gera líf mitt ánægjulegt og þegar ég minnist þín þá muntu halda áfram að gera það. Ég vona að þér líði vel þar sem þú ert núna. Ég mun alltaf hugsa um yndislegustu ömmu sem til er í heiminum.

Ég elska þig.

Helga Rúna Péturs.