Án truflunar Hægt er að sjá <strong> Litlu ungfrú Sólskin</strong> án hlés.
Án truflunar Hægt er að sjá Litlu ungfrú Sólskin án hlés.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég skellti mér í Regnbogann sl. laugardag á hina stórskemmtilegu kvikmynd Litlu ungfrú Sólskin ( Little Miss Sunshine ).

Ég skellti mér í Regnbogann sl. laugardag á hina stórskemmtilegu kvikmynd Litlu ungfrú Sólskin ( Little Miss Sunshine ). Þann sama dag var myndin óvænt valin sú besta á síðasta ári af Samtökum bandarískra sjónvarps- og kvikmyndaframleiðenda og í gær var svo tilkynnt að hún væri meðal þeirra fimm mynda sem til greina koma þegar val bandarísku kvikmyndaakademíunnar á bestu mynd síðasta árs verður tilkynnt á Óskarsverðlaunaafhendingunni í febrúar.

Það yrði saga til næsta bæjar ef Litla ungfrú Sólskin myndi hreppa það eftirsótta hnoss. Myndin er ekki þessi týpíska stórmynd sem þar koma jafnan til greina og var frekar ódýr í framleiðslu á Hollywood-mælikvarða. En leikstjórar myndarinnar hittu svo sannarlega naglann á höfuðið þegar þeir í nýlegu viðtali hér í blaðinu lýstu sköpunarverki sínu sem bráðfyndnu en um leið með þunga og tilfinningar.

En það var ekki bara myndin sjálf sem var fagnaðarefni þetta laugardagskvöld heldur einnig sú staðreynd að ekkert hlé var gert í henni miðri; myndin var ekki stöðvuð í miðjum klíðum til að gefa kvikmyndagestum tækifæri á að létta á pyngjum sínum í sjoppu kvikmyndahússins. Fyrir vikið þurftu áhorfendur ekki að koma sér aftur í réttu stemninguna að hléi loknu heldur var upplifunin samfelld frá upphafi til enda.

Myndir eru auðvitað hugsaðar sem samfellt listaverk, skemmtun eða afþreying, eftir því hvað lagt er af stað með. Það er ekki gert ráð fyrir hléi og ólíkt því sem mætti heimfæra upp á t.d. leikhús eða dans er engin þörf á hléi listamannanna vegna. Eftir því sem ég kemst næst er líka hvergi í heiminum annars staðar en á Íslandi hlé gert á myndum. Heimsóknir mínar í kvikmyndahús erlendis virðast alla vega benda til þess að sá siður sé alíslenskur. En þetta er ósiður og var laugardagskvöldið enn frekari staðfesting á því fyrir mér. Myndin var smátíma að komast í gang en náði svo skemmtilegu flugi þegar líða tók á. Það hefði verið synd að stöðva sýningu í miðju flugtaki.

Það er dreifingarfyrirtækið Græna ljósið sem hefur séð til þess að hægt er að njóta Litlu ungfrú Sólskins án hlés á Íslandi. Græna ljósið er dreifingarfyrirtæki sem hefur náð samkomulagi við hérlend kvikmyndahús um svokallaðar gullnar reglur Græna ljóssins. Þeirra á meðal er sú regla að engin hlé séu gerð á sýningum þeirra mynda sem Græna ljósið dreifir. Hinar reglurnar eru svo efni í annan pistil: magn auglýsinga í upphafi myndar er minnkað og miðasölu lýkur um leið og sýning hefst, til að koma í veg fyrir truflun.

En af hverju í ósköpunum eru gullnu reglurnar ekki reglan heldur undantekningin í íslenskum kvikmyndahúsum?

Flóki Guðmundsson (floki@mbl.is)