Fögnuður Markús Máni Michaelsson kom sterkur inn í leik liðsins gegn Frökkum.
Fögnuður Markús Máni Michaelsson kom sterkur inn í leik liðsins gegn Frökkum. — Ljósmynd/Günter Schröder
"ÓSKUM um miða á leiki Íslands rignir yfir mig, ætli símtölin vegna þessa séu ekki að verða um hundrað í dag og er hann ekki nema hálfnaður," sagði Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ, í samtali við Morgunblaðið í gær.

Eftir Ívar Benediktsson í Dortmund

iben@mbl.is

Áhuginn á íslenska landsliðinu í handknattleik jókst til muna eftir sigur þess á Frökkum í fyrrakvöld og þegar ljóst varð að það væri á leið í milliriðlakeppnina. Í Magdeburg var skotið á að rúmlega 400 Íslendingar hefðu verið á hverjum þriggja leikja liðsins. Flestir þeirra höfðu keypt miða sína í gegnum HSÍ. Nú er stærstur hluti þessa hóps farinn heim til Íslands en í gær og dag eru hópar á leiðinni til Þýskalands til þess að fylgjast með leikjum Íslands í Dortmund og Halle Westfalen. Um helgina mun straumurinn þyngjast enn og er reiknað með að ekki verði færri á leikjunum á laugardag og sunnudag. Þá eru ótaldir hópar sem hafa þegar orðið sér úti um miða í næstu viku á leiki í Köln. Algjörlega er uppselt á úrslitahelgina í Köln, um aðra helgi.

"Það er enn hægt að fá aðgöngumiða á fyrstu þrjá leiki okkar, en það er alveg uppselt á viðureignina við Þjóðverja í Westfalen íþróttahöllinni í Dortmund á sunnudag," sagði Einar í gær á milli þess sem hann svaraði miðaóskum frá Íslandi eftir bestu getu. "Það er alveg ljóst að ekki verður hægt að verða við öllum óskunum, en við vonumst til að hægt verði að leysa úr málum eins margra og kostur er."

Einar sagði að HSÍ ætti ekki forgang að einhverjum hluta aðgöngumiða á leikina í milliriðlunum en hann væri vonsvikinn yfir að þýska handknattleikssambandið gæti ekki útvegað því íslenska miða á leik þjóðanna á sunnudag. "Við erum að vinna í málinu og ég vonast til að einhver lausn fáist og við getum þar með útvegað einhverjum Íslendingum miða á viðureign Íslands og Þýskalands á sunnudagkvöldið í Dortmund."

Vitað er að margir Íslendingar sem koma út um næstu helgi eiga miða á leik í Halle á sunnudag. Þeir höfðu tekið áhættu með að panta miða á þann leik vegna þess að þeir töldu að Ísland myndi hafna í öðru sæti í sínum riðli og Þjóðverjar í sínum. Þar með hefði Íslendingar mætt Pólverjum í Halle á sunnudag. En þar sem Pólverjar unnu sinn riðil og Þjóðverjar urðu í öðru sæti, auk þess sem íslenska landsliðið vann óvænt sinn riðil, þá varð uppröðun leikjanna önnur en margir höfðu talið fyrirfram. Því sitja margir Íslendingar uppi með miða á leik sem þeir eru máske ekkert spenntir fyrir í Halle á sunnudag en fá í staðinn ekki miða á lokaleik milliriðilsins, þegar Þjóðverjar og Íslendingar leiða saman hesta sína í Westfalen-íþróttahöllinni í Dortmund á sunnudag. Ljóst er að sigur íslenska landsliðsins hefur raskað dagskrá hundraða Íslendinga sem eiga bókaða miða á leiki næstu helgar.