Hvalkjötsbirgðir Frode Pleym, talsmaður Grænfriðunga, kynnti tölur um hvalkjötsbirgðir Japana á sl. árum.
Hvalkjötsbirgðir Frode Pleym, talsmaður Grænfriðunga, kynnti tölur um hvalkjötsbirgðir Japana á sl. árum. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Grænfriðungar telja engar líkur til þess að hægt verði að selja íslenskt hvalkjöt á Japansmarkaði. Benda þeir á að Japanar eigi sjálfir hvalkjötsbirgðir sem nemi tæpum 5 þúsund tonnum.

Eftir Silju Björk Huldudóttur

silja@mbl.is

BIRGÐIR af hvalkjöti hafa safnast upp í Japan á sl. árum og því lítil sem engin von fyrir Íslendinga að koma afurðum sínum á markað þar í landi. Sjálfir hafa Japanar gripið til þess ráðs að selja hvalkjöt ódýrt annars vegar í skólamáltíðir í mötuneytum og hins vegar í hundamat til þess að vinna á hvalkjötsfjallinu.

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem Grænfriðungar (Greenpeace) efndu til í Reykjavík í gær.

Telur fjárhagslegan ávinning af hvalveiðum engan

Á fundinum kynnti Frode Pleym, talsmaður Grænfriðunga, opinberar tölur frá japanska sjávarútvegsráðuneytinu sem sýna að frá árslokum 2002 til nóvember 2006 hafa hvalbirgðir þar í landi aukist um ríflega 2.240 tonn. Eins og sést á meðfylgjandi grafi minnkuðu birgðir á milli áranna 2002 og 2003, sem að sögn Pleym, stafar af því að þá dróst veiði saman. Síðan 2003 hafa birgðirnar hins vegar aukist til muna, þrátt fyrir að japönsk yfirvöld hafi árið 2004 gripið til þess ráðs að selja hvalkjötið ódýrt í skólamáltíðir og hundamat. Benti hann á að Norðmenn hefðu sjálfir árangurslaust reynt að selja hvalkjöt til Japans síðan árið 2001.

"Að okkar mati ættu fjárhagslegu rökin að vega þyngst hjá íslenskum yfirvöldum. Það er ljóst að fjárhagslegur ávinningur af því að veiða hvalkjöt er lítill sem enginn í samanburði við þann fórnarkostnað sem íslensk fyrirtæki verða fyrir," sagði Frode Pleym og minnti á að íslensk stórfyrirtæki á borð við Baug Group og Icelandair hefðu mótmælt hvalveiðum.

"Ekki af því að stjórnendur fyrirtækjanna eru í sjálfu sér á móti hvalveiðum heldur vegna þess efnahagslegs skaða sem fyrirtækin verða fyrir vegna andstöðu umheimsins við hvalveiðar," sagði Pleym og tók fram að það fælist engin skömm í því fyrir íslensk stjórnvöld að breyta um stefnu og hverfa frá hvalveiðum.

"Það myndu ekki allir aðeins hafa skilning á því ef íslensk stjórnvöld veldu að hætta hvalveiðum, heldu fagna breyttri stefnu. En því lengur sem beðið er þeim mun meiri verða neikvæðar afleiðingar veiða," sagði Pleym og minnti á að enn hefðu ekki verið gefnar út hvalveiðikvótar hérlendis fyrir árið 2007. Aðspurður sagðist Pleym sannfærður um að þrýstingurinn frá umheiminum gegn hvalveiðum ætti bara eftir að aukast. Nefndi hann í því sambandi herferð breska umhverfisráðuneytisins sem nýtur fulltingis Tonys Blairs forsætisráðherra og hins heimsfræga sjónvarpsmanns og náttúruunnanda Davids Attenboroughs.

Í hnotskurn
» Íslendingar hófu hvalveiðar í vísindaskyni árið 2003.
» Haustið 2006 veittu íslensk stjórnvöld heimild fyrir hvalveiðum í atvinnuskyni eftir 20 ára hlé.
» Margir hafa orðið til að mótmæla atvinnuhvalveiðum, þ.á.m. talsmenn ferðaþjónustunnar hérlendis sem og forsvarsmenn stórfyrirtækja á borð við Baug Group og Icelandair.
» Talsmaður Grænfriðunga segir þrýsting gegn veiðunum eiga eftir að aukast.