Jack McConnell
Jack McConnell
BRESKA lögreglan hefur yfirheyrt oddvita heimastjórnarinnar í Skotlandi, Jack McConnell, í tengslum við rannsókn lögreglunnar á meintri fjármálaspillingu innan flokks Tonys Blairs, forsætisráðherra Bretlands.

BRESKA lögreglan hefur yfirheyrt oddvita heimastjórnarinnar í Skotlandi, Jack McConnell, í tengslum við rannsókn lögreglunnar á meintri fjármálaspillingu innan flokks Tonys Blairs, forsætisráðherra Bretlands. McConnell mun hafa verið yfirheyrður í um fimmtán mínútur 15. desember sl. og hafði stöðu vitnis, að því er heimildarmenn AFP -fréttastofunnar fullyrtu.

Verkamannaflokkurinn hefur verið sakaður um að láta aðalstignir í staðinn fyrir fé í kosningasjóði flokksins. Hófst rannsókn lögreglunnar eftir að í ljós kom að flokkurinn hafði þegið háar "lánagreiðslur" frá fjársterkum aðilum fyrir þingkosningarnar 2005 og að mörgum þessara aðila hefði verið veitt aðalstign.

Rannsóknin hefur síðan tengt anga sína um breska stjórnkerfið og allir helstu flokkarnir flækst í málið með einum eða öðrum hætti. Alls hefur breska lögreglan yfirheyrt um 90 manns í tengslum við málið sem vindur sífellt upp á sig.

Fyrir helgi var Ruth Turner, mikilvægur tengiliður bresku stjórnarinnar við Verkamannaflokkinn, handtekin. Hún var síðar látin laus gegn tryggingu en mun þurfa að mæta aftur til yfirheyrslna.

Jack McConnell mun hafa verið spurður út í hvernig það kom til að hann tilnefndi Colin Boyd, fyrrverandi lögreglustjóra í Skotlandi, í lávarðadeildina árið 2004.