Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.is NOKKUÐ hefur verið um það í vetur að kalla hefur þurft á lögreglu vegna deilna um tölvunotkun.

Eftir Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

NOKKUÐ hefur verið um það í vetur að kalla hefur þurft á lögreglu vegna deilna um tölvunotkun. Síðast gerðist þetta í fyrradag þegar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðaði fjölskyldu sem var komin í hár saman vegna þess að unglingarnir á heimilinu, tveir bræður, brugðust illa við þegar átti að takmarka tölvunotkunina.

Unglingum sem hafa lengi, hugsanlega í nokkur ár, haft nánast óheftan aðgang að tölvu og netsambandi gengur oft illa að sætta sig við þegar foreldrarnir taka allt í einu upp á því að takmarka notkunina. Yfirleitt eru afleiðingarnar einskorðaðar við rifrildi eða heiftarlegt fýlukast en stundum kemur fyrir að unglingurinn missir gjörsamlega stjórn á sér.

"Nú er komið nóg"

Haukur Haraldsson sálfræðingur segir að í tilfellum sem þessum sé líklegt að vandamálið eigi sér langan aðdraganda. Hann segir afar mikilvægt að setja skýrar reglur allt frá fyrstu tíð og það verði að vera ótvírætt að foreldrarnir ráði því hversu miklum tíma börnin eyði við tölvuna og hvað þau geri meðan á því stendur. Þegar börn hafi náð unglingsaldri og hafi vanist því að eyða miklum tíma í tölvunni og séu hugsanlega komin á kaf í netleiki, s.s. World of Warcraft eða Eve Online, sé erfitt að grípa inn í. "Svo þegar foreldrarnir fá upp í kok, eins og gerist og gengur í uppeldi, þá grípa þeir til þess óyndisúrræðis að slökkva á netsambandinu og segja: "Nú er komið nóg." Og þá reiðist sá sem er í tölvunni því honum finnst ekkert vit í þessu," segir Haukur. Þetta sé að vissu leyti skiljanleg afstaða því að gera megi ráð fyrir að viðkomandi sé orðinn góður leikmaður og jafnvel í liði sem treysti á hann.

Hið sama á við um netnotkun og tölvuleiki en að mati Hauks er það beinlínis skylda foreldra að vita hvað börnin aðhafast á Netinu, rétt eins og þeir telji það jafnan skyldu sína að vita hverjir eru leikfélagar barnanna og hvað þau geri í skóla og frítíma.

Ef vandamál tengd tölvunotkun fara úr böndunum geti foreldrar leitað sér hjálpar, m.a. hjá Heimili og skóla eða hjá sálfræðingum.