— Morgunblaðið/Árni Torfason
TOLLVERÐIR fundu á föstudag um eða yfir 13.000 steratöflur í vörusendingu sem hafði verið skipað í land í Reykjavík. Viðtakandi sendingarinnar var verslunarmaður á Suðurnesjum og voru efnin flutt inn í nafni hans.

TOLLVERÐIR fundu á föstudag um eða yfir 13.000 steratöflur í vörusendingu sem hafði verið skipað í land í Reykjavík. Viðtakandi sendingarinnar var verslunarmaður á Suðurnesjum og voru efnin flutt inn í nafni hans.

Að sögn Harðar Davíðs Harðarsonar, aðaldeildarstjóra hjá Tollstjóranum í Reykjavík, fundust töflurnar við hefðbundið eftirlit og voru þær faldar á vörubretti með vörum sem fyrirtækið var að flytja inn. Búið er að frumgreina efnainnihald taflnanna og bendir það til þess að eingöngu sé um stera að ræða.

Þar sem fyrirtækið er á Suðurnesjum var rannsókn málsins falin lögreglunni á Suðurnesjum. Að sögn Eyjólfs Kristjánssonar, fulltrúa lögreglustjórans, var hinn grunaði handtekinn á mánudag og viðurkenndi við yfirheyrslur að eiga töflurnar og hafa flutt þær inn. Steratöflurnar munu vera upprunnar í Taílandi.

Magnið er mikið en það er þó ekki einsdæmi að lagt sé hald á svo mikið magn af sterum og sem dæmi má nefna að í mars í fyrra lagði tollstjórinn hald á mikið magn af sterum á líkamsræktarstöð í borginni. Í janúar sl. komu tollverðir á Seyðisfirði upp um tilraun til að smygla um 200 hylkjum af vaxtarhormón og um 40 hylkjum af sterum til landsins en efnin voru falin í bifreið.

Þeim sem nota ólöglega stera eða hugsa sér að gera það má m.a. benda á að nýlega sýndu vísindamenn við Yale-háskóla fram á að þeir sem nota stera til að byggja upp vöðvamassa eiga á hættu að heilafrumur eyðist í stórum stíl.

Í hnotskurn
» Tollverðir í Reykjavík fundu 13.000 steratöflur í vörusendingu sem átti að fara til verslunar á Suðurnesjum.
» Verslunarmaðurinn hefur játað að hafa flutt töflurnar inn.
» Telur lögregla að hann hafi ætlað að selja þær enda bendir magnið tæpast til þess að hann hafi ætlað að innbyrða þær allar sjálfur.