Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson og Sunnu Ósk Logadóttur KYNFERÐISBROTADEILD lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið til rannsóknar háttsemi Ágústs Magnússonar, dæmds kynferðisbrotamanns, sem dagskrárgerðarmenn við fréttaskýringaþáttinn Kompás...

Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson og

Sunnu Ósk Logadóttur

KYNFERÐISBROTADEILD lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið til rannsóknar háttsemi Ágústs Magnússonar, dæmds kynferðisbrotamanns, sem dagskrárgerðarmenn við fréttaskýringaþáttinn Kompás leiddu í gildru í síðasta þætti sínum.

Ágúst var dæmdur í fimm ára fangelsi í mars 2004 fyrir kynferðisbrot gegn sex drengjum. Hann var að afplána síðasta hluta dómsins utan veggja fangelsisins á Vernd þegar hann beit á agn Kompáss. Jóhannes Kristjánsson, ritstjóri Kompáss, var væntanlegur í lögregluyfirheyrslu með réttarstöðu vitnis í gær. Ágúst á að líkindum að yfirheyra í dag að sögn lögreglu. Einn hluti sakarefnisins varðar játningar Ágústs í Kompásþættinum um það að hafa beitt fleiri börn kynferðisofbeldi en hann var dæmdur fyrir á sínum tíma, en að auki mun lögreglan afla gagna í málinu í heild, þ.e. um meintan ásetning hans að setja sig í samband við 13 ára barn, og þarf lögreglan að komast að því hvort um refsiverðan verknað hafi verið að ræða.

Ágúst er kominn í afplánun á Litla-Hrauni en ástæður þess að hann afplánaði á áfangaheimilinu Vernd voru lög og vinnureglur Fangelsismálastofnunar sem gera föngum kleift að ljúka þar afplánun, hafi þeir uppfyllt kröfur um góða hegðun.

Fram hefur komið að ríkissaksóknari hafi heimild til að krefjast þess að öryggisráðstöfunum verði beitt gegn Ágústi eftir að afplánun lýkur, jafnvel þótt kröfu um slíkt hafi verið hafnað við uppkvaðningu dóms. Bogi Nilsson ríkissaksóknari segir ekki tímabært að fjalla um þessar heimildir og bendir á að málið sé til rannsóknar hjá LRH.

Fram hefur komið að lögreglan hafi ekki heimild til að fylgjast sérstaklega með föngum á Vernd eða þekktum brotamönnum sem lokið hafa afplánun.

Tældi börn á skipulegan hátt

Brot Ágústs voru framin á árunum 1999–2003 og var talið sannað að hann hefði tælt drengina með blekkingum á yfirvegaðan og skipulegan hátt en um var að ræða börn sem stóðu illa að vígi félagslega og áttu við persónulega erfiðleika að stríða.

Stjórn Fangahjálparinnar Verndar mun ræða strax við Fangelsismálastofnun ríkisins um hvort þörf sé á að styrkja úrræðið og þá hvernig megi girða fyrir að menn sem eru að ljúka afplánun á áfangaheimilinu gerist brotlegir við landslög meðan þeir dvelja þar. Telur stjórnin mjög mikilvægt að fara ítarlega yfir alla helstu þætti málsins. Var ályktun þess efnis samþykkt á fundi stjórnar Verndar í gærkvöldi. Þjónustusamningur milli Verndar og Fangelsismálastofnunar er nú í endurskoðun og verður skoðaður sérstaklega í ljósi umrædds máls. Jafnframt verða allar reglur um inntöku og skilyrði manna til vistunar á áfangaheimilinu endurskoðaðar ef ástæða þykir til.