Fjölskylduskemmtun Gagnrýnandi segir <strong> Nótt á safninu</strong> standa undir væntingum sem fjölskylduskemmtun.
Fjölskylduskemmtun Gagnrýnandi segir Nótt á safninu standa undir væntingum sem fjölskylduskemmtun.
Leikstjóri: Shawn Levy. Aðalleikendur: Ben Stiller, Carla Gugino, Dick Van Dyke, Mickey Rooney, Robin Williams, Owen Wilson. 108 mín. Bandaríkin 2006.

Í KVIKMYNDAHEIMINUM eru hátíðirnar m.a. tími íburðarmikilla afþreyingarmynda sem er ætlað að hreppa stóra jólagjöf frá bíógestum. Í ár er það Nótt á safninu Night at the Museum , sem hefur tekist ætlunarverkið og slegið í gegn um alla heimsbyggðina. Ef maður vill vera raunsær stendur hún mikið til undir væntingum sem fjölskylduskemmtun, léttmeti sem er gleymt og grafið um leið og því er lokið.

Stiller leikur hrakfallabálkinn Larry, honum helst illa á vinnu, er skilinn og á ungan son en á, sökum blankheita, í mesta basli með að rækja skyldur sínar við hann. Larry grípur því tækifærið þegar honum býðst staða næturvarðar á Náttúrugripasafninu, fokið er í flest skjól og fátt annað að hafa. Starfið lítur út fyrir að vera auðvelt og einfalt en annað kemur á daginn þegar dyrunum er lokað á kvöldin. Þá vakna fjölskrúðugir safngripirnir til lífsins.

Ramminn utan um atburðarásina er hentugur fyrir brellumeistarana og þeir eiga fínan dag í Nótt á safninu . Við sögu koma frægar persónur á borð við Teddy Roosevelt Bandaríkjaforseta (Williams), Atla Húnakonung, landkönnuðina Lewis og Cark og fíla, ljón og risaeðlur, svo eitthvað sé nefnt.

Sagan af vandræðum Larrys er ekki áhugaverð en Stiller er flinkur að fást við slík hlutverk og samband hans við soninn er vemmilegt, en slíkar tilfinningar virðast tilheyra jölapökkunum frá Hollywood. Sama gildir um boðskapinn.

Slatti fáséðra gamalkunnra gamanleikara kemur við sögu og lífgar upp á atburðarásina. Leikmunirnir eru augnayndi og tónlist Silvestri skeytir hlutina saman. Útkoman er fyrst og síðast frambærileg fjölskylduskemmtun, allt of löng að vísu, en tekst það sem ætlast er til af henni.

Sæbjörn Valdimarsson