Ólafur Börkur Þorvaldsson
Ólafur Börkur Þorvaldsson
ÓLAFUR Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari skilaði sératkvæði í málinu og taldi að hafna bæri öllum kröfum varnaraðila. Ekkert lægi fyrir um að ríkislögreglustjóri væri vanhæfur í málinu.

ÓLAFUR Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari skilaði sératkvæði í málinu og taldi að hafna bæri öllum kröfum varnaraðila. Ekkert lægi fyrir um að ríkislögreglustjóri væri vanhæfur í málinu. Telja yrði að samskipti ríkislögreglustjóra við fjölmiðla þar sem greint var frá stöðu mála hefðu verið eðlilegur hluti starfs hans. Ólafur Börkur segir í rökstuðningi sínum að við athugun ummæla ríkislögreglustjóra í ljósvakamiðlum verði ekki hjá því komist að líta til þess frá hvaða sjónarhorni hann horfi á málið og verði þau ekki skýrð öðruvísi en samkvæmt orðanna hljóðan. "Í kvöldfréttum Stöðvar 2 sagði hann að það væri "hægt með rökum að halda því fram" að embætti hans væri orðið "of involverað í þetta mál til þess að geta litið hlutlaust á þær ákvarðanir sem þarf að taka í framhaldinu". Þar er hins vegar í engu getið hvort ríkislögreglustjóri telji sjálfur rétt að fallast á þau rök," segir í rökstuðningi Ólafs Barkar.

Þá segir m.a.: "Í hvorugu sjónvarpsviðtalinu er ríkislögreglustjóri í raun sjálfur að lýsa afstöðu sinni til málsins heldur eru þar leiddar líkur að því hvernig það horfi við almenningi og sakborningum ef sóknaraðili héldi áfram meðferð þess í kjölfar áðurnefnds dóms Hæstaréttar. Af þessum sökum geta þau ekki verið til marks um að hann hafi vantreyst sjálfum sér eða embætti sínu til að líta óhlutdrægt á málið, auk þess sem samkvæmt framangreindum dómum getur rangt mat hans í þessum efnum ekki ráðið úrslitum um hæfi hans."

Liggi því ekkert fyrir um að ríkislögreglustjóri sé vanhæfur og þegar af þeirri ástæðu sé ekki fallist á að undirmenn hans teljist vanhæfir vegna títtnefndra ummæla hans.