Eftir Sunnu Ósk Logadóttur sunna@mbl.is KÓPAVOGSBÆR mun greiða eiganda jarðarinnar Vatnsenda 2,25 milljarða króna fyrir 1. febrúar nk. fyrir samtals 863 hektara lands sem bærinn tekur eignarnámi.

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur

sunna@mbl.is

KÓPAVOGSBÆR mun greiða eiganda jarðarinnar Vatnsenda 2,25 milljarða króna fyrir 1. febrúar nk. fyrir samtals 863 hektara lands sem bærinn tekur eignarnámi. Sátt hefur náðst í málinu en viðræður hafa staðið milli aðila í tæpt ár. Samkvæmt henni mun landeigandinn, Þorsteinn Hjaltested, ekki greiða gatnagerðargjöld eða önnur tengd gjöld til bæjarins vegna lóða sem skipulagðar eru á landi hans og lóða sem hann fær á landi Kópavogsbæjar og mun því heildarkostnaður bæjarins vegna kaupanna nema um 3,2–3,5 milljörðum króna. Um tvö þúsund íbúðir geta risið á svæðinu.

Tillögur varðandi málið voru samþykktar á fundi bæjarstjórnar Kópavogs í gærkvöldi. Samfylking greiddi atkvæði gegn tillögunum.

Samkvæmt sáttinni er samkomulag um að undanskilja eignarnámi Elliðavatn ásamt kraga í kringum vatnið, tæplega 72 hektara. Á hluta þess svæðis verða skipulagðar minnst 300 lóðir undir sérbýli. Landeigandinn leggur Kópavogsbæ til land undir götur, veitur og opin svæði sem bærinn tekur á móti að sér að fullklára og viðhalda, landeiganda að kostnaðarlausu.

Einnig fær landeigandi 11% af öllum íbúðum og atvinnuhúsnæði sem úthlutað verður á hinu eignarnumda landi og mun ekki greiða gjöld þeim tengd til bæjarins.

Í hnotskurn
» Vegna kvaða sem hvíldu á jörðinni var ekki hægt að selja landið að hluta eða í heild og því varð Kópavogsbær að taka það eignarnámi.
» Samkomulagið fer nú til umfjöllunar hjá matsnefnd eignarnámsbóta.
» Gunnar Birgisson bæjarstjóri telur samninginn tryggja fjárhagslega afkomu bæjarsjóðs.