Viskubrunnur Landsaðgangurinn hvar.is veitir öllum þeim sem tengjast í gegnum tölvu með íslenska netveitu ókeypis aðgang að 14 þúsund tímaritum með fullum texta.
Viskubrunnur Landsaðgangurinn hvar.is veitir öllum þeim sem tengjast í gegnum tölvu með íslenska netveitu ókeypis aðgang að 14 þúsund tímaritum með fullum texta. — Morgunblaðið/Eyþór
Eftir Þuríði Magnúsínu Björnsdóttur thuridur@mbl.is Hvort sem þú ert í skóla lífsins eða formlegu námi er vert að minna á landsaðgang þinn að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum á vefnum hvar.is.

Eftir Þuríði Magnúsínu Björnsdóttur

thuridur@mbl.is

Hvort sem þú ert í skóla lífsins eða formlegu námi er vert að minna á landsaðgang þinn að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum á vefnum hvar.is. "Þetta er helst nýtt af háskólafólki eða þeim sem eru í rannsóknum, því þarna er mikið um vísindalegar upplýsingar en líka gögn fyrir hvern sem er. Aðgangurinn nýtist fyrir öll skólastig þar sem nemendur eru farnir að lesa ensku og reyndar líka mikið af íslensku efni," segir Sveinn Ólafsson, umsjónarmaður landsaðgangsins.

Um áramótin bættist við aðgangur að tímaritasöfnum og gagnasöfnum frá Sage og Ebsco Host sem eru öll á sviðum vísinda, fræða og lista. "Í Ebsco Host og ProQuest 5000 er efni af öllu tagi og á að þjóna öllu fróðleiksfúsu fólki. Til dæmis er þar mikið efni fyrir fólk í viðskiptanámi og efni úr almennum fréttablöðum. Fólk á landinu sem tengist í gegnum tölvu með íslenska netveitu hefur nú aðgang að 14 þúsund tímaritum með fullum texta. Með þessum viðbótum værum við búin að fylla tvær Þjóðarbókhlöður ef við ættum að vera með þetta allt á prenti. Auðvitað er skemmtilegt að fletta blöðum en hvað gerir þú ef ég rétti þér tvær Þjóðarbókhlöður í fangið? Styrkurinn liggur í því hve fljótlegt er að finna efnið. Tímasparnaður er helsti kosturinn fyrir vísindafólkið, bæði fyrir háskólanema en sérstaklega sérfræðingana sem þurfa að finna greinarnar fljótt og örugglega. Fólk telur sig spara um hálftíma á hverja grein. Rafræni aðgangurinn sparar margar smáferðir, við erum sem sagt umhverfisvæn."

Sveinn segir þó vitað að margir nemendur noti enn nær eingöngu leitarsíðuna google.com en segir hana gefa takmarkaðar niðurstöður úr umræddum gagnasöfnum, þó hafi t.d. scholar.google.com unnið á. "Sá sem "googlar" veit ekki af því sem hann finnur ekki, margt er ósýnilegt." Hann nefnir líka að allir notendur landsaðgangsins geti skráð sig í Web of Science og fengið aðgang að ókeypis heimildaskráningarforritinu EndNote Web. "Við reynum að ná til þeirra sem eru að byrja að leita, t.d. framhaldsskólanema, og þá leggjum við sérstaka áherslu á áskriftaraðgang okkar að Britannicu en margir gera þau mistök að fara beint á Britannica.com sem er mun takmarkaðri aðgangur en á hvar.is. Myndræn leit í gagnasöfnum Ebsco Host er eftirtektarverður valkostur en þar er m.a. Business Source Premier, umfangsmikið gagnasafn um stjórnun, viðskipti og rekstur. Það er forvitnilegt að slá inn "Iceland" á ProQuest eða Ebsco til að sjá hvað er skrifað um landið í heimspressunni, t.a.m. er New York Times komið inn samdægurs. Auk þess eru þarna merkileg gagnasöfn á sviði sjónlista og tónlistar, Grove Art og Grove Music."

Alþýðublaðið, Þjóðviljinn, Tíminn og Dagur á vef

Landsbókasafn hefur verið að skanna inn eldri íslensk tímarit undir nafninu Tímarit.is og þar er t.d. leitarhæft Morgunblaðið frá 20. öld. Að sögn Sveins stendur til að mynda Alþýðublaðið, Þjóðviljann, Tímann og Dag á Akureyri og verða þau aðgengileg á vef á sama hátt.

Ríkið leggur fram tæpan þriðjung kostnaðar vegna landsaðgangsins og bókasöfnin í landinu auk örfárra fyrirtækja afganginn. Áskriftirnar kosta yfir 100 milljónir á þessu ári en auk þess er vísað á ýmis gagnasöfn í opnum aðgangi á hvar.is. Í fyrra voru gestir þar tæplega 80 þúsund. Aðgangurinn er kynntur með bæklingum í bókasöfnum, heimsóknum í skóla og aðrar stofnanir. Frekari upplýsingar, leiðbeiningar og kynningar um gagnasöfnin eru að auki á hvar.is.