Reyndist vel Nýi troðarinn í Hlíðarfjalli kom í góðar þarfir um helgina þegar maður slasaðist í snjóflóði. Hann var sóttur á slysstað á troðaranum.
Reyndist vel Nýi troðarinn í Hlíðarfjalli kom í góðar þarfir um helgina þegar maður slasaðist í snjóflóði. Hann var sóttur á slysstað á troðaranum. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
VETRARÍÞRÓTTAMIÐSTÖÐ Íslands á Akureyri hefur fest kaup á tveimur snjótroðurum, frá fyrirtækinu Kässbohrer AG, til notkunar á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli. Fyrri troðarinn, sem er af gerðinni PistenBully 300 Kandahar, var afhentur föstudaginn 19.

VETRARÍÞRÓTTAMIÐSTÖÐ Íslands á Akureyri hefur fest kaup á tveimur snjótroðurum, frá fyrirtækinu Kässbohrer AG, til notkunar á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli. Fyrri troðarinn, sem er af gerðinni PistenBully 300 Kandahar, var afhentur föstudaginn 19. janúar en hinn, PistenBully 300 ParkBully, verður afhentur næsta haust.

Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður svæðisins, segir að með aukinni aðsókn sé þörf á að troða fleiri brekkur og oftar á sem skemmstum tíma og kalli það á aukinn tækjakost.

Mikil breyting

"Það má segja að troðarinn komi til með að leysa fjóra þætti hjá okkur; við getum troðið fleiri leiðir en áður, við getum troðið sama magn og áður á styttri tíma, við getum ýtt út þeim snjó sem við erum að framleiða á styttri tíma en áður og síðast en ekki síst mun hann nýtast vel í sambandi við göngubrautina. Þessi snjótroðari er með áföstum gönguspora og því verður vinnan við göngubrautina mun auðveldari en áður og á að taka skemmri tíma," segir Guðmundur.

Guðmundur segir að snjótroðari sé eins og "maðurinn á bak við tjöldin" sem Spaugstofumenn hafa gert ódauðlegan í íslensku samfélagi. "Fólk tekur ekki alltaf eftir þeirri miklu vinnu sem troðararnir eru notaðir í á svæðinu því sú vinna fer mikið til fram áður en það mætir á svæðið, það er á nóttunni og snemma á morgnana. Það tekur drjúgan tíma að troða einhvern ákveðinn flöt. Við getum sagt að meðal snjótroðari keyri á um 6 til 10 km hraða á klukkustund þegar hann er að troða og fyrir hvern dag sem opið er vinnur troðari því í um 4 til 8 klukkustundir, það fer eftir snjóalögum."

Góð aðsókn í vetur

"Veturinn hefur gengið mjög vel þrátt fyrir sveiflukennt veður, svo ekki sé meira sagt. Aðsókn hefur verið alveg gríðarlega góð, vetrarkortasalan verið mikil og ég veit að ferðaþjónustuaðilar á svæðinu eru ánægðir," segir Guðmundur.

Hann segir að vert sé að hafa í huga að frá árinu 1980 og til dagsins í dag þá séu flestir skíðadagar í fjallinu eftir miðjan janúar og fram eftir vetri. "Við gátum opnað í nóvember og skíðafærið var mjög gott í nóvember og desember, allt þangað til hlákan kom um miðjan jólamánuðinn. Reynsla síðustu ára hefur samt verið sú að það hefur ekki komið neinn snjór að ráði fyrr en í lok janúar og byrjun febrúar svo við vorum langt á undan þeim áætlunum. Því er óhætt að segja að snjóframleiðslan hafi sannað sig enn og aftur, sérstaklega um og eftir þær miklu umhleypingar sem urðu rétt fyrir jól.

Guðmundur segir einnig að snjógirðingar sem settar voru upp hjá göngubrautinni í sumar hafi reynst mjög vel og því má segja að þær framkvæmdir sem unnið var að síðastliðið sumar hafi nú þegar sannað sig."

Í hnotskurn
» Einn nýr snjótroðari er kominn í Hlíðarfjall og annar kemur í haust.
» Með aukinni aðsókn er þörf á að troða fleiri brekkur og oftar á sem skemmstum tíma.
» F orstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli segir snjótroðara eins og manninn á bak við tjöldin!