Ritstjóri Guðný Jóhannesdóttir ritstýrir nú vikublaðinu Feyki á Sauðárkróki eftir nokkurra ára hlé frá blaðamennsku.
Ritstjóri Guðný Jóhannesdóttir ritstýrir nú vikublaðinu Feyki á Sauðárkróki eftir nokkurra ára hlé frá blaðamennsku.
Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is Skagafjörður | "Þetta hefur gengið vel.

Eftir Helga Bjarnason

helgi@mbl.is

Skagafjörður | "Þetta hefur gengið vel. Auðvitað er strembið að koma ný á staðinn og ætla að skrifa fréttir af hverju sem er," segir Guðný Jóhannesdóttir sem tók við sem ritstjóri vikublaðsins Feykis á Sauðárkróki um áramót. Hún hefur unnið að breytingum á blaðinu.

Nýprent ehf. tók við útgáfu Feykis um áramótin samkvæmt samningi við útgáfustjórn blaðsins. Hafði þá verið millibilsástand í rekstri þess sem Leiðbeiningamiðstöðin á Sauðárkróki leysti og annaðist Árni Gunnarsson ritstjórnina í hjáverkum.

Feykir var stækkaður úr átta síðum í tólf um áramótin og Guðný hefur aukið dægurmálaumfjöllun blaðsins. Hún skiptir blaðinu í tvennt. Fréttirnar halda sínum sess en í aftari hluta blaðsins er áhersla á mannlífið með viðtölum, uppskriftum, efni úr skólunum, frásögnum af uppákomum í héraði og fleiru af því taginu. "Ég er að reyna að gefa blaðinu meiri vídd og tengja það fleirum," segir Guðný.

Hún segir að þessar nýju áherslur hafi fengið góðar viðtökur og skilað blaðinu fjölda nýrra áskrifenda. "Héraðsfréttablað er lífsnauðsynlegt hverju samfélagi," segir hún og tekur fram að blaðið sé hugsað fyrir Skagafjörð og Húnavatnssýslur.

Fréttavefurinn skagafjordur.com er unninn á Feyki og með aðkomu Nýprents bætist við þriðji þátturinn, sjónvarpsdagskráin Sjónhornið sem borin er í öll hús. Guðný segir að samrekstur þessara miðla skapi tækifæri sem reynt verði að nýta.

Sveitastelpa úr Eyjafirði

Guðný hefur unnið sem blaðamaður á dagblöðum og tímaritum á undanförnum árum, meðal annars Degi og hjá tímaritum Fróða. Þá hefur hún ritstýrt tímariti á Akureyri. Síðustu árin hefur hún búið á Ísafirði og unnið óskyld störf. "Ég er sveitastelpa úr Eyjafirði," segir Guðný þegar hún er spurð hvort hún hafi ekkert þekkt til í Skagafirði þegar hún tók ritstjórastarfið að sér. Hún er frá Öngulsstöðum í Eyjafirði. Maður hennar, Karl Jónsson sem er kunnur körfuknattleiksmaður með Tindastóli og fleiri félögum, er frá Sauðárkróki og segir Guðný að það hjálpi sér að komast inn í málin.

"Við vorum farin að líta í kringum okkur vegna þess að okkur fannst við vera svolítið út úr á Ísafirði og langt frá fjölskyldum okkar, eins og það er nú gott að búa þar. Blaðamennskubakterían er í blóðinu og það eru ekki mörg tækifæri á því sviði fyrir fólk sem vill búa á landsbyggðinni," segir Guðný sem þáði starfið þegar henni var boðið það. "Mér fannst strax spennandi og skemmtilegt tækifæri að fá að taka við Feyki," segir Guðný og viðurkennir að erfitt sé að koma blaðinu út svona í byrjun, á saman tíma og hún sé að koma sér inn í málin. Hún segir að hlutirnir séu strax farnir að ganga betur og því geti hún horft fram á bjartari tíma.

Í hnotskurn
» Ritstjóri Feykis er eini fastráðni starfsmaður blaðsins. Auk þess að skrifa meginhluta efnis blaðsins og taka ljósmyndirnar þarf hún að vinna ýmis störf tengd útgáfunni, eins og fleiri einyrkjar í slíkum störfum.
» Eitt af verkefnum ritstjórans er að aðstoða við að dreifa blaðinu til áskrifenda. Á miðvikudögum, þegar blaðið kemur út, sest hún niður og vinnur ákveðið verk með aðstoð barnanna sinna. Þau brjóta blaðið saman og líma á það miða með nöfnum og heimilisföngum áskrifenda utan Sauðárkróks og svo fer hún með bunkann til póstsins sem annast dreifinguna.