Jörðin "Verkið er um jörðina, hvernig við búum á henni, hvernig við deilum henni og hvernig við eyðileggjum hana," segir Steve Lorenz.
Jörðin "Verkið er um jörðina, hvernig við búum á henni, hvernig við deilum henni og hvernig við eyðileggjum hana," segir Steve Lorenz.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ingveldi Geirsdóttur ingveldur@mbl.

Eftir Ingveldi Geirsdóttur

ingveldur@mbl.is

"VERKIÐ er um jörðina, hvernig við búum á henni, hvernig við deilum henni og hvernig við eyðileggjum hana hægt og bítandi vegna þess að við höfum ekki ennþá lært að búa saman í sátt og samlyndi," segir Steve Lorenz, danshöfundur og dansari, um nýtt dansverk sitt, Images , sem verður sýnt hjá Danssmiðju Íslenska dansflokksins í kvöld.

"Í gegnum mannkynssöguna höfum við alltaf trúað því sterklega að við séum þróaðasta og gáfaðasta tegund lífvera á jörðinni, en erum við í raun og veru svo klár? Sagan sannar að mennirnir hafa aldrei getað búið friðsællega saman né heldur í friðsæld við náttúruna, hversu mikill tími er eftir fyrir okkur til að læra að meta lífið?" spyr Lorenz í dansverki sínu og segist vera áhyggjufullur yfir ástandinu í heiminum.

"Hér á Íslandi finnst öllum þeir vera öruggir og enginn með áhyggjur yfir því að stríð geti brotist út. Það ýta allir heimsástandinu í burtu en mér finnst að við ættum að vera okkur betur meðvitandi og læra að meta líf okkar meira. Ég vil fá fólk til að hugsa á sýningunni minni og að það sjái að þótt það lifi góðu lífi núna geti það breyst allt í einu," segir Lorenz sem er með fimm dansara í Images, það eru: Damian Michael Gmur, Aðalheiður Halldórsdóttir, Hjördís Lilja Örnólfsdóttir, Emilía Benedikta Gísladóttir og Cameron Corbett.

Þetta er fyrsta dansverkið sem Lorenz semur og setur á svið og segist hann nú hafa uppgötvað nýja ástríðu. "Mér finnst frábært að vera danshöfundur og ég vona að ég geri meira af því í framtíðinni. Ég vona a.m.k að þessu fyrsta verki mínu verði það vel tekið að ég geti haldið áfram á þessari braut."

Lærður íþróttakennari

Lorenz gekk til liðs við Íslenska dansflokkinn árið 2002 og þá sem gestanemandi. Haustið 2003 var hann fastráðinn sem dansari. Hann nam nútímadans við dansakademíuna í Rotterdam en hefur einnig lokið íþróttakennaranámi í Þýskalandi, þaðan sem hann er.

"Starf mitt hjá Íslenska dansflokknum er það fyrsta sem atvinnudansari. Ég hafði aldrei komið hingað til Íslands áður og var forvitinn, vildi sjá hvernig er að búa hér og er ekkert á leiðinni burt í bráð."

Spurður hvernig sé að vera dansari á Íslandi segir Lorenz að stundum vildi hann að það væri meira danstengt að gerast hér á landi og að dansinn væri metinn að meiri verðleikum hjá fólki.

"Laun hjá atvinnudansara eru mjög lág hér á landi og fáir kunna að meta þá miklu vinnu sem við leggjum í þetta. Ef fólk spyr mig hvað ég geri og ég segist vera dansari þá spyr það alltaf aftur; "nei, ég meina við hvað starfar þú?" Fólk gerir sér ekki grein fyrir því að það að vera atvinnudansari er full vinna."

Ekki fullunnið verk

Danssmiðja Íslenska dansflokksins er tilraunastöð fyrir unga danshöfunda til að æfa tækni sína og sköpunargáfu. Þar eru sýnd verk í vinnslu og því eru sýningar danssmiðjunnar meira í ætt við gjörning eða tilraunir, en ekki fullmótuð verk.

"Danssmiðjan er góður staður fyrir unga danshöfunda til að byrja hjá, þetta er lítil smiðja sem þýðir að allir hafa færi á að læra og gera mikið. Það laðar líka að mikið af góðum danshöfundum og við erum mjög heppin með að fá fjölbreytt dansverk.

Til að setja upp Images fengum við þrjár og hálfa viku og ég hef reynt að ljúka sem mestu af verkinu fyrir sýninguna í kvöld en þetta verður ekki sýning með fullunnu dansverki," segir Lorenz og bætir við að verkið sé um 25 mínútur í flutningi og í bili sé aðeins stefnt að þessari einu sýningu.

Images er sýnt á nýja sviði Borgarleikhússins og hefst kl. 20 í kvöld.