Skoðun Gunnlaugur Grettisson, forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar, skoðar vefinn ásamt Sigurgeiri Jónassyni ljósmyndara sem á margar myndir á gosvefnum. Slóðin á vefsíðuna er www.heimaslod.is/gos.
Skoðun Gunnlaugur Grettisson, forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar, skoðar vefinn ásamt Sigurgeiri Jónassyni ljósmyndara sem á margar myndir á gosvefnum. Slóðin á vefsíðuna er www.heimaslod.is/gos. — Ljósmynd/Ómar Garðarsson
"HEIMASLÓÐ er í raun regnhlíf yfir allt sem viðkemur menningu, náttúru og sögu Vestmannaeyja.

"HEIMASLÓÐ er í raun regnhlíf yfir allt sem viðkemur menningu, náttúru og sögu Vestmannaeyja. Nú höfum við sett sérstaklega inn myndir sem tengjast gosinu á Heimaey og hægt er að setja af stað sjálfvirka myndasýningu og nálgast ítarupplýsingar um gosið," segir Frosti Gíslason, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar en í gær var opnaður myndavefur á vefsíðunni með myndum úr eldgosinu á Heimaey sem hófst þann 23. janúar 1973.

Á vefnum eru myndirnar settar fram í fjórum flokkum þar sem hægt er að skoða þær og lesa um þennan sögulega tíma. Í fyrsta flokki eru myndir sem eru frá upphafi gossins, í öðum flokki eru myndir sem tengjast baráttunni, í þriðja flokki uppbyggingin og sá fjórði er um tímann eftir gosið. Sighvatur Jónsson hannaði vefinn sem ætlað er að gera þessari merku og stórbrotnu sögu skil. Slóðin á vefsíðuna er www.heimaslod.is/gos og þar má finna fjölda mynda eftir Sigurgeir Jónasson en áformað er að bæta við myndum síðar.

Í gær voru einnig send á milli 1.200 og 1.300 bréf í tengslum við verkefnið Byggðin undir hrauninu en frumkvöðull að verkefninu er Helga Jónsdóttir. Snýst það um að safna upplýsingum og myndum af húsum sem fóru undir hraun í gosinu og fá því gamlir íbúar þessara húsa bréf innan tíðar, þar sem óskað er eftir upplýsingum. Þær heimildir sem safnast verða geymdar á einum aðgengilegum stað á sérstakri vefsíðu. Vestmannaeyjabær fær síðan upplýsingarnar til varðveislu.

Byggðin undir hrauninu fellur undir verkefnið um Pompei norðursins sem felur í sér uppgröft gosminja í Vestmannaeyjum. Kristín Jóhannsdóttir menningarfulltrúi og Helga Jónsdóttir sáu um að koma bréfunum í umslög og stimpla enda mikilvægt að senda bréfin með póststimplinum 23. janúar 2007 þegar 34 ár voru frá upphafi eldgossins.