Jóhannes Helgason
Jóhannes Helgason
Jóhannes Helgason skrifar um fyrirhugað skipulag á Kársnesi: "Þar með er ljóst að hugmyndirnar voru óraunhæfar áður en þær voru kynntar."

NÝLEGA var haldinn fundur í Salnum í Kópavogi þar sem kynntar voru hugmyndir að nýju skipulagi vestast á Kársnesinu. Á fjórða hundrað manns sótti fundinn og var forsvarsmönnum hans brugðið því þeir höfðu búist við um fimmtíu. Ekki létu kjörnir fulltrúar meirihluta bæjarstjórnar svo lítið að kynna hugmyndirnar heldur létu starfsmanni verkfræðistofu og nokkrum embættismönnum bæjarins það eftir.

Kynningin hófst á svipaðan hátt og þegar áróðursdeildir gömlu Natóríkjanna sýndu kvikmyndir frá kommúnistaríkjunum sálugu. Líkt og áhorfendur þá fengu að líta gaddavírsgirðingar, grámuskuleg hús og gamlar konur staulast áfram í kulda og skafrenningi fengu fundarmenn að berja augum myndir af ryðguðum rörum, bílhræjum og alls kyns sóðaskap og síðan var sagt: Svona er þetta nú, viljið þið hafa þetta svona? eða...og nú var brugðið upp myndum af glæsihýsum, þar sem fólkið lék sér glaðlegt á svip á hjólabrettum og drifhvítar, litlar skútur sigldu inn á höfn umvafða aspartrjám og fallegum stórhýsum. Og svo vikið sé aftur að sóðaskap þá liggur það í augum uppi að auðvitað viljum við, íbúar Kársnessins, ekki hafa þá hörmungarumgengni sem þar hefur liðist, heldur viljum við að sjálfsögðu hlýlegt og fallegt umhverfi þar sem mannlífið þrífst og dafnar.

Samkvæmt þeim hugmyndum sem kynntar voru er á næstu árum gert ráð fyrir að um 5.000 manna byggð rísi á Kársnesinu þar sem nú eru um 4.500 manns fyrir. Á fyllingu út í Fossvoginn er búið að samþykkja 1.200 manna hverfi og á svæðinu kringum gamla Kópavogshælið verður a.m.k. 1.000 manna byggð. Fyrstu hugmyndir gera ráð fyrir um 3.000 manna byggð vestast á Kársnesinu svo samtals verður þetta rúmlega 5.000 manna fjölgun. Í lok fundarins kom reyndar fram að fækka þyrfti fyrirhuguðum íbúðum um a.m.k. 200, þar sem næg flutningsgeta gatna væri ekki fyrir hendi. Þá heyrist að eigendur byggingarréttar umhverfis núverandi smábátahöfn telji ekki unnt að reisa þau fjölbýlishús sem sýnd voru á uppdráttum eins og brimbrjótar í sjó fram. Er það vegna sjávarstrauma framan við húsin, dýpis og brims sem berja myndi á þeim í suðvestanáttinni alræmdu. Þar með er ljóst að hugmyndirnar voru óraunhæfar áður en þær voru kynntar.

En hvernig á svo að koma öllu þessu fólki heim til sín og að heiman? Nú er talið að um 8.000 bílar aki eftir Kársnesbrautinni daglega. Ef ýtrustu hugmyndir ganga eftir verður umferð eftir brautinni um eða yfir 20.000 bílar á dag! Þá er ekki meðtalinn ýmis innanbæjarakstur. Þolir brautin þessa umferð? Og ef ekki er það ásættanlegt að leggja stokk undir götuna, eins og bæjarstjórinn hefur stungið upp á, og gera þannig íbúum illmögulegt að komast heim að húsum sínum næstu árin meðan bygging hans stendur yfir? Gleymum ekki að verið er að tala um rótgróið hverfi þar sem íbúar hafa treyst því að festa væri komin á. Þær hugmyndir að leysa hluta vandans með tvennum umferðarljósum með 50 metra millibili eru svo vitlausar að ekki tekur tali. Það nær heldur engri átt að leggja braut utan við Kársnesið að norðanverðu. Rask sem því fylgir er óþolandi og kostnaður slíkur að hann æti að öllum líkindum upp margra áratuga meintar tekjur af hinni nýju byggð.

Gangi tillögurnar eftir fer hávaði í a.m.k. 30 húsum við Kársnesbraut yfir þau viðmiðunarmörk sem leyfð eru í dag. Að áliti meirihlutans virðist það hins vegar vera í lagi þar sem þarna er um gamalt hverfi að ræða. Hvað finnst íbúunum um það?

Á fundinum kom fram sú hugmynd að íbúar Kársnessins fengju að kjósa um þær tillögur sem uppi eru. Í eyrum kjörinna fulltrúa virðast slíkar hugmyndir ávallt sem eitur, enda var fundarstjórinn, formaður skipulagsnefndarinnar, fljótur að snúa út úr tillögunni með breiðu brosi. Einn fundarmanna spurði líka hvaða nauðsyn væri á öllum þessum byggingarmassa á Kársnesinu. Svörin voru engin, en einnig má spyrja, eru fyllingar í sjó fram nauðsynlegar svo og eyðilegging strandlengjunnar með tilheyrandi kostnaði þegar bærinn kaupir lönd víðs vegar fyrir milljarða. Hagsmuna hverra eru bæjarfulltrúar að gæta, íbúanna eða verktaka og lóðakaupenda?

Í hugmyndum meirihlutans ber mikið á höfninni. Deilt hefur verið um hvort þetta verði stórskipahöfn eða ekki og hefur bæjarstjórinn blásið á fullyrðingar um að svo sé. Fólk hefur áhyggjur af þungaflutningum sem slíkri höfn fylgja þar sem heyrst hefur að aðalnotendur hafnarinnar verði Byko og Toyota. Bæjarstjórinn hefur hins vegar bent á að Atlantsskip, sem nú leggja skipum sínum að hafnarbakka í Kópavogi fjórum til fimm sinnum í mánuði, séu á förum og í framtíðinni muni aðeins þrjú til fjögur skip leggja að í mánuði og þar með minnki þungaflutningar frekar en aukist. En hversu stór verða nýju skipin? Það veit enginn. Og hvernig á höfnin að bera sig ef einungis fjögur skip nýta hana í mánuði. Verða þá ekki umsvifin aukin á annan hátt og þar með umferðarþunginn líka? Hvað um olíu- og eiturefnaflutninga, þurfa þeir ekki að fara í gegnum íbúðarhverfin? Hvað gerist ef eiturefnagámur eða olíubíll veltur ofan í garð við Kársnesbraut? Er það áhættunnar virði?

Höfundur er íbúi á Kársnesi.