Skorar Ásgeir Örn Hallgrímsson brýst fram hjá varnarmönnum Frakka og skorar.
Skorar Ásgeir Örn Hallgrímsson brýst fram hjá varnarmönnum Frakka og skorar. — Ljósmynd/Günter Schröder
"ÉG vonast til þess að menn hafi jafnað sig eftir Frakkaleikinn en vonandi höldum við okkur áfram á flugi í keppninni," sagði Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari í handknattleik í gær. "Ég vænti þess að menn taki það besta úr Frakkaleiknum með sér í næstu leiki.

Eftir Ívar Benediktsson í Dortmund

iben@mbl.is

Alfreð segist telja að Túnisbúar hafi vanmetið lið Slóveníu og það sé skýringin á óvæntu tapi á mánudagskvöldið. "Túnis leikur ekki ósvipaðan handknattleik og Frakkar og því eigum við að vera vel undir það búnir að mæta þeim," segir Alfreð.

"Ég þekki ekkert til Túnisliðsins og var reyndar fyrst rétt áðan að fá í hendurnar upptökur af leikjum þeirra sem ég skoða í kvöld og á morgun. Það verður það fyrsta sem ég sé eitthvað almennilega af Túnisliðinu, ennþá renn ég blint í sjóinn með þá", sagði Birkir Ívar Guðmundsson, markvörður íslenska landsliðsins, rétt áður en hann fór á æfingu með félögum sínum í íþróttahöllinni í Halle Westfalen í gærkvöldi, en þangð kom íslenska landsliðið frá Magdeburg í gær.

"Við verðum að fylgja sigrinum á Frökkum eftir með því að leggja Túnisbúa í dag. Það hefur verið galli á liðinu til þessa hversu misjafnir leikir okkar eru. Við getum leikið afar vel eins og gegn Frökkum en síðan fallið langt niður eins og menn sáu í viðureigninni við Úkraínu. Við verðum að fá meiri jafnvægi í liðið í framhaldinu. Nú megum við ekki detta niður," segir Birkir Ívar, en hann var af mótshöldurum talinn besti leikmaður liðsins gegn Frökkum og fékk viðurkenningu að launum.

Þurfum stöðugleika

"Frakkaleikurinn er að baki og sá næsti framundan. Nú verðum við að halda áfram þar sem frá var horfið í leiknum við Frakka í næstu viðureignum," sagði Sverre Jakobsson, varnarmaðurinn sterki í samtali við Morgunblaðið í gær. "Við fengum annað líf í keppninni og nú verðum við að halda því gangandi. Þeir höfnuðu í fjórða sæti á síðasta heimsmeistaramóti og ætla sér enn stærri hlut að þessu sinni. Þar af leiðandi reiknum við með þeim mjög sterkum þrátt fyrir að þeir hafi tapað fyrir Slóvenum í lokaleik riðlakeppninnar.

Allar fjórar viðureignirnar í milliriðlinum verða mjög erfiðar. Úrslitin eiga eflaust eftir að ráðast á síðustu mínútunum. Takist okkur að leika eins vel og gegn Frökkum þá tel ég okkar allir vegir færir.

Komnir upp að vegg

Við vorum komnir upp að vegg fyrir leikinn við Frakka. Tækifæri okkar á að gera góða hluti á HM í Þýskalandi var að ganga okkur úr greipum. Það var enginn tilbúinn til að láta tækifærið fara frá sér, hindrunin var stór, en við fórum yfir hana. Nú er komið að þeirri næstu, stöðugleiki er það sem við þurfum til að ná árangri," sagði Sverre Jakobsson og var þar með rokinn á æfingu.

"Við höfum aðeins verið að skoða leiki með Túnis í dag og höldum því áfram næstu klukkutímana. En eitt er ljóst; Túnis er með mjög sterkt lið og er hingað komið til þess að vinna til verðlauna," sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, aðstoðarlandsliðsþjálfari.

"Túnisliðið hefur innan sinna raða frábæran leikstjórnanda, afar góðan línumann og gríðarlega öfluga rétthenta skyttu. Liðið leikur mjög skipulega undir stjórn júgóslavnesks þjálfara. Þá er 3/2/1 vörn liðsins mjög góð þar sem "senterinn" framarlega. Undir það verðum við að búa okkur af kostgæfni."