Landsaðgangur Rán stólar á hvar.is í námi sínu.
Landsaðgangur Rán stólar á hvar.is í námi sínu. — Morgunblaðið/Steinunn
"ÉG sæki í raun og veru mjög stóran hluta af mínum heimildum í gegnum hvar.is," segir Rán Þórarinsdóttir líffræðingur sem býr á Egilsstöðum. Slóðin gegnir mjög mikilvægu hlutverki í meistaranámi Ránar í líffræði sem hún lýkur brátt.

"ÉG sæki í raun og veru mjög stóran hluta af mínum heimildum í gegnum hvar.is," segir Rán Þórarinsdóttir líffræðingur sem býr á Egilsstöðum. Slóðin gegnir mjög mikilvægu hlutverki í meistaranámi Ránar í líffræði sem hún lýkur brátt. Verkefnið fjallar um vistfræðilega þætti sem tengjast öndum og hópamyndun andarunga, sem hún segir nokkuð "krúttlegt verkefni".

"Annaðhvort get ég sótt heimildirnar beint á hvar.is eða fæ upplýsingar um hvar ég get nálgast þær. Við erum náttúrlega með fullt af greinasöfnum á Íslandi en þau eru dreifð víða og eru meira og minna öll á höfuðborgarsvæðinu.

Þannig að ég yrði að gera mér nokkurra daga ferð suður og væri lengi að hlaupa á milli húsa við að leita uppi efni og fletta í gegnum tímarit. Með leitarsíðum hvar.is, aðallega Web of Science, get ég bara sett inn lykilorð og þá fæ ég niðurstöður. Ég get pantað efni eða hreinlega prentað heimildir út heima hjá mér.

Fær engar heimildir fyrir austan nema í gegnum netið

Þessi landsaðgangur skiptir mjög miklu máli fyrir þá sem nota frekar heimildir úr tímaritum en bókum. Ég hef verið í fjarnámi síðustu mánuði og það væri ekki gerlegt án þessarar þjónustu. Ég var reyndar búin að afla mér ýmissa heimilda fyrir sunnan en fæ ekkert af mínum heimildum hér fyrir austan nema í gegnum netið og þá helst af þessari síðu."

Rán hefur aðallega notað landsaðganginn hvar.is eftir að BS-prófinu lauk og virðast háskólanemendur sem hafa lokið fyrstu gráðu einmitt vera helstu notendurnir. Með síauknum aðgangi verða möguleikarnir þó meiri á öllum skólastigum.