— Morgunblaðið/RAX
LANDSVIRKJUN hefur nú á vef sínum www.lv.is, sett upp sérstakan hnapp sem vísar á upplýsingar um virkjanir í Neðri-Þjórsá. Samkvæmt tilkynningu frá Landsvirkjun er von á sérvef um þetta efni í stíl við Kárahnjúkavefinn.

LANDSVIRKJUN hefur nú á vef sínum www.lv.is, sett upp sérstakan hnapp sem vísar á upplýsingar um virkjanir í Neðri-Þjórsá. Samkvæmt tilkynningu frá Landsvirkjun er von á sérvef um þetta efni í stíl við Kárahnjúkavefinn. Segir Landsvirkjun að héðan í frá verði unnt að fylgjast með því sem er að gerast varðandi þessar virkjanir.

Á vef Landsvirkjunar undir Þjórsárhnappnum segir að fyrirtækið undirbúi nú byggingu þriggja virkjana í Þjórsá. Fyrirhugað er að reisa þrjár virkjanir í Neðri-Þjórsá til að nýta fallið í ánni neðan Búrfellsstöðvar. "Efsta virkjunin er nefnd Hvammsvirkjun, síðan kemur Holtavirkjun og neðsta virkjunin er nefnd Urriðafossvirkjun.

Ein virkjun ofan Urriðafoss eða tvær smærri virkjanir

Niðurstaða í mati á umhverfisáhrifum heimilar Landsvirkjun að byggja hvort heldur er eina virkjun ofan Urriðafoss eða tvær smærri, þ.e. Hvamms- og Holtavirkjun, og hefur Landsvirkjun ákveðið að nýta fallið þar með byggingu tveggja aflstöðva fremur en einnar," segir þar.