Sterkur Alexander Petersson átti stórgóðan leik í vörn og sókn gegn Frökkum. Hér skorar hann án þess að leikmaðurinn snjalli Joel Abati komi vörnum við í leiknum í Magdeburg.
Sterkur Alexander Petersson átti stórgóðan leik í vörn og sókn gegn Frökkum. Hér skorar hann án þess að leikmaðurinn snjalli Joel Abati komi vörnum við í leiknum í Magdeburg. — Ljósmynd/Günter Schröder
FYRSTU andstæðingar íslenska landsliðsins í handknattleik í milliriðlakeppninni verða Afríkumeistarar Túnis og eina liðið utan Evrópu sem komst í hóp ellefu bestu liða heimsmeistaramótsins að þessu sinni.

FYRSTU andstæðingar íslenska landsliðsins í handknattleik í milliriðlakeppninni verða Afríkumeistarar Túnis og eina liðið utan Evrópu sem komst í hóp ellefu bestu liða heimsmeistaramótsins að þessu sinni. Landslið Túnis er afar sterkt og hefur undanfarin fjögur til fimm ár verið áberandi langsterkasta lið Afríku og í raun hefur egypska landsliðið verið það eina sem eitthvað hefur getað keppt við Túnisbúana.

Eftir Ívar Benediktsson í Dortmund

iben@mbl.is

Fyrstu andstæðingar íslenska landsliðsins í handknattleik í milliriðlakeppninni verða Afríkumeistarar Túnis og eina liðið utan Evrópu sem komst í hóp ellefu bestu liða heimsmeistaramótsins að þessu sinni. Landslið Túnis er afar sterkt og hefur undanfarin fjögur til fimm ár verið áberandi langsterkasta lið Afríku og í raun hefur egypska landsliðið verið það eina sem eitthvað hefur getað keppt við Túnisbúana. Bengt Johansson, hinn sigursæli fyrrverandi landsliðsþjálfari Svía, segir landslið Túnis vera "martröð hvers þjálfara". Liðið sé á tíðum hreint óútreiknanlegt, en víst sé að það sé ekki eins og mörg norður-afrísk landslið á síðustu árum, sem komið hafa skyndilega upp og unnið einn eða tvo leiki áður en botninn detti úr því. Túnisbúarnir séu geysilega vel þjálfaðir, sterkir og agaðir og geti í raun unnið hvaða landslið í heiminum sem er.

Í aðdraganda þess að Túnis var gestgjafi síðasta heimsmeistaramót var lögð gríðarleg áhersla á að byggja upp sterkt handknattleikslandslið af hálfu handknattleikssambands landsins. Ráðinn var afar fær þjálfari, Sead Hasanefendic, sem hefur komið mikilli skikkan á leikaðferðir og þjálfun. Hasanefendic hefur mikla reynslu sem þjálfari eftir að hafa starfað um árabil í Sviss og einnig í fyrrverandi Júgóslavíu þar sem hann er uppalinn í íþróttinni.

Hasanefendic stýrði Túnis í fjórða sæti á heimavelli á HM 2005. Allt það mót biðu menn eftir að liðið missti dampinn en það gerðist ekki og heimamenn voru í skýjunum yfir árangrinum, sem er sá besti sem afrískt landslið hefur náð á heimsmeistaramóti karla í handknattleik.

Stór hluti leikmanna landsliðs Túnis leikur með félagsliðum í Frakklandi en nokkrir á heimavelli. Fjórir spila með Montpellier, sem hefur verið eitt sterkasta félagslið Evrópu síðustu ár. Sá fimmti bætist í hópinn í sumar þegar leikstjórnandinn Haykel Mgannem flytur sig frá Nimes. Þess má til gamans geta að Ragnari Óskarssyni er ætlað að taka við hlutverki Mgannem hjá Nimes. Mgannem er afar sterkur leikstjórnandi, hefur mikinn leikskilning auk þess að vera afbragðsskytta, en nú um stundir er hann annaðhvort efstur eða á meðal efstu manna í alls kyns tölfræði sem tengist frönsku 1. deildinni.

Wissem Hmam er skærasta stjarna landsliðsins. Hann varð markahæsti leikmaður síðasta heimsmeistaramóts og gerði í kjölfarið mjög góðan samning við Montpellier og er fyrir vikið einn launahæsti leikmaður franska handknattleiksins. Hmam er 197 sentímetra hár og mikil rétthent skytta sem tekið hefur miklum framförum á síðustu árum og agast mikið sem leikmaður eftir að hann fór að leika í Frakklandi.

Túnisbúar töpuðu óvænt fyrir Slóveníu í lokaleik sínum í riðlakeppninni og koma þar með án stiga í milliriðil. Lið þeirra er því sem sært ljón, ekki í ósvipaðri stöðu og það íslenska fyrir viðureignina við Frakka. Þar sem Túnismenn eru án stiga er ljóst að þeir munu leggja allt í sölurnar til þess að vinna fyrsta leikinn í milliriðli til þess að geta verið með í baráttunni um efstu sætin í riðlinum. Takist þeim það ekki er hætt við að botninn detti úr liðinu; vinni það Íslendinga í dag getur það hiklaust komist áfram í undanúrslit.