Pabbinn Að brjóta saman þvottinn er eitt af hlutverkum feðra nútímans sem Bjarni Haukur fjallar um í verki sínu.
Pabbinn Að brjóta saman þvottinn er eitt af hlutverkum feðra nútímans sem Bjarni Haukur fjallar um í verki sínu. — Morgunblaðið/Ásdís
Eftir Ingveldi Geirsdóttur ingveldur@mbl.

Eftir Ingveldi Geirsdóttur

ingveldur@mbl.is

Föðurhlutverkið hefur ekki þótt eftirsóttur efniviður í leikverk hingað til en nú hefur Bjarni Haukur Þórsson, sem er líklega best þekktur fyrir Hellisbúann , sett upp leikritið Pabbann sem verður frumsýnt í Iðnó á morgun.

"Ég er búinn að vera í þessum leikhúsbransa í mörg ár og man ekki eftir neinu verki sem tekur á þennan hátt á föðurhlutverkinu svo það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig þetta fer í fólk," segir Bjarni Haukur, höfundur verksins og eini leikari.

"Ég hef spáð í þennan efnivið í nokkurn tíma. Ég byggi handritið að miklum hluta á eigin reynslu auk þess sem ég ræddi við vini mína og aðra karlmenn í kringum mig."

Karlmenn á hliðarlínunni

Að hans sögn fjallar Pabbinn á gamansaman hátt um það hvað er að vera pabbi í nútímasamfélagi.

"Eins og ég tala um í verkinu hefur hlutverk feðra breyst mjög mikið á seinustu tuttugu árum, ég er allt öðruvísi pabbi en pabbi minn var, áður fyrr voru karlmenn að gera aðra hluti og ekki talið eðlilegt að þeir sinntu börnunum mikið. Nú erum við að fatta hvað við höfum farið á mis við í hundruð ára, en að fá að sinna barninu sínu og taka þátt í uppeldinu er ein mesta gjöf lífsins," segir Bjarni Haukur og er á því að staða feðra í samfélaginu dag sé mjög góð en gæti eflaust verið betri. Spurður hvort karlmenn séu í einhvers konar kreppu vegna þessa nýja hlutverks segir Bjarni Haukur það vel geta verið.

"Karlmenn hafa engar fyrirmyndir í að sinna föðurhlutverkinu eins og ætlast er til í dag en konan er með mikla uppsafnaða þekkingu sem móðir. Karlmenn eru meira á hliðarlínunni, að spyrja hvað þeir eigi að gera. Á sama tíma og við eigum að taka virkan þátt í uppeldinu erum við kannski jafnmikið spurningarmerki og við höfum alltaf verið. Við þurfum að leggja meira á okkur til að setja okkur inn í málin, allar þessar bækur og öll þessi aðstoð sem býðst er í mörgum tilfellum ekki miðuð að karlmönnum og þetta allt getur skapað ákveðna kreppu. En síðan er það líka mjög persónubundið hversu mikinn þátt karlmenn vilja taka í uppeldinu."

Bjarni Haukur segir að það megi alveg sjá smásamfélagsspeglun í verkinu, smábrodd.

"Ég er að spyrja spurninga, t.d hvað er mikilvægast í lífinu. Ég held að karlmenn séu að fatta að það mikilvægasta í lífinu er ekki að byggja hús og metast um hver á mestu peningana heldur annað."

Hvers vegna að eignast börn?

Bjarni Haukur sló í gegn hér á landi fyrir nokkrum árum í verkinu Hellisbúanum .

" Pabbinn er öðruvísi verk, ég er ekki að setja það upp til að reyna að toppa Hellisbúann , þá væri ég bara geðveikur. Mig langaði bara að segja þessa sögu."

Eins og Hellisbúinn er Pabbinn einleikur, þar sem Bjarni Haukur stendur einn á sviðinu og segir söguna.

"Mér fannst einleiksformið rétta leiðin til að segja þessa sögu enda elsti frásagnarmáti sem til er."

Leikverkið er frásögn, þar sem pabbinn fjallar um aðdraganda þess að hann og konan hans ákváðu að eignast barn, um meðgönguna, fæðinguna, fyrstu skrefin og uppeldistímabilið sem varir lengst. Allt er séð frá sjónarhóli kalmannsins.

Ein af vangaveltunum í leikritinu er spurningin hvers vegna við eignumst börn og vert er að spyrja Bjarna að lokum hvert svarið er við henni. "Ekki vantar fólkið, það er til nóg af því og ef okkur vantar það þá flytjum við það inn. En eignumst við börn af ást eða sjálfselsku eða finnst okkur bara svona gott að gera'ða? Þessum spurningum svara ég í leikritinu á minn hátt og fólk verður bara að koma sér í Iðnó og fá svörin," segir Bjarni Haukur og hlær.

Leikstjóri verksins er Sigurður Sigurjónsson en hann leikstýrði Bjarna einnig í Hellisbúanum . Um leikmynd sér Egill Eðvarðsson, lýsing er í höndum Árna Baldvinssonar og Þórir Úlfarsson gerir tónlistina.

Frumsýning er eins og áður segir á morgun, fimmtudag, í Iðnó.