— Reuters
LÍBANSKIR hermenn standa vörð fyrir framan mótmælendur í Dora, austur af Beirút, höfuðborg Líbanons, í gær. Þúsundir mótmælenda settu upp vegartálma úr brennandi hjólbörðum og allskyns rusli í Beirút og víðar í landinu.

LÍBANSKIR hermenn standa vörð fyrir framan mótmælendur í Dora, austur af Beirút, höfuðborg Líbanons, í gær. Þúsundir mótmælenda settu upp vegartálma úr brennandi hjólbörðum og allskyns rusli í Beirút og víðar í landinu.

Flug raskaðist og dökkur reykjarmökkur lá yfir borginni. Mótmælin eru hluti af almennu verkfalli sem Hizbollah, hreyfing herskárra sjíta, sem er studd dyggilega af Sýrlendingum og Írönum, boðaði til. Krefst hún afsagnar Fuad Siniora forsætisráðherra og að mynduð verði þjóðstjórn þar sem hún hafi neitunaratkvæði. Hóta liðsmenn hennar áframhaldandi aðgerðum þar til ríkisstjórnin er fallin.

Stjórnarliðar telja aðgerðirnar, sem hafa staðið yfir í nokkrar vikur, hins vegar tilraun til valdaráns, sem lami samgöngukerfið. Þeir hafa einnig hvatt stuðningsmenn sína til að sniðganga verkfallið, sem hefur þegar sett allt atvinnulíf landsins úr skorðum.

Hizbollah hefur allt frá því í desember sl. reynt að koma ríkisstjórninni, sem nýtur stuðnings Vesturlanda, frá með mótmælum og andófi.

Að minnsta kosti 133 manns hafa særst og þrír týnt lífi í átökum mótmælenda og stjórnarsinna, að sögn líbönsku lögreglunnar. Ráðstefna alþjóðlegra stuðningsaðila stjórnarinnar hefst í París á morgun, þar sem rætt verður um leiðir til að endurreisa efnahag landsins eftir átök Hizbollah við Ísraelsher í fyrrasumar.